Fara í efni

Á FRAMANDI SLÓÐUM

Undanfarna viku hef ég verið á ferð um Basur, sem er kúrdískt heiti á á sjálfstjórnarhéraði Kúrda í norðurhluta Íraks sem Kúrdar nefna Suður-Kúrdistan. Kúrdahéruðin í Tyrklandi nefna þeir Norður-Kúrdistan, norðanvert Sýrland kalla þeir Vestur-Kúrdistan en Astur-Kúrdistan svo héruð Kúrda í Íran. Þetta er orðfæri þeirra sem barist hafa fyrir sjálfstæðu ríki Kúrda sem fáir aðrir en Kúrdar sjálfir viðurkenna.

Ég er í tveggja manna sendinefnd á vegum KNK sem eru regnhlífarsamtök Kúrda í öllm þessum byggðum. Upphaflega var gert ráð fyrir því að við yrðum einum fleiri í þessari för, auk mín, Þjóðverjinn Jürgen Klute, fyrrverandi þingmaður á þingi Evrópusambandsins þar sem hann hefur staðið í fararbroddi fyrir málstað Kúrda og svo suður-afrískur lögmaður, Sidney Luckett, sem tók þátt í frelsisbaráttunni gegn kynþáttastefnunni í Suður-Afríku en hann heltist úr lestinni af óviðráðanlegm ástæðum á síðustu stundu.

Við höfum átt viðræður við fulltrúa nær allra stjórnmálaflokka hér en verkefnið er að tala fyrir friði í landamærhéruðum Basur og Tyrklands en þar gengur á með morðárásum tyrkneska hersins og hefur gert um langa hríð þótt umheimurinn láti sér fátt um finnast.

Við höfum lagt áherslu á að friðarviðræður hefjist að nýju í Tyrklandi á milli Kúrda og þarlendra stjórnvalda eins og gert var með sýnilegum árangri á árunum 2013-15. Þá var fangelsuðum leiðtoga Kúrda, Abdullah Öcalan, heimilað að leiða viðræðurnar fyrir hönd Kúrda úr fangelsisklefa sínm á Imralíu-eyju þar sem hann hefur setið í aldarfjóðrung. Mikilvægt er að þessar viðræður hefjist að nýju og köllum við eftir stuðningi við að svo verði. Við erum sammála þeim sem telja að friðarviðræður á milli þessara aðila í Tyrklandi myndu hafa áhrif á öllum svæðum þar sem Kúrdar bá við ofsóknir.

Ég mun fjalla ítarlega m þessi mál hér á síðunni eftir fáeina daga ferð okkar en ferð okkar lýkur ekki fyrr en um komandi helgi. Set ég þetta í letur ekki síst til að skýra hvers vegna mörgum hefur reynst erfitt að ná við mig sambandi að undanförnu.

Hér að ofan má sjá okkur ferðafélagana Jürgen Klute njóta málsverðar með leiðsögumanni okkar, öðrum formannni KNK, Zainab Sahrat, og túlki okkar Dashdi Mahmood en að neðan er mynd sem tekin var fyrir utan skrifstofur eins stjórnmálaflokksins þar sem við hittum formann þess flokks og fleiri að máli.

Ég vek athygli á að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda.