Fara í efni

HVAÐ ER SKIPULÖGÐ GLÆPA-STARFSEMI?

                                            Inngangur

            Hér á eftir verður ljósi varpað á það hvort athafnir íslenskra banka- og fjármálamanna, fram að hruni, megi fella undir skipulagða glæpastarfsemi. Allt frá fyrstu vikum íslenska allsherjarhrunsins hefur af og til komið upp sérkennileg umræða á Eldgömlu Ísafold. Hún snýst í stuttu máli um það hvort sá hluti hrunsins sem fellur undir efnahagshrun feli í sér ásetning til afbrota og refsiverða háttsemi. Nýleg blaðagrein Kristínar Þorsteinsdóttur í Fréttablaðinu, 3. janúar 2013, er af þessum meiði. Greinin nefnist „Eva Joly og afkvæmið". Markmið greinarinnar er augljóslega eitt: að slá ryki í augu fólks og reyna af veikum mætti að telja því trú um það að þeir sem næstir stóðu á vettvangi beri litla sem enga ábyrgð á íslenska efnahagshruninu, að „óviðráðanlegar ástæður af völdum annara" séu meginorsökin. Þá er látið að því liggja að embætti Sérstaks saksóknara sé á villigötum. Síðan segir Kristín: „Að nefna meintar misgerðir íslenskra bankamanna í sömu andrá og glæpi rótgróinna mafíósa sem Eva Joly fékkst við niðri í Evrópu er fáránlegt."

            Þessi setning þarfnast rækilegrar skoðunar. Þarna er beinlínis sagt, berum orðum, að um gerólík fyrirbæri sé að ræða, þ.e.a.s. erlenda mafíustarfsemi og íslenskar „misgerðir" (mafíustarfsemi). Að þetta tvennt sé algerlega ósambærilegt. En er það svo? Áður en lengra er haldið er rétt að hafa í huga að mafíósar verða „rótgrónir" fái þeir frið til þess að athafna sig. Sama máli gegnir um spillingu, því lengur sem hún viðgengst þeim mun samslungnari verður hún samfélaginu. Hvort glæpastarfsemi [sem Kristín kýs að kalla því fágaða nafni „meintar misgerðir"] er „rótgróin" eða ekki segir því enga sögu um ásetning manna til afbrota eða eðli afbrotanna sem slíkra. Hins vegar má færa fyrir því rök að glæpamenn sem fá að athafna sig án afskipta lögreglu og rannsóknaraðila geti þróað með sér meiri leikni í glæpamennsku sinni en ella væri mögulegt. Það sýnist ljóst að íslenskir mafíósar hafi náð undraverðum „árangri" á erlendum vettvangi, á skömmum tíma. Má þar t.d. nefna „fasteignaviðskipti" að ógleymdum Icesave-reikningunum í Hollandi og Bretlandi!

            Sýnir reynslan að íslenskir mafíósar eru engir eftirbátar starfsbræðra sinna erlendis þegar kemur að svindli og glæpastarfsemi sem knúin er áfram af blindri gróðavon. Stofnun embættis Sérstaks saksóknara var því á allan átt eðlileg og nauðsynleg sem viðbrögð við þróaðri og umfangsmeiri glæpum en áður hafa þekkst. Það sem oft einkennir aðilana sem sæta rannsókn eins og hér um ræðir [og aðra sem með réttu ættu að sæta rannsókn] er að þeir hafa á að skipa lögmönnum og fjölmiðlum sem ekki selja æru sína dýru verði [málsvörnin kostar þó sitt]. Mætti tiltaka ákveðin mál í því sambandi en óþarft að gera það hér enda sum málanna enn til rannsóknar og önnur fyrir dómstólum. Að ekki takist að sanna mál, eða efnisatriði máls, merkir ekki alltaf að glæpurinn sé ekki til staðar heldur einungis að ekki hafa verið færðar sönnur á refsiverða háttsemi. Það er einfaldlega spurning um sönnunarfærslu fyrir dómi og mat á sönnunargögnum.

