Fara í efni

Á ÞJÓÐHÁTÍÐ Í KÚRDISTAN

1 - kurd
1 - kurd

Þegar ég sat þing Evrópuráðsins í Strasbourg um mánaðamótin janúar/febrúar sl., kom að máli við mig Kúrdi frá Diyarbakir í Tyrklandi, og spurði hvort ég hefði komið til Kúrdistan. Ég kvað svo ekki vera en að ég hefði fylgst nokkuð með málefnum Kúrda úr fjarlægð eins og flestir sem fylgjast með gangi heimsmálanna en þekking mín væri þó mjög yfirborðskennd.
„Þá sting ég upp á að þú komir til Diyarbakir í marsmánuði og verðir við Newroz hátíðahöldin en þau eru eins konar þjóðhátíð Kúrda. Þetta eru einhver fjölmennustu og mögnuðustu hátíðahöld sem um getur. „Fjárráð okkar eru ekki mikil, þannig að við getum ekki boðið þér í þetta langa ferðalag, en hitt veit ég að þér verður vel tekið." Svo mæltist Fayik Yagizay, fulltrúa BDP, kúrdíska lýðræðisflokksins hjá Evrópuráðinu.
Þessi tillaga þótti mér spennandi, meira að segja svo mjög að ég lagði til við konu mína að við smelltum okkur á þjóðhátíð í Kúrdistan. Og hér erum við stödd þegar þetta er skrifað.
Við flugum til London á miðvikudagsmorgni og síðan um Istanbúl til Diyarbakir. Þar lentum við klukkan tvö aðfararnótt fimmtudagsins. Og það reyndist rétt sem Fayik hafði sagt að vel var tekið á móti okkur.  
Sú var reyndin allt frá fyrstu stundu og þar til yfir lauk.
Á flugvellinum í Diyarbakir var mættur túlkur og leiðsögumaður okkar, ung stúlka, Serra Hakyemez. Hún var  sjálfboðaliði í hreyfingu Kúrda, þótt sjálf væri hún ekki Kúrdi eins og hún átti eftir að segja okkur, heldur frá Svartahafsströnd Tyrklands, félagsfræðingur og mannfræðingur frá háskólum í Istanbúl, London og Bandaríkjunum. Stórklár manneskja og þægileg. Okkur innan handar var einnig Veysi Altay, fréttamaður og höfundur heimildamynda, meðal annars myndar um aftökur án dóms og laga.

Í Diyarbakir
2 kurd
Klukkan hálf tíu á fimmtudagsmorguninn náði Serra í okkur á hótelið og hélt með okkur í Lýðræðishús fólksins (Kongreya Civaka Demokratik, á ensku kallað People´s Democratic Congress). Húsið er í eigu borgarinnar en leigt til Lýðræðissamtaka fólksins. Þarna tóku á móti okkur forsvarsfólk þessara samtaka eða stofnunar,  kúrdískir þingmenn á tyrkneska þinginu og fleira forsvarsfólk úr baráttuhreyfingu Kúrda. Við sögðum deili á okkur og þau á sér og síðan tóku þau til við að útskýra þann veruleika sem þau hrærðust í.
3 - kurd 
Smám saman tók fróðleikurinn að taka á sig mynd. Við vorum frædd á því að Kúrdar væru fjölmennari í Tyrklandi en í nokkru öðru landi (upplýsingar um fjölda Kúrda eru á reiki, sagðir vera frá tuttugu til þrjátíu milljónir en flestum ber saman um að um helmingur allra Kúrda byggju í Tyrklandi og væru yfir tuttugu prósent  íbúa þar, næst kæmi Írak, svo Íran og þá Sýrland). Kúrdar hefðu verið beittir miklu harðræði í tímans rás, tunga þeirra bönnuð og öll samtök. Fram til 1991 var það glæpsamlegt athæfi og varðaði hegningarlagabroti að tala kúrdísku á götum úti. Þetta kom fram í svari við spurningu minni um það hvort kúrdíska væri kennd í skólum. Það var semsagt fjarri lagi.
1978 hafi kúrdíski verkamannaflokkurinn verið stofnaður, PKK. Hann var bannaður enda á þessum árum reiðubúinn að grípa til vopna Kúrdum til varnar. Flokkurinn er enn bannfærður og skilgreindur sem hryðjuverkasamtök, ekki aðeins af Tyrkjum, heldur einnig Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og viti menn Sýrlendingum. Þó var Abdullah Öcalan, leiðtogi flokksins lengi í Sýrlandi í útlegð og stýrði þaðan PKK. Hann var hins vegar í Naírobi i Kenya, þegar hann var handtekinn árið 1999 af tyrkneskum leyniþjónustumönnum, færður til Tyrkalnds þar sem hann hefur verið í fangelsi síðan á Imrali eyju í Marmarahafinu, lengi vel eini fanginn síðan ásamt örfáum öðrum.

