Fara í efni

Á SÖGUSLÓÐUM BEGGJA VEGNA PÝRENEAFJALLA - HLUSTAÐ Á KATALÓNSKA LÝÐVELDISSINNA

Áður en ég kem að því að greina frá fróðlegum samræðum við fólkið á myndinni  hér að ofan sem allt er úr forystusveit katalónskra lýðveldissinna vil ég skýra hvers vegna ég yfirleitt er staddur á þeirra heimslóð.

Þannig háttar til að ég hef að undanförnu dvalið ásamt Valgerði konu minni í íbúð vinafólks í Canet en Roussillon sem er fallegur strandbær við Miðjarðarhafið, Frakklandsmegin Pyreneafjallgarðsins, allnærri landamærunum við Spán. Héðan höfum við farið allvíða í skoðunarferðir enda margt að sjá og fræðast um. Canet er þannig steinsnar frá Perpignan þar sem konungar Majorku-konungdæmisins sátu lengi vel og ekki er langt þaðan til Carcassonne, nafnfrægrar kastalaborgar sem var eitt af höfðuvirkjum hér um slóðir á Miðöldum og reyndar bæði fyrr og síðar.

Á þessar slóðir við vestanvert Miðjararhafið komu listmálar nítjándu og tuttugustu aldar bæði til að vera nærri hver öðrum og til þess að fanga eftirsóknarverð litbrigði í hafi og himni og öðru því sem listamnnsaugu kunna að greina. Afrakstrinum erum við síðari tíma túristar síðan að gæða okkur á með heimsóknum á listasöfn sem hér er að finna.

Myndin er af víggirðingum kastalaborgrinnar Carcassonne

Svo morar að sjálfsögðu allt í höllum og kastölum, híbýlum kónga og drottninga, greifa og greifynja sem í aldanna rás hafa girt sig rækilega af með múrum hverjum utan um annan. Ekki hefur veitt af því auður og völd hafa löngum þótt eftirsóknarverð. Svo er það hitt að ranglæti og misskipting kallar einnig á vopn og múra gagnvart arðrændum undirsátum. Skipting landsins í konungs- eða furstadæmi gekk ekki alltaf friðsamlega fyrir sig, reyndar sjaldnast friðsamlega, miklu oftar með styrjöldum og tilheyrandi mannfórnum.

Allt þetta minnir á hvernig landakort Evrópu hefur tekið breytingum í tímans rás eftir því hvernig nokkrum valdafjölskyldum hefur vegnað. Veraldargengi þeirra sem hafa búið yfir völdum og auði hverju sinni hefur síðan ráðið landamærum og örlögum alþýðu manna.

Fortíðin minnir á samtímann

Þessi lögmál eru vissulega öll til staðar í okkar samtíma. Og fulltrúa samtímans höfum við vissulega hitt í þessari ferð. Og er þar komið að fyrstu myndinni með þessum pistli. Síðastliðinn sunnudag hittum við forystufólk úr röðum lýðveldissinna í Katalóníu. Það gerðum við þegar við brugðum okkur suður yfir landamærin, til Barcelóna, höfðuborgar Katalóníu.

Katalónía tekur til norð-austurhluta Spánar en þjóðareinkennin, tunga, menning og sjálfsmynd teygir sig norður og austur á bóginn þótt sjálfstjórnarbarátta Katalóníumanna sé aðeins háð Spánarmegin landamæranna. Þar er Katalónía með eigið þing og eigin stjórn en undirseld engu að síður miðstjórn Spánar í Madrid eins og aðrir sambærilegir hlutar Spánar.

Í Katalóníu var harðast barist gegn Frankó og fasitum hans í spænska borgarastríðinu 1936-39. Ef farið er lengra aftur má rekja baráttu gegn einveldis- og alræðistilburðum á Pýreneaskaganum til Katalóníumanna öllum öðrum framar.

Þegar konunglegt alræði náði að undiroka Katalóníu í byrjun 18. aldar voru, eins og jafnan tíðkaðist þegar nýir herrar þurftu að treysta sig i seesi, byggðir nýir varnarmúrar sem umluktu Barcelóna. Það sem var hins vegar sérstakt við múrgerðina eftir ósigur íbúanna gegn konunglegu alræði 1714 var að þegar fallbyssum var komið fyrir á múrunum eins og jafnan þá voru fallbyssurnar látnar snúa inn á við – inn í borgina – þannig að þær beindust gegn íbúunum til þess að minna þá á hvað mótspyrna myndi leiða af sér.

Ofbeldi er engin liðin tíð.

Það var fróðlegt að hlýða á forystufólk Vinstra Lýðveldisflokksins, stærsta flokks aðskilnaðarsinna, skýra okkur frá stöðu mála. Þetta voru þau Oriol Junqueras, formaður flokksins, sagnfræðingur og lengi vel prófessor við háskólann í Barcelóna, Laura Castel, öldungadeildarþingmaður á þinginu í Madrid fyrir Vinstri Lýðveldisflokkinn, Esquerra Republikcana de Catalunya, og Merce Pastor, sem er eins konar ráðuneytisstjóri flokksins. Þetta er geysilega öflugt fólk, býr yfir miklum og upplýsandi fróðleik og óbugandi baráttuþreki.

