Fara í efni

ÆFING Í JAFNAÐARGEÐI

Ég verð að játa að mér þótti nóg um hamaganginn í mörgum útvarpsmanninum Í aðdraganda Verslunarmannahelgarinnar við að “tala upp” það sem í vændum væri, aldeilis spennandi dagar framundan. Vegfarendur voru teknir tali og þau sem komu á símalínuna eða voru tekin í viðtal voru spurð hvert ætti að fara um Verslunmannahelgina. Allir hlytu að vera að fara eithvað, þetta væri jú sjálf Verslunarmannahelgin!

Í aðdraganda Verslunarmannahelgar fáum við gjarnan að heyra að reikna megi með “breytilegu veðri” þegar líkur eru á slæmu veðri. Velviljaðir veðurfræðingar eru að sjálfsögðu meðvitaðir um að hrakspá í veðri þýðir milljóna tjón hjá útihátíðarhöldurum. Og ef veður reynist svo gott, mætti ekki fara í mál? Við höfum komið okkur upp góðum stabba af lögfræðingum sem eru orðnir útfarnir í skaðabótarétti.

En þegar ekki er einu sinni svo gott að hægt sé að spá breytilegu veðri eru galvaskir skipuleggjendur hátíðahalda teknir tali þar sem þeir segja að mikill hugur sé í mönnum og gríðarleg eftirvænting og stemming aldrei verið betri. Við svo búið er brugðið sumarmelli á fóninn í hljóðstofu og við heyrum hljómsveit Ingimars Eydal syngja og leika Í sól og sumaryl eða einhverjir yngri músíkantar kyrja svipaða lofgjörð um sæla sumardaga.

En svo hefst hátíðin með enn meira roki og enn meiri rigningu en þó hafði verið gert ráð fyrir.
Og nú er fólk aftur tekið tali. Hvernig er? Alveg æðislegt! Allir í stuði, jú, jú, það rignir og það blæs en allir eru vel búnir og þetta er eins og best verður á kosið. Aldrei verið betra!

Í Vestmannaeyjum er mynduð velferðarvakt, þurrkuð fötin af hundblautum hátíðargestum, allir að hjálpa, samfélag í aksjón!

Þá rennur það upp fyrir mér að ég þarf að skipta um skoðun. Þetta var bara fínt hjá útvarpsfólkinu, að tala upp eftirvæntinguna því eftir allt saman getur rigningin verið góð ef maður bara hefur rétta hugarfarið, réttu afstöðuna. Þá sannast það sem stundum er sagt, að það sé ekkert til sem heiti vont veður bara rangur búnaður og skortur á jafnaðargeði.

Þannig að þegar allt kemur til alls er Verslunarmannahelgin ein allsherjaræfing í jafnaðargeði og jákvæðu hugarfari. Það getur ekki verið annað en gott og jákvætt. Eflandi fyrir land og lýð.
Húrra fyrir Verslunarmannahelginni!
                                                                                                                     

-----------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course:
https://www.ogmundur.is/