Newroz

Á þessum fyrstu fundum okkar með talsmönnum Kúrda var skýrð fyrir okkur pólitísk þýðing Newroz hátíðarinnar. Hún væri í heiðri höfð um öll Mið-austurlönd og ekki einskorðuð við Kúrda, heldur eins konar hátíð til að bjóða velkomna nýja árstíð, vorið.
Hjá Kúrdum hefði hins vegar verið lögð rækt við þann sögulega þráð Newroz sem tengdist andstöðu við kúgun og vald. Þessi vegna hefði Newros verið bannað í tyrkneska hluta Kúrdistan allar götur til ársins 2000 og það hafi ekki verið lengra síðan en fyrir tveimur árum að reynt var með hervaldi að koma í veg fyrir hátíðahöldin. Við heyrðum frásagnir af ofbeldi hersins. Ekki fyrir alls löngu var skotið á jarðarför sem þótti hafa pólitíska þýðingu undir því yfirskyni að í göngunni hefðu verið hryðjuverkamenn. Eitthvert mannfall varð.  
Brynvagnar, sem sjá mátti á götum úti minntu á þennan veruleika. Og þegar við spurðum hverju gegndi að tölvukerfið hótelinu hefði ekki virkað að morgni Newros hátíðarinnar var okkur sagt að það vildi brenna við að í tengslum við þessi hátíðahöld gengi sitthvað úr skorðum.
En það var ekki bara tungan og Newros sem var lagt bann við. Þegar herforingjar höfðu hrifsað völdin í Tyrklandi 1980, voru sett herlög. Þegar fulltrúalýðræði var aftur leyft þremur árum síðar voru þau numin úr gildi - alls staðar nema í Kúrdistan. Þar giltu herlög til 2002. Við spurðum um áhrif þessa. Áhrifin hefðu verið slæm og þeirra gætti enn á afgerandi hátt.
Þótt banni við tungumálinu hefði verið formlega aflétt 1991 hefði það farið illa með málið í bæjum og borgum, kannski síður til sveita. Væru menn grunaðir um að tilheyra PKK væri það notað sem sönnunargagn, hefði viðkomandi kúrdneskar bókmenntir eða þjóðlagasöngva á kúrdnesku í fórum sínum!

Gestgjafinn útlagi!

Nú fórum við líka að skilja hvers vegna Fayik vinur minn var ekki á staðnum. Hann hafði nefnilega svarað  því til þegar ég spurði hann hvort við hittumst ekki örugglega á þjóðhátíð í Diyarbakir, „nei, þangað má ég ekki koma því ég er útlagi, má reyndar ekki til Tyrklands koma."
Og allt fór að fá þýðingu sem við höfðum ekki áður skilið til fulls t.d. þegar landamæravörðurinn í Istanbúl tók okkur með þjósti þegar hann sá hvert förinni var heitið. „Og hvað eruð þið að vilja til Diyarbakir," spurði hann reiðilega og lamdi stimplinum niður eins og til að láta okkur ekki velkjast í vafa um að gestir á  Newroz í kurdíska hluta Tyrklands væru engir aufúsugestir.
4 - kurdÍ Lýðræðishúsinu var okkur sagt að beðið væri eftir skilaboðum leiðtogans, Öcalans, úr fangelsinu á Imrali eyju. Þau yrðu lesin upp á Newros fjöldasamkundunni daginn eftir.
Og fjöldasamkunda var það. Skipuleggjendur sögðu 2-3 milljónir, varkárari aðilar sögðu milljón, en alla vega það. Uppá það get ég skrifað þótt ég hafi vissulega ekki reynslu i að telja fólk í milljónavís á útifundum!
Og skilaboðin frá Öcalan voru á þessa leið: Við búum í vöggu menningar mannkynsins, Mesopotamíu hinni fornu. Þar hefur margt gerst í tímans rás en nú á sér hér stað vakning. Tökum henni fagnandi. Kúrdar þekkja þrengingar, stríð og ofbeldi. Við höfum staðist slíkar raunir. Við kunnum líka að höndla friðinn. Og þegar við erum beitt ofbeldi af hálfu yfirvalda til að setja friðarferlið út af sporinu til að veikja okkur, þá látum við ekki slá okkur út af laginu. Friðurinn þjónar öllum ekki bara  okkur heldur  Mið-austurlöndum öllum og reyndar gervöllum heiminum.

