Fara í efni

ÞANKAR UM MANNRÉTTINDI Í KJÖLFAR ECRI FUNDAR

ECRI er skammstöfun fyrir þá nefnd Evrópuráðsins (ekki Evrópusambandsins) sem fjallar um kynþáttafordóma og umburðarleysi, European Commission against Racism and Intolerance. Einn fulltrúi er frá hverju 47 aðildarríkja Evrópuráðsins og var ég skipaður fulltrúi Íslands sumarið 2017 og sat ég minn fyrsta fund í lok þess árs.

Á fimm ára fresti er gerð skýrsla um sérhvert aðildarríkjanna, lög og reglugerðir sem þau hafa sett og taka til þessa málaflokks og síðan er reynt að ganga úr skugga um að þessum lögum og reglum sé framfylgt.

Nefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári – sumar, haust og vor og fór sumarfundurinn fram í vikunni sem leið. Fundurinn var vekjandi. Farið var yfir skýrslu sem gerð hafði verið um Þýskaland og Sviss og síðan voru fyrirlestrar og umræður um tölvutækni, sóknarfæri og hættur sem fólgnar væru í henni.

Hið síðastnefnda var mjög fróðlegt og eykur á skilning þegar tekist er á við viðfengsefni sem þessu tengjast. Þar má nefna það sem á ensku er kallað “profiling”. Það þýðir að gerðar eru athuganir á atfeli á grundvelli trúarbragða, kynþáttar eða annars sem einkennir hóp, fundin sameiginleg einkenni sem gilda um meirhluta hópsins og síðan settar fram alhæfingar um hópinn allan. Þarna setur ECRI niður hæla og segir að slík nálgun geti leitt til mismununar, fólk gjaldi oft alhæfinga sem auk þess séu iðulega fordómafullar að auki. Sérhvern einstakling beri að meta sem slíkan og að eigin verðleikum.

Umræða um fordóma og umburðarleysi kallar á svör við ágengum spurningum um frelsi einstaklinga og hópa og þá einnig um réttindi og skyldur í samfélagi.

Á að leyfa trúarhópum að reka skóla á sínum vegum og sínum forsendum innan almenna skólakerfisins, þ.e. skóla kaþólikka, gyðinga, íslamska skóla og á þá ríkið jafnaframt að standa straum af kostnaði; á að leyfa klæðnað í skólum og þegar opinberum embættum er sinnt, sem endurspeglar trúarbrögð, hvað t.d. með að nunna eða munkur setjist í dómarastól í Landsrétti í trúarklæðum sínum, kona íklædd burku kenni í almennum sjö ára bekk, prestur með kraga taki á móti fólki í félagsþjónustu sveitarfélags til að veita ráðgjöf?
Yrði litið svo á að þetta væri til marks um að gamlar hefðir mætti í heiðri hafa (það er presturinn með kragann) annars vegar og hins vegar að fjölmenningin nyti viðurkenningar (barnaskólakennarinn í grunnskólanum í búrku)?

Mín skoðun er eftirfarandi (en ég er tilbúinn að breyta henni fái ég sannfærandi rök):

Allir verði í sameiginlegum skólum, klæðnaður skólabarna endurspegli ekki trúarbrögð og við samlöguðumst sem flest og sem mest. Þetta væri í samræmi við þjóðarsöfnuð Þorgeirs Ljósvetningagoða sem ég hef stundum minnst á og talað fyrir sem almennri hugmynd.

EN og það er EN með hástöfum. Þetta gerðum við ekki með lagaþvingunum heldur kæmumst við að niðurstöðu í þessa veru með rökræðu. Þá er mín lausn að sjálfsögðu ekki rétthærri en annarra. Þetta væri þá einfaldlega mín tillaga í umræðu við aðra sem kynnu að vera annarrar skoðunar. Þannig að niðurstaðan gæti orðið einhver allt önnur.

Og enn og aftur, þetta eru ekki vangaveltur ECRI-nefndarinnar – nema síður sé meira að segja - heldur aðeins mínar, upptendraður hins vegar af almennri umræðu innan ECRI um mannréttindi, fordóma og umburðarlyndi/leysi.