«Lengi vel prófessor»

Það er ekki svo gott að formaður Vinstra lýðveldisflokksins sé lengur prófessor í sögu við Barcelónaháskóla. Hann var einn þeirra sem hlaut dóm eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um aukna sjálfstjórn sem fram fór 2017 í óþökk stjórnarinnar í Madrid, reyndar þyngsta dóminn, 13 ár á bak við lás og slá. Hann var varaforseti katalónsku ríkisstjórnarinnar 2017 og gegndiþá  jafnframt stöðu efnahagsráðherra.  Junqueras afplánaði fjögur ár í fangelsi. Þegar honum var sleppt úr haldi var það gert með því skilyrði að hann byði sig ekki fram til þings og kennsluréttindum við opinbera skóla var hann sviptur. Sakaruppgjöf náði því í reynd ekki til hans.  
Alls hlutu 9 þingmenn fangelssidóma frá 9 árum til 13 ára og þúsundir almennra borgara – mönnum reiknast til 4400 talsins – hlutu dóma þar á meðal fangelsisdóma.

Þegar ákveðið var að veita stjórnmálaforingjunum sakaruppgjöf var það látið fylgja með að inn á vettvang stjórnmálanna væri þeim ekki heimilað að stíga.

Þess má geta að forseti ríkisstjórnar Katalóníu, Quim Torra, var settur af árið 2018 í hálft annað ár fyrir þá sök að láta það viðgangast að á stjórnarráðsbygginguna þar sem hann réði, hafði verið hengdur borði með kröfu um að pólitískir fangar yrðu leystir úr haldi! Á þessum tíma var farið að hundelta alla þá sem höfðu staðið að þjóðaratkvæðagreiðslunni 1. október 2017, þar á meðal forvera hans í embætti, Carles Puigdemont sem flúið hafði land í kjölfar þess að hann var rekinn úr embætti. Hann hefur að minnsta kosti tvisvar sinnum verið hnepptur í varðhald í ríkjum Evrópusambandsins þegar hann hefur verið þar á fyrirlestraferðalagi. Þessi lönd eru Þýskaland og Ítalía.

Á myndinni má sjá Carles Puigdemont forseta Katalóníu 16. september 2017 koma frá Stjórnarráðinu í Barcelóna ásamt 700 bæjarstjórum í Katalóníu í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór 1. október.

Þrír stjórnmálaforingjar sem áttu yfir höfði sér fangelsisvist tókst að fá sig kosna til setu á þing Evrópusambandsins í kosningum sem fram fóru 2019. Þeirra á meðal var Carles Puigdemont. Hann hafði verið á flótta undan útsendurum spænskra yfirvalda víðs vegar um Evrópu sem áður segir. Á þingi Evrópusambandsins ríkir þinghelgi og héldu menn að með kosningu á þingið væri þessum einstaklingum borgið. Svo var ekki. Evrópuþingið gerði sér nefnilega lítið fyrir og svipti þá þinghelgi! Valdakjarninn í Brussel vissi að honum bæri að halda með kastalanum í Madrid.

Vinstra lýðveldisflokknum, Esquerra Republikcana de Catalunya, er lýst sem sósíaldemókratískum flokki. Síðan er á Spáni annar flokkur sem tekur til landsins alls og er kennndur við sömu stefnu, segist í heiti sínu vera flokkur sósíalista og verkalýðs, Partido Socialista Obrero Español. Þrátt fyrir tilvísanir til almannahags í heiti flokksins er ekki þar með sagt að hann búi yfir ríkri virðingu fyrir lýðræðinu. Ýmsir bundu þó vonir við að þegar flokkurinn komst til valda eftir kosningar 2018 undir forystu Pedro Sánchez, núverandi forsætisráðherra, yrði breyting á og ofsóknum á hendur lýðræðissinnum linnti.

Vissulega var stigið skref í þessa átt. Í júní 2021 var fangelsuðum leiðtogum sjálfstæðissinna formelega gefin sakaruppgjöf. Pedro Sánchez forsætisráðherra sagðist hafa gert þetta Spánar vegna og Katalóníu einnig. Hvorki minntist hann á réttlæti né lýðræði.
En þar með er ekki öll sagan sögð því það fylgdi nefnilega með í «sakaruppgjöfinni» að hinir «hreinsuðu» sakamenn mættu ekki gegna opinberri þjónustu þar á meðal ekki bjóða sig fram til þings! Og hvað viðmælanda okkar í Barcelóna snertir er atvinnumissir hans napra hlutskipti.

