Fara í efni

AFMÆLISRÁÐSTEFNA ECRI Í PARÍS

Í tilefni þess að réttur aldarfjórðungur er nú liðinn frá því að Evrópuráðið setti á laggirnar nefnd til að takast á við skort á umburðarlyndi og kynþáttamisrétti, European Commission on Racism and Intolerance, ECRI, var í vikunni efnt til sérstakrar ráðstefnu þar sem spurt var hvert stefndi í þessum efnum og hvort orðið hefðu framfarir á undanförnum tuttugu og fimm árum eða þvert á móti afturför, og í samhengi við það hvernig til hefði tekist í starfi ECRI.

Þarna voru saman komnir fulltrúar ýmissa stofnana sem fást við þetta viðfangsefni ekki aðeins frá fjölþjóðlegum stofnunum Evrópu heldur einnig frá alþjóðlegum stofnunum og þá einkum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Mér þótti sem sjónarhorn þátttakenda væri víðara eftir því sem vettvangur þeirra tók til fleiri hluta heimsins.

Öll aðildarríki Evrópuráðsins, sem eru 47 að tölu, eiga fulltrúa í nefndinni og eins og ég hef stundum skrifað áður á þessari síðu er ég fulltrúi Íslands í ECRI-nefndinni og er það ásæða þess að ég sótti þessa ráðstefnu. (sjá t.d. https://www.ogmundur.is/is/greinar/vika-i-vin-med-ecri og https://www.ogmundur.is/is/greinar/thankar-um-mannrettindi-i-kjolfar-ecri-fundar).
 Þarna var einnig Baldur Kristjánsson, forveri minn í nefndinni og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Sá aðili sem ég saknaði var fulltrúi Mannréttindskrifstofu Íslands sem einnig fékk boð um að sækja ráðstefnuna. Þegar ég spurðist fyrir um hverju það sætti að skrifstofan sendi ekki fulltrúa á ráðstefnuna eins og eðlilegt hefði verið að mínu mati, var mér sagt að ekki hefði getað af því orðið vegna fjárskorts. Auðvitað virði ég forgangsröðun Mannréttindaskrifstofunnar, að nota takamarkaða fjármuni til að sinna málefnum á vinnsluborðinu nema hvað vinnusluborðið þarf að verða alþjóðlegt.

Áskorun mín til stjórnvalda er því að tryggja Mannréttindaskrifstofu Íslands fjarmagn til mikilvægrar vinnu sinnar og þá einnig þannig að skrifstofan geti tekið þátt í alþjóðlegu starfi og þannig lært af reynslu sambærilegra stofnana - og þá einnig miðlað af eigin reynslu til annarra.

Þegar þátttakendur ráðstefnunnar lögðu mat á hvað hefði áunnist og hvað miður hefði farið þá bar mönnum saman um að lög og reglur hefðu batnað svo og hefðu eftirlits- og aðhaldsaðilar verið styrktir í sessi. Hvað þennan stofnanaþátt snertir hefur ECRI nefndin lagt áherslu á tvennt, annars vegar að lög sem snúa að mismunun séu samþætt, helst í einum lagabálki og svo hitt að eftirlitsaðilar séu sjálfstæðir gagnvart ríkisvaldinu, ekki stofnanir á vegum þess en engu að síður tryggt af hálfu hins opinbera fjárhagslegt sjálfstæði.

Stofnunin sem í mínum huga á að styrkja til þessa starfs er Mannréttindaskrifstofa Íslands. Að henni standa og henni stýra ýmis félagasamtök og er hún sjálfstæð gagnvart ríkisvaldinu, http://www.humanrights.is/is/forsida. Þetta viðfangsefni hefur verið að velkjast lengi í kerfinu en nú er mál til komið að láta hendur standa fram úr ermum og veita nauðsynlegum fjárframlögum til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Margt viturlegt var sagt á þessum fundi í París. Gott þótti mér að hlusta á Jean-Marie Delarue, formann ráðgjafanenfdar franskra stjórnvalda á sviði mannréttindamála ( Commission nationale consultative des droits de l'homme). Hann var raunsær í tali og sá mörg sker sem menn yrðu að verast að steyta á en síðan yrði jafnframt að horfa til þess sem jákvætt væri og að þótt skort á umburðarlyndi mætti víða finna væri umburðarlyndi engu að síður meira víðast hvar en fyrir nokkrum áratugum síðan og færi batanandi!
Áheyrendur hrukku við, vanir bölsýnistali en þótti greinilega gott að heyra þennan bjartsýnistón.