„Félagsfræði frelsisins"

Á þessa leið nokkurn veginn orðrétt hljómaði boðskapurinn. Í skilaboðum Öcalans mátti merkja þær áherslur sem okkur var sagt að hann hefði sett fram í ritum sínum úr fangelsinu, „Félagsfræði frelsisns, Sociology of freedom" og „Manfesto of Democratic Kurdistan". Þar tali hann fyrir því að hugsa meira um inntak mannréttinda en formlega umgjörð þeirra, valdakerfanna, þar með talið ríkisins. Afnám ríkisins er honum ofarlega í huga, ef til vill að einhverju leyti er þar að finna marxískan þráð en miklu fremur hygg ég þó þráður Öcalans sé spunninn úr veruleika Kúrda.
Sá veruleiki hefur verið margbrotinn og flókinn. Þegar Öcalan er að hefja sín pólitísku afskipti þótti allt sem sneri að þjóðerni og trúarbrögðum illa samrýmast sósíalisma. Öcalan og félagar áttuðu sig hins vegar smám saman á því að ekki er hægt að horfa framhjá slíkum þáttum í lífi þjóða sem eru undirokaðar á nákvæmlega þessum forsendum. Við þetta verða skil á milli kúrdískra sósíalista og tykneskra og haldast þau enn. Leið kúrdísku sósíalistanna einkenndist hins vegar af áherslu á umburðarlyndi og frjálslyndi í trúarlegum og menningarlegum efnum.

Gluggalaust herbergi

Áður en við lögðum upp í för las ég grein eftir íraskan Kúrda, RaberYAziz, sem fjallaði um mögulegt sjálfstæði Kúrda. Hann sagði að vissulega væri sjálfstæði eftirsóknarvert, en þjóð sem væri innilokuð af óvinveittum ríkjum allt um kring myndi varla njóta fullveldis sem sjálfstætt ríki. Það væri eins og að búa í herbergi án glugga og án dyra, skrifaði þessi íraski Kúrdi.
http://kurdishobserver.blogspot.com/2013/11/friendly-relations-and-then-some.html
Hvað hugmyndiur Öcalans áhrærir þá er ég staðráðinn í að kynna mér þær betur en vel þykir mér þær ríma við mína grundvallarhugsun.
Og þetta var boðsakapurinn sem hrópaður var yfir milljón manna fundinn í Diyarbakir sl. föstudag: Við viljum frið en sá friður þarf að byggja á virðingu fyrir menningu fólks, lýðræðinu og mannréttindum. Og þess skulu stjórnvöldin minnast að til eru valkostir, við eigum þann valkost að berjast fyrir sjálfstæði. En framar öllu  viljum við ná fram markmiðum okkar í sátt og samlyndi án þess að horfa til stofnunar ríkis. Allir eiga að finna sér stað í  slíku fyrirkomulagi.  Og nú skildi ég hugmyndina að baki Lýðræðishússins í Diyarbakir, hússins þar sem allir ættu að geta verið undir sameiginlegu þaki, Kúrdar, Tyrkir og allir aðrir. Ég hugsaði að kannski væri þetta fremur hugmynd en hús, hugmynd sem bíður eftir því að verða að veruleika, hús sem á eftir að fylla af lýðræði og fjölbreytileika.

