Fara í efni

ÁKALL KÚRDA UM HJÁLP - 200.000 Á FLÓTTA!

Kúrdar - bréf
Kúrdar - bréf
Nýlega barst mér í hendur hjálparákall frá kúrdneska bæjarstarfsmannasambandinu í austurhluta Tyrklands. Fyrir nokkru hefði ég sagt tyrkneska hluta Kúrdistans. Staðreyndin er hins vegar sú, að á undanförnum árum hafa Kúrdar lagt minna upp úr því að stofna sjálfstætt ríki í þeim löndum sem þeir byggja, Tyrklandi, Sýrlandi, Íran og Írak, en þeim mun meira upp úr sjálfstórn og sjálfræði innan þessara ríkja.

Þessi nýja nálgun, samhliða áherslu á að ná markmiðum fram með friðsamlegum hætti, skilaði Kúrdum sýnilegum árangri í tyrknesku þingkosningunum í júní  - reyndar svo miklum að meirihluti Erdogans forseta féll. Síðan hafa tyrknesk stjórnvöld ekki linnt látum og efnt til ófriðar við Kúrda leynt og ljóst. Á ófriðaraöldunni reið Erdogan síðan að nýju til valda í nýjum þinkosningum í haust.

Í júlílok hafði Erdogan fengið blessun NATÓ fyrir nýjar ofbeldisaðgerðir gegn Kúrdum í skiptum fyrir aðstöðu fyrir bandaríska loftherinn á tykneskum flugvöllum í stríðinu við ISIS en þau illu samtök hafa Tyrkir stutt beint og óbeint.

Í aðdraganda þingkosninganna í Tyrklandi í nóvemberbyrjun stóð tyrkneska leyniþjónustan fyrir hryðjuverkum sem reynt var að kenna Kúrdum um, en svo augljós voru fingraförin að heimspressan komst ekki upp með að taka þátt í lyginni þótt oft væri reynt.

Ekki nóg með þetta.

Nú berast fréttir af fjöldahandtökum, morðum og margvíslegu ofbeldi í héruðum Kúrda í austanverðu Tyrklandi.

Í fyrrnefndu hjálparákalli frá kúrdneska bæjarstarfsmannasambandinu segir að ofbeldið hafi leitt til þess að um 200 þúsund manns hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín; með öðrum orðum, komnir á flótta, orðnir flóttamenn.

Það er góðra gjalda vert að taka á móti flóttamönnum til Íslands og styð ég það, en vesælt er hlutskipti íslenskra stjórnvalda að horfa þegjandi á ríkisvaldið í Tyrklandi búa til nýjan flóttamannavanda með blessun NATÓ, hernaðarbandalags sem Ísland á aðild að.

Gleymum því ekki að fyrsta ósk flóttamannsins er yfirleitt sú að geta snúið til síns heima og búið þar í friði og öryggi.

Nokkrar slóðir um efnið:

https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvorki-erdogan-ne-nato-koma-a-ovart

https://www.ogmundur.is/is/greinar/grimmdarverk-i-tyrklandi

https://www.ogmundur.is/is/greinar/island-ur-nato

https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-thjodhatid-i-kurdistan