Fara í efni

75 ÁR FRÁ INNGÖNGU Í NATÓ – ÚTGÖNGU VILJA 75

Í dag eru 75 ár liðin frá því að meirihluti Alþingis meldaði Íslendinga inn í hernaðarbandalagið NATÓ. Þjóðin var ekki spurð álits og þeir sem mótmæltu fengu framan í sig táragas lögreglu og síðan fangelsisdóma og sviptingu kjörgengis og kosningaréttar. Með þessu ofbeldi var settur ljótur blettur á íslenska réttarfarssögu.

Í tilefni dagsins og tilefni allra daga skrifa 75 Íslendingar undir áskorun um að Ísland segi sig nú úr NATÓ enda er þessi félagsskapur orðinn meiri ógn við friðsamlega sambúð í veröldinni en nokkru sinni fyrr.

Ástæðurnar eru tvær.

Aldrei fyrr hefur NATÓ gengið eins langt og nú í þjónkun sinni við vopnaiðnaðinn sem kyndir undir illindum og ófriði á opinskárri og hættulegri hátt en áður hefur þekkst.

Aldrei fyrr hefur þjónkun ríkisstjórna og stjórnmálamanna í hinum vestræna hluta heimsins við stríðsæsingamenn verið eins almenn og nú. Svo er komið að verstu stríðsæsingamennirnir eru stjórnmálamenn og forystumenn ríkja. Annað hvort skortir þá skilning eða sjálfstæði og þor til að tala máli friðar.

Áskorun 75 menninganna birtist á vísir.is: https://www.visir.is/g/20242549927d/hofnum-hernadarbandalaginu-

Oft hefur verið fjallað um 30. mars 1949 hér á síðunni. Dæmi um það er að finna hér:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/30-mars-1949

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.