Litið á gang mála

Árið 2006 var samþykkt í samræmi við gildandi lög og stjórnarskrá að kanna vilja til sjálfstæðis í Katalóníu. Þetta gekk eftir til að byrja með. Árið 2014 var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu sem varla var komin á koppinn - enn á undirbúningsstigi - þegar byrjað var að bregða fyrir hana fæti og véfengja lögmæti hennar og gildi, hvetja fólk til að sniðganga atkvæðagreiðsluna og hafa í hótunum við þá sem ekki létu segjast.  Niðurstaðan var afgerandi á öllum svæðum í Katalóníu.

Spurt var tveggja spurninga. Viltu að Katalónía verði sjálfráða ríki? Viltu að slíkt ríki lýsi yfir fullu sjálfstæði. Um 80% svöruðu báðum spurningum játandi, 10 % annarri spurningunni en sárafáir á annan veg.

Enginn deildi um að niðurstöðum þessarar atkvæðagreiðsu ætti að taka sem ráðgefandi. Öðru máli gegndi um atkvæðagreiðsluna 2017. Skipuleggjendur hennar sögðu að niðurstöður bæri að ti að taka sem bindandi.

Enda gekk fyrirskipunin frá Madrid nú út á það að lögreglen mætti með kylfur við kjörstaði – og þeim skyldi beitt. Sem og var gert. Þess skal getið í framhjáhlaupi að öllum lögreglumönnum og hermönnum sem ásakaðir voru um líkamsmeiðingar og annað ofbeldi var veitt sakaruppgjöf; engin skilyrði sett um rétt þeirra til þess að munda kylfu í framtíðinni.

Niðurstöður í atkvæðagreiðslunni 2017 eru sláandi. Ekki aðeins vegna þess hve mikill meirihluti vildi sjálfstæði heldur hve mikil þátttaka var í kosningunni, 43%, þrátt fyrir hótanir og barsmíðar. Sjálfstæðissinnar segja að hátt í milljón stuðningsmanna sjálfstæðis hefðu viljað kjósa en gátu ekki. Allt var gert til að eyðileggja atkvæðagreiðsluna og vel að merkja ein höfuðsök hinna dæmdu var misnotkun á almannaverðmætum. Stálu þeir einhverju? Nei, en þeir höfðu opnað kjörstaði í skólum og annars staðar þar sem hefðbundið var að kjósa.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn voru ekki tilbúnir að segja kosninguna hafa verið í lagi, fundið var að innra skipulagi en ekki síður að ofbeldinu sem beitt var til þess að koma í veg fyrir að vilji fólksins fengi að koma í ljós. Það gerði það að verkum að kosningin taldist ekki í samræmi við kröfur um frjálsar kosningar.

Hér fyrir ofan er yfirlit sem sýnir þátttöku í kosningum til þings Evrópusambandsins í kosningum sem fram fóru 2024. Þar var kosningaþátttaka að meðaltali um 50%, sums staðar hærri, annars staðar lægri og var þó engum barsmíðum beitt. Þvert á móti hvöttu yfirvöldin alls staðar til þátttöku og allir kjörstaðir í almannaeign opnaðir upp á gátt án þess að nokkur ýjaði að misnotkun á almannaeignum. Þvert á móti.

Í mars 2019 gekkst ég fyrir því að Alfred Boch sem þá var utanríkisráðherra Katalóníu kæmi hingað til lands og talaði á fundi í Reykjavik í fundaröðinni Til róttækrar skoðunar. Ásamt honum kom til fundarins Eliena Casanas Adam, fræðikona við Edinborgarháskóla en Guðmundur Hrafn  Arngrímsson, sem nú er formaður Leigjendasamtakanna flutti þar einnig ávarp en hann hafði lengi verið áhugasamur og driffjöður um að þessi umræða færi fram. Fundurinn var fjölsóttur og var honum streymt.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Spænski sendiherrann fyrir Ísland kom því á framfæri við íslensk stjórnvöld að illa væri séð að þau hefðu nokkuð saman að sælda við þessa gesti, og þá sérstaklega löglega kjörinn utanríksráðherra Katalóníu. Og þetta hreif. Engir opnberir fundir urðu með gestunum og í  stjórnarandstöðunni gerðust kratar nú mjög til baka og feimnir, vildu greinilega ekki styggja samflokksmenn sína á næsta krataþingi því vel að merkja þá er Pedro Sánchez, formaður krataflokks Spánar, jafnframt formaður alþjóðasambands krataflokka, Socialist International.

Þetta varð til þess að fulltrúar íslenskra stjórnvalda héldu sig til baka með þeirri undantekningu að forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon mætti á fundinn í Reykjavík.

 

----------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge of course: https://www.ogmundur.is/

(Ábending: Margir þeirra sem hafa viljað skrá sig á útsendingarlista fréttabréfsins hafa orðið fyrir því að fá ekkert viðbragð eftir skráningu. Skýringin hefur oftar en ekki verið sú pósturinn hefur hafnað í ruslpósti. Fólk gæti að þessu.


To be taken note of: Sometime people who have wanted to subscribe to the news-letter (by pressing skrá netfang and by then giving their e-mail, netfangið þitt) have not got any confirmation. Ususally this is because the reply has been dirceted to the trash bin. Be aware of this.)