Endalaus viðtöl
5 - kurd 
Nöfnin okkar Völu voru lesin upp á útifundinum mikla og við boðin velkomin frá fjarlægum slóðum ásamt öðrum gestum. Fyrr en varði var ég kominn í endalaus viðtöl í fjölmiðlum um stöðu Kúrda, upplifun af Newros, hvað mér fyndist um yfirlýsingu Öcalans.  Ég var jákvæður og þegar ég var hvað jákvæðastur varð mér eitt augnablik hugsað til landamæravarðarins í Istanbúl. Við þá tilhugsun varð ég glaður og ánægður að geta lagt mitt af mörkum í mannréttindabaráttu Kúrda.
„Sjáðu þessa konu", sagði, Serra okkar góða leiðsögukona í kvöldverði sem efnt var til fyrir gesti á föstudagskvöldið, hún er þingkona sagði hún, en þegar hún kom í fyrst tyrkneska þingið mælti hún á kúrdísku ávarpsorð sín til þingheims. Hún mun hafa talað um bræðralag og systralag og mikilvægi friðar. Hróp var þá gert að henni í þinginu og fyrr en varði hafði hún verið svipt þingmennsku og ekki nóg með það heldur fangelsuð, ekki í fáeina daga heldur í rúman áratug! Og þarna var hún, Leyla Zana, svartklædd og glæsileg. Hinn fullkomni sigurvegari að sjá. 

Á slóðum Abrahams

Á laugardag var haldið til Urfa. Þar er sagt að fæðst hafi Abraham, ættfaðirinn mikli, sem gyðingar, kristnir menn og múslímar eigna sér.  Sagan - og langar rætur hennar - er hér allt um kring. Urfa er rétt fyrir norðan landamærin að Sýrlandi þar sem nú geysar stríð sem kunnugt er. Fjöll í fjarska, iðagrænir akrar og síðan heldur hrjóstrugra svæði sem liggur að hæðum og ásum, minnti stundum á Miðfjörðinn.
Tyrkir styðja  harðlínu múhameðstrúarmenn gegn Assad einræðisherra og þá ekki síst þann hóp sem kennir sig við öxulinn Damaskus og Írak. Á þeim grunni eigi að reisa íslamskt réttrúnaðarríki - að sjálfsögðu þvert á vilja núverandi herra í Damaskus og Bagdad. En þetta finnst Tyrkjum hið besta mál og ekki koma andmælin frá Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu þegar Tyrkir eru sagðir beina vopnaflutningum yfir landamærin til Sýrlands til stuðnings framangreindum hópi og einnig Hisbollasamtökunum. Þetta eru vissulega sögusagnir en almannarómur. Vopnaflutningarnir eru m.a. sagðir fara um landamærin suður af Urfa.  Okkur var sagt að fyrir skömmu hefðu landamæraverðir ætlað að stöðva flutningalest en tyrkneska leyniþjónustan hefði skipað þeim að láta það vera. Við heyrðum einnig af framgöngu borgarstjórans í borg skammt frá landamærunum austan við Urfa sem hefði ein síns liðs, berfætt, stillt sér upp fyrir framan flutningavagna og í kjölfarið hafið hungurvöku sem hefði varð þar til flutningum var hætt um hennar borg!
Ljóst er að stríðið í Sýrlandi er ekki lengur sýrlenskt stríð heldur alþjóðlegt þar sem fyrrnefnd stórveldi taka þátt, auk Kínverja og Rússa. Þeir styðja Assad.

