Fara í efni

Washington og Kabúl

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, fékk hálftíma með George Bush  Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington í gær. Hann virtist alsæll eftir viðtalið. Þeir tjalda því sem til er, sagði Davíð hróðugur og ljómaði í framan. Að vísu hafi Condoleezza Rice, öryggismálafulltrúi Bandaríkjaforseta, ekki getað setið fundinn því hún hafi verið í útlöndum og varaforsetinn var líka á ferðalagi. Ekkert kom nánar fram um leiktjöldin eða því sem til var tjaldað en Davíð hefur lesið þannig í hópinn í kringum Bush að mjög fínt fólk hafi verið á staðnum. Það er ástæða til færa Davíð Oddssyni hamingjuóskir með þann stórkostlega árangur að fá að hitta Bandaríkjaforseta. Að vísu kom ekkert út úr fundinum annað en að mjög gott væri á milli þeirra og að þeir hefðu náð vel saman. Bush hefði sagt að stuðningur Íslendinga við utanríkisstefnu Bandaríkjanna hefði verið mikils metinn og mun Írak og Afganistan hafa borið á góma af því tilefni. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, var síðan í beinni útsendingu á