Alþjóðlegar skilgreiningar á skipulagðri glæpastarfsemi

            Ýmsir alþjóðasáttmálar fela í sér skilgreiningar á skipulagðri glæpastarfsemi. Þá má og nefna skilgreiningar bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) á fyrirbærinu, upplýsingar frá Interpol, auk laga fjölmargra ríkja sem innihalda slíkar skilgreiningar. En byrjum á alþjóðasáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

            „Skipulögð glæpasamtök" (Organized criminal group) eru í sáttmálanum skilgreind sem skipulagður hópur þriggja eða fleiri einstaklinga sem hefur verið til í ákveðinn tíma og vinnur saman að því marki að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða afbrot, samkvæmt sáttmálanum, í þeim tilgangi að hagnast, beint eða óbeint, fjárhagslega eða efnalega (United Nations Convention against Transnational Organized Crime 2004).

            FBI skilgreinir skipulagða glæpi út frá hópum sem hafa einhver einkenni formlegrar uppbyggingar og hafa að meginmarkmiði að afla fjár með ólögmætri starfsemi. Slíkir hópar viðhalda stöðu sinni með raunverulegu ofbeldi eða hótun um ofbeldi, í gegnum spillta embættismenn, misferli og kúgun, og hafa almennt umtalsverð áhrif á fólk á ákveðnum stað, svæði eða landi í heild sinni (FBI http://www.fbi.gov/about-us/investigate/organizedcrime/glossary).

            Um þetta segir á heimasíðu Interpol: Skilgreiningar á því hvað telst skipulögð glæpastarfsemi eru mjög mismunandi frá einu landi til annars. Skipulögð net [glæpamanna] eru yfirleitt þáttur í margs konar glæpastarfsemi sem spannar yfir nokkur lönd. Þessi starfsemi getur verið mansal, verslun með ólöglegar vörur, vopn og lyf, vopnuð rán, fölsun og peningaþvætti. Raunar tengist skipulagning nánast öllum glæpum sem Interpol fæst við (http://www.interpol.int/Crime-areas/Organized-crime/Organized-crime).

            Helstu einkenni skipulagðrar glæpastarfsemi [mafíustarfsemi] má út frá ofangreindum skilgreiningum draga saman í eftirtalda þætti:

  • 1) Einhvers konar „formlega" skipulagningu (eins og gefur að skilja)

•2)      Hóp sem samanstendur af þremur eða fleiri einstaklingum

  • 3) Ásetning um að fremja ólögmætt athæfi og hagnast á því (fjárhagslega eða á annan hátt)
  • 4) Ofbeldi, beint eða óbeint, til þess að ná fram markmiðum sínum (misferli, kúgun)
  • 5) „Umtalsverð áhrif" á félagslegt umhverfi, bæði nær og fjær

Falla verk íslenskra bankamanna undir skipulagða glæpastarfsemi?

            Þegar kemur að því að svara svo stórri spurningu er afar gagnlegt að hafa í huga áðurnefndar skilgreiningar og kanna síðan hvernig margs konar gerningar og athafnir íslenskra banka- og fjármálamanna falla að skilgreiningunum. Dómstólar á Íslandi taka fyrst og fremst mið af því hvort tiltekin háttsemi brýtur gegn hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um verðbréfaviðskipti o.s.frv. Með öðrum orðum, hvort tekist hefur að sanna brot á lögum. Þótt ákærðu sleppi frá dómi (eða hljóti mildan dóm) er alls ekki þar með sagt að viðkomandi hafi ekki stundað skipulagða glæpastarfsemi, enda koma þar við sögu önnur atriði en þau sem tekist er á um í réttarsölum.

            Umtalsverðar upplýsingar hafa komið fram um hegðun og háttsemi íslenskra bankamanna. Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis varpar þar ágætu ljósi á málin. Enn fremur dómar og vitnaleiðslur allt frá hruninu mikla. Ljóst má vera að umrædd brot gátu menn ekki framið nema í félagi við aðra. Þar kom til víðtæk samvinna „viðskiptafélaga", stjórnenda bankanna, endurskoðenda [sem virðast hafa sýnt mikla „lipurð"] og fleiri aðila. Þetta merkir að skipulagningu þurfti til þess að ná fyrirfram ákveðnum markmiðum (s.s. að fegra stöðu fyrirtækja, halda uppi gengi hlutabréfa eða fá lán á „góðum kjörum"). Skilyrði eitt og tvö hér að framan sýnast því uppfyllt í mörgum tilvikum sem hér um ræðir.

