Fara í efni

AÐ ÞORA AÐ VERJA MÁLSTAÐ

Ég tek undir með Hafdísi Guðmundsdóttur í bréfi sem birtist hér á heimasíðunni um hve gleðilegt það alltaf er að heyra í fólki sem þorir að standa á sannfæringu sinni. Hafdís vitnar í viðtal við Laufey Erlu Jónsdóttur, sem ásamt fleiri landvörðum, þurfti að sæta ofsóknum af hálfu yfirvalda þegar þau flögguðu í hálfa stöng 19. júlí árið 2002. Laufey Erla sagði í útvarpsviðtalinu að hvert ár síðan hefðu þau flaggað í hálfa stöng á þessum degi: " Við viljum tjá sorg okkar vegna landsins sem verður fórnað undir virkjanir á hálendinu.” Hér vísar hún í Kárahnjúkavirkjun en 19. júlí árið 2002 var undirrituð viljayfirlýsing um að ráðist yrði í þá framkvæmd.

Í bréfi sínu rifjar Hafdís upp hlut ráðherra Framsóknarflokksins í aðförinni að landvörðunum og einnig að hollt sé að gleyma því ekki að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi, að undanskilinni Vinstrihreyfingunni grænu framboði, hafi stutt Kárahnjúkavirkjun.

Ég fagna því að Laufey Erla Jónsdóttir skuli hafa látið í sér heyra opinberlega. Ekki aðeins vegna þeirra orða sem hún lét falla, heldur ekki síður vegna hins, að hún skuli vera reiðubúin að standa á sannfæringu og tala fyrir henni opinberlega - einnig þegar á móti hefur blásið. Það væri dapurlegt um að litast í þjóðfélaginu ef ekki nyti við fólks sem ber viðingu fyrir sannfæringu sinni og þorir að verja hana. Ekki bara stundum heldur alltaf.

HÉR er bréf Hafdísar

HÉR og HÉR eru tengd skrif.

Hér að neðan er síðan frásögn Morgunblaðsins í dag en þar birtist jafnframt mynd af íslenksa fánanum sem flaggað var í hálfa stöng:
ÍSLENSKA fánanum var flaggað í hálfa stöng við skála á nokkrum stöðum á hálendinu í gær. Landverðir og skálaverðir standa á bak við aðgerðirnar sem hafa verið árviss atburður á þessum degi frá 2002. Dagurinn 19. júlí varð fyrir valinu því þann dag árið 2002 undirrituðu forsvarsmenn Alcoa og íslensk stjórnvöld viljayfirlýsingu um byggingu álvers í Reyðarfirði. "Við viljum tjá sorg okkar vegna landsins sem verður fórnað undir virkjanir á hálendinu," segir Laufey Erla Jónsdóttir, skálavörður í Kverkfjöllum, en þar var flaggað í hálfa stöng. Að hennar sögn er um að ræða framtak skálavarða meðal annars í Herðubreiðarlindum, við Snæfell, Hvannalindir, í Grágæsadal og Drekagili við Öskju. "Framtakið hefur vakið forvitni bæði innlendra og erlendra ferðamanna sem hafa komið í skálana." Að sögn Laufeyjar Erlu voru aðgerðir skála- og landvarðanna gerðar í eigin nafni og til að koma í veg fyrir misskilning hafi sumir reist eigin flaggstangir í stað þess að flagga á stöngum ferðafélaganna sem eiga skálana.