Fara í efni

Harmur Umhverfisstofnunar

Birtist í Morgunblaðinu 08.06.04.
Fimmtudaginn 27. maí sl. birtist í Morgunblaðinu yfirlýsing frá Umhverfisstofnun, undirrituð af tveimur forsvarsmönnum hennar, Árna Bragasyni og Davíð Egilssyni. Þeir kváðust harma umræðu sem fram hefði farið opinberlega um svokallað fánamál. Ég skil vel að þeim þyki þessi umræða óþægileg enda þolir hún illa dagsljósið fyrir forsvarsmenn Umhverfisstofnunar. Siv Friðleifsdóttir,umhverfisráðherra, blandaði sér einnig í þessa umræðu og var mikið niðri fyrir. Sakaði hún undirritaðan um upphlaup og frumhlaup.

Þar sem ég er valdur að hugarvíli þessa fólks vil ég í örfáum orðum gera grein fyrir málinu eins og það blasir við frá mínum bæjardyrum. Í Eldhúsdagsumræðum á Alþingi í síðustu viku vakti ég máls á því að landverðir í Öskju og Herðubreiðarlindum, sem í fyrra flögguðu í hálfa stöng  þegar ár var liðið frá undirritun samninga við Alcoa í tengslum við Kárahnjúkaframkvæmdir, væru nú látnir gjalda þessa því þeir fengju ekki starf að nýju.

Þetta er ekki fyrsta aðkoma mín að þessu máli og tel ég mig nokkuð kunnugan málavöxtum. Atburðarásin var á þann veg, að tveimur dögum eftir að landverðir drógu íslenska fánann í hálfa stöng hinn 19. júlí sl. sumar, fær yfirlandvörðurinn í Herðubreiðarlindum bréf með spurningum í 9. liðum. Þar var spurt um tildrögin, hvaða starfsmenn hafi tekið þátt í "aðgerðunum", hvort "verkfæri eða annað sem Umhverfisstofnun leggur starfsmönnum til, þ.m.t. einkennisfatnaður", hafi verið notuð "við undirbúning aðgerðar eða við aðgerðina sjálfa eða kynningar á þeim". Enn var spurt hvort það hafi verið "með vitund og vilja yfirlandvarðar að hún var kynnt sem slík í útvarpsfréttum" og hvort hún hafi gert athugasemd við fréttaflutning fjölmiðla.

Öllu þessu svaraði yfirlandvörður en fékk að nýju tveggja síðna bréf frá Umhverfisstofnun dagsett 25. ágúst. Á þessum tíma hafði mér verið kynnt þetta mál og hafði ég átt fundi með forsvarsmönnum Umhverfisstofnunar þar sem ég hvatti eindregið til þess að málið yrði látið niður falla. Leit ég svo á, að á Umhverfisstofnun hefðu menn farið fram úr sjálfum sér eins og getur hent okkur öll og væri öllum fyrir bestu að um þetta yrðu höfð sem fæst orð.

Það varð mér óneitanlega mikið undrunarefni af hve miklu harðfylgi málið var áfram sótt af hálfu Umhverfisstofnunar. Orðum var alltaf beint að einum aðila, yfirlandverði í Herðubreiðarlindum, en látið að því liggja að aðrir skyldu einnig taka þetta til sín. Þannig segir m.a. í bréfinu til yfirlandvarðar frá 25. ágúst: "Í upphafi bréfs þíns til Umhverfisstofnunar, dags. 12. ágúst s.l., segir að aðild þín að "fánamálinu" hafi ekki verið í nafni starfs þíns heldur hafir þú eingöngu tjáð eigin tilfinningar og skoðanir.  Af framangreindri umfjöllun...verður ráðið að þátttaka þín í mótmælum hafi byggst á því að þú, ásamt fleiri aðilum hafi sammælst um mótmæli þau sem um ræðir."

Í niðurlagi bréfsins segir síðan  m.a.: "Það er mat Umhverfisstofnunar að með framangreindu háttalagi hafir þú brotið gegn skyldum þínum samkvæmt IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. einkum ákvæði 14. gr.,15. gr. sbr. 21.gr. sömu laga. Umhverfisstofnun hefur í hyggju að veita þér áminningu vegna framangreinds háttalags í starfi, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Það skal tekið fram að framangreind tilvik...geta öll saman eða hvert og eitt verið tilefni áminningar".

Til upplýsingar má geta þess að í 21. gr. laga nr.70/1996 er m.a. fjallað um "óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns", svo og athafnir sem þykja "ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu". Í 14. og 15. gr. er kveðið á um að starfsmaður skuli ekkert aðhafast "sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við" og einnig segir að starfsmanni sé skylt "að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna...".

Þegar hér var komið sögu mátti öllum vera ljóst að Umhverfisstofnun var fúlasta alvara að þjarma áfram að fólkinu. Var nú leitað til lögmanns stéttarfélags starfsmannanna og svaraði hann í fyrri hluta septembermánaðar bréfi Umhverfisstofnunar og hrakti lagakrókana lið fyrir lið.

Umhverfisstofnun treysti sér nú ekki til að halda málinu áfram. Að því leyti sem ég hafði uppi ráðleggingar í þessu máli sagðist ég enn telja að málið skyldi látið kyrrt liggja og sjá hvort hrollurinn færi ekki úr mönnum með vorinu.

Það var hins vegar ekki fyrr en nú fyrir fáeinum dögum að ég sá þriðja bréfið frá Umhverfisstofnun, dagsett  4. nóvember. Hafði ég haldið að bréfaskriftum hefði verið lokið með bréfi lögfræðingsins til Umhverfisstofnunar í september og málið á leið í gleymskunnar dá. Taldi ég það öllum fyrir bestu.  Í þessu síðasta bréfi var að vísu sagt að ekki yrði veitt formleg áminning en meint brot engu að síður áréttað: "Af hálfu Umhverfisstofnunar skal þó áréttað að tilgreind framkoma þín var að mati stofnunarinnar mjög ámælisverð og ósamrýmanleg því starfi sem þú hafðir með höndum."

Fyrir stuttu síðan frétti ég svo að sá landvörður sem hér átti í hlut myndi ekki sækja um starf að nýju enda teldi hún í ljósi alls þessa augljóst að hún fengi ekki starf. Þótti mér þetta mjög  miður. Einn þremenninganna var hins vegar ákveðinn í að láta á þetta reyna og sótti en var hafnað. Þótti mér nú mælirinn fullur og ákvað að greina frá mínum kynnum af þessu máli opinberlega enda um að ræða grafalvarlegt mál.

Í málsvörn forsvarsmanna Umhverfisstofnunar er vísað í deilur sem landverðir hafi átt í við Ferðafélag Akureyrar. Það mál þekki ég ekki. Hitt hef ég fyrir augunum, makalausar bréfaskriftir Umhverfisstofnunar um "fánamálið" og "aðgerðir" sem landverðir hafi "sammælst um" að hafa í frammi og "háttalag" sem Umhverfisstofnun telji varða við lög.
Í lokin vil ég beina þeim tilmælum til umhverfisráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, að hún skýri afstöðu sína til þessa máls. Það er nefnilega svo, að umhverfisráðherra ber ábyrgð á þessari tilraun til skoðanakúgunar. Þessu máli er ekki lokið, það eitt er víst.

Þau gögn sem vitnað er til í fréttinni er hægt að nálgast á heimasíðu minni, ogmundur.is, í grein frá 25.5. undir fyrirsögninni Skoðanakúgun umhverfisyfirvalda.
(sjá hér)