            Þriðji þáttur snýr að ásetningi (mens rea). Það hugtak vísar til huglægrar afstöðu manna þegar brot var framið. Hvort viðkomandi ætluðu sér að knýja fram ákveðnar afleiðingar eða hvort um var að ræða „gáleysi" eða „fúsk" eins og Kristín kýs að kalla það svo smekklega. „Fúsk" var vissulega ráðandi við margs konar ákvarðanir, enginn vafi á því en það er ekki trúverðugt að ásetning hafi skort. Menn í „viðskiptum" ætluðu sér vissulega að ná fram ákveðnum markmiðum og hagnast. Engin leið er að halda því fram að „óheppni" íslenskra bankamanna hafi verið sérstaklega mikil eftir einkavæðingu bankanna. Enda þótt um huglæga afstöðu sé að ræða (sem eðli málsins samkvæmt kann að vera erfitt að sanna í sumum tilvikum) má fullyrða að ásetningur[i] hafi verið til staðar í mörgum íslensku fjárglæframálanna. Það þarf t.a.m. ekki mikið hugmyndaflug til þess að sjá að banki sem tæmdur hefur verið innan frá muni standa illa á eftir. Eða að lánveiting með lélegum sem engum veðum kunni að skaða bankann verulega. Skortur á ásetningi er því í meira lagi ótrúverðugt innlegg.

            Fjórði þáttur snertir ofbeldi. Í nýlegum málaferlum og kennd eru við Vafning hefur komið fram að ákveðinn „viðskiptamaður" hafi beitt bankastjóra „þrýstingi" vegna lánveitingar. Hvarflar að einhverjum að það sé eina dæmið um „ofbeldi"? Hvað segir rannsóknarskýrslan? En eins og skilgreiningin ber með sér þá getur ofbeldið verið beint eða óbeint. Mörg dæmi mætti nefna um „útrásarofbeldi" en látið nægja að vísa til nefndrar rannsóknarskýrslu, dóma og fyrirliggjandi gagna.

            Um fimmta þáttinn er vart hægt að deila. Áhrifin af starfsemi íslenskra banka- og viðskiptamanna eru umtalsverð! Á tímabili mátti segja að þjóðarbúið stefndi í greiðslu- og gjaldþrot. Enn er ekki séð fyrir endann á þeim hildarleik þótt fjölmargt hafi færst til betri vegar. Margt hefur farið betur en á horfðist í upphafi.

            Eftir stutta yfirferð má draga þá ályktun að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Athæfi íslenskra banka- og fjármálamanna fellur mjög vel að erlendum skilgreiningum þar að lútandi og hér hefur verið rætt um. Hversu vel tekst til við að sanna hegningarlagabrot og önnur lögbrot er svo annað mál enda þótt ákveðin skörun sé þarna á milli (en sum lögbrotanna falla undir skilgreiningar á skipulagðri glæpastarfsemi. Má nefna peningaþvætti).

Nokkrar slóðir fyrir áhugasama lesendur

http://www.unodc.org/documents/treaties/UNTOC/Publications/TOC%20Convention/TOCebook-e.pdf

http://www.organized-crime.de/OCDEF1.htm

https://www.unodc.org/unodc/en/organized-crime/index.html

http://www.fbi.gov/about-us/investigate/organizedcrime

http://www.organized-crime.de/

https://reportingproject.net/occrp/

http://www.weforum.org/reports/organized-crime-enablers

http://ec.europa.eu/justice/criminal/criminal-law-policy/

http://www.blakes.com/pdf/Calgary/white_collar/Tab_4The_Law_of_Fraud_and_White_Collar_Crime_in_Canada.pdf

 [i]     Sjá enn fremur: Pontell, Henry N.; Geis, Gilbert L. (Eds.). 2007. International Handbook of White-Collar and Corporate Crime. http://www.springer.com/social+sciences/criminology/book/978-0-387-34110-1