Sýrlenskir Kúrdar stofna sjálfstjórnarsvæði

Ekki sjáum við merki stríðsins í Urfa en fengum hins vegar að heyra margt um hlutskipti Kúrda í Sýrlandi. Þeir hafi tekið völdin í sínar hendur á „sínu" svæði. Þetta skynja ég að er umdeilt í röðum Kúrda. Þannig las ég að Barzani leiðtogi Kúrda Í Írak væri þessu andvígur og ég heyrði varlega orðaðar hugrenningar í þessa veru einnig í Diyarbakir,  enda hugmynd Öcalans og félaga að tefla aldrei fram harðri kröfu um sjálfstætt ríki Kúrda.
Í rútunni á leiðinni til Urfa hitti ég sendinefnd frá Sýrlandi. Þar var í hópnum, utanríkisráðherra nýstofnaðs sambandssvæðis Kúrda í Sýrland, Ibrahim  Kurdo. Viljið þið verða sjálfstætt ríki og kljúfa ykkur frá Sýrlandi, spurði ég. Nei, við viljum verða sjálfsstjórnarsvæði innan sýrlenska ríkisins. Ríki á þessum slóðum eru varasöm sagði utanríkisráherrann.
Eruð þið þá ósamála Barzani, leiðtoga Kúrda í Írak, spurði ég enn.
Hann er gagnrýninn á það sem við erum að gera, því hans hugsun er önnur. Hann kemur úr heimi ættarvelda, og hann sér fyrir sér, ríki eða sjálfstjórnarsvæði þar sem Kúrdar ráða. Þetta er þvert á okkar skoðanir sagði, utanríkisráðherrann, því við viljum að allir eigi aðgang að okkar stjórnkerfum, ekki bara Kúrdar. En að sjálfstæðu ríki stefnum við ekki.
6 - kurd
Ibrahim  Kurdo sagði stöðu Kúrda í Sýrlandi versna með degi hverjum. Kúrdar væru nú farnir að verða fyrir árásum öfgafullra íslamista, þennan morgun hefðu þrír vinir hans verið myrtir. Síðan væri hitt að Tyrkir sæju til þess að engar hjálparsendingar  bærust til Kúrda yfir landanærin frá Tyrklandi og yfir írösku landmæriun bærust aðeins hjálaparsendingar til þeirra Kúrda sem væru á sömu pólitísku línu og Barzani.

Blóðið ólgar

Á Newros í Diyarbakir - sem reyndar heitir Amed a Kúrdísku - sáum við hóp manna með klúta fyrir andlitinu. Í þeim var mikill greinilegur æsingur og skjálfti. Þar var kominn hópur frá Sýrlandi. Oft varð mér hugsað til þess hve lítið mætti fara úrskeiðis á risafundum eins og þessum þar sem blóðið sýður vegna framinna ofbeldisverka.
Þetta vita leiðtogarnir. Með tali sínu geta þeir gert annað hvort að kveikja elda eða halda þeim í skefjum.
Árið 1980 má segja að eldur hafi verið borinn að kúrdísku púðurtunnunni í bókstaflegum skilningi þegar Mazlum Gogan ( ég þekki nafnið því ég sá risaskilti með mynd hans við ræðupallinn á Newros hátíðinni í Urfa og spurði hver það væri), bar eld að sjálfum sér þar sem hann var í fangelsi vegna baráttu sinnar fyrir málstað Kúrda. Athöfnina, sem leiddi hann til dauða, kenndi hann við Newros og kvaðst vilja með þessu kynda baráttuelda frelsisbaráttunnar. Það var sem við manninn mælt að átök brutist út þegar eftir að Mazlum svipti sig lífi með þessum hætti - og þau átök urðu langvinn.
Það er ekki fyrr en núna á síðasta ári að reynt er að beina málum inn í friðsamlegan farveg. Þar gegnir Öcalan mikilvægu hlutverki sem áður segir. Hann segir að hættulegustu öflin í dag séu þau sem megi kenna við nýkapítalisma. Þau öfl vilji engar sættir, bara frið á forsendum þeirra eigin hagsmuna. Við þurfum hins vegar til mótvægis við þetta, nýja lýðræðisstefnu, að mati Öcalans. Sú stefna byggir sem áður segir á inntaki frelsisins, ekki umgjörðinni, ríkinu.

Boðskapur lýðræðis og umburðarlyndis

Það kvað við þennan sama lýðræðistón hjá Sýrlendingunum og aftur og aftur í þeim ræðum talsmanna Kúrda sem þýddar voru fyrir okkur bæði í Diyarbakir og Urfa. Borgarstjóraefnið í Urfa, áður borgarstjóri í Diyarbarkir, Osman Baydemir, gekk svo langt að óska Tyrkjum gleðilegs Newros og þar með tyrkneska hernum sem hann nefndi á nafn, en kúrdískum skæruliðum líka. Túlkurinn sagðist aldrei hafa heyrt svona langt gengið í að óska tyrkneska hernum alls góðs! En fyrir þessu var klappað og að sjálfsögðu ennþá meira þegar vikið var að skæruliðum. Enda hugurinn hjá þeim eflaust bæði hjá ræðumanni og fjöldafundinum sem á hann hlýddi.
Borgarstjóraefnið sagði margt gott. Hann sagði að ungar hendur ættu að halda um penna en ekki grjót, því við þyrftum á menntun að halda. Hann sagði líka að við hefðum lofað börnum okkar friði og að við þyrftum að hafa þrek til þess að standa við það loforð. En síðan kom einnig hinn harði tónn, svipaður og hjá Öcalan: Friðurinn yrði að vera raunverulegur, frelsið raunverulegt. Við viljum frelsi - eða frelsi. Þetta var frasi sem oft var notaður og ég hafði á tilfinningunni að í honum fælist hótun. Því á eftir fylgdi yfirleitt tal um að tvennt væri í boði , friðsamleg sambúð eða hörð barátta fyrir mannréttindum.
Það er ekki nóg að afleggja herforingjastjórn ef fulltrúalýðræðisstjórnin hagar sér eins og einræðisstjórn. Við viljum gera úr okkar borg, sagði frambjóðandinn ennfremur, spegil sem haldið væri að Ankara sem gæti skoðað sjálfa sig í ljósi þess sem við gerum. Þess vegna verðum við að vanda okkur!
þetta var alltaf tónninn. Jákvæður. jafnvel hjá þingmanni sem einnig talaði í Urfa og var nýkominn úr fangelsi eftir fjögurra ára vist þar, án þess að nokkurn tímann hefði verið sett fram ákæra á hendur honum. Hann var bara í gæsluvarðhaldi. Í fjögur ár!

Konur og karlar og hætta á foringjadýrkun

7 - kurdAnnars var margt í pólitískum háttum Kúrda sem okkur þótti stórmerkilegt. Til dæmis áhersla þeirra á réttindi kvenna. Í öllum kosningum þar sem BNP, hinn leyfða pólitíska hreyfing Kúrda, bauð fram deildu karl og kona efsta sætinu og fengi flokkurinn fyrsta sætið gegndu þau forystuhlutverkinu til jafns. Fram kom í viðræðum mínum við sýrlensku Kúrdana að þeir hefðu sama háttinn á og jafnframt kerfi sem tryggði að hvorugt kynið hefði minna en fjörutíu prósent sæta í kjörnum stjórnum og ráðum.
þess má geta að mikið virðist gert til að ryðja konum braut inn í hefðbundin karlastörf, til dæmis sem ökumenn í langferðabílum og strætisvögnum. Konur hefðu fengið ókeypis námskeið í akstri slíkra ökutækja og væru að verða sífellt greinilegri í starfsgreininni. Þá má þess geta að talsmenn á fundum voru jafnt konur sem karlar og höfðum við á tilfinningunni að þessa væri gætt að hafa þarna jafnræði með kynjunum.
Ég spurði nokkuð út í þetta og voru þau stolt af þessum þætti mannréttindabaráttunnar. Ég leyfði mér þá að spyrja hvort ásæða væri til að óttast foringjadýrkun og vísaði ég í fjöldafundina og þá áherslu sem lögð var á framgöngu og mikilvægi Öcalans, myndirnar, plakötin, slagorðin og kannski dýrkunin? Þessi spurning kom ekki á óvart en þau sögðu að reynt væri að horfa til hugmynda fremur en til einstaklinga. En vissulega væri þetta nokkuð sem bæri að hafa í huga og gjalda varhug við.
Því var ég sammála.

Umhverfi og söguslóðir

Margt fleira dreif á dagana í þessari stuttu heimsókn til Kúrdistan svo sem viðræður við umhverfissinna sem eru að reyna að varðveita svæði við Tigrisfljótið og áttu í höggi að skipuleggjendur í Ankara á bandi stórverktaka í byggingariðnaði. Mér var hugsað til baráttunnar fyrir óspilltri náttúru Íslands; að skynja þann fjarsjóð sem við búum yfir.
Þarna var líka fjársjóður. Sögulegur fjársjóður. Gamlar minjar var víða að sjá og iðagrænar slétturnar við Tígrisfljótið minntu á hvers vegna þarna hafði þróast byggð og menning í áradaga; menning Mesopótamíu hinnar fornu.
Heim héldum við eldsmemma á sunnudagsmorgun með það fyrir augum að ná til Íslands um kvöldið.
Í passaskoðun í Istanbúl var aftur spurt hvert erindið hefði verið í Diyarbakir.
Að  taka þátt í Newroz hátíðahöldum Kúrda, sagði ég og brosti.
Landamæravörðurinn, ung stúlka, horfði á mig, fyrst alvarleg í bragði - svo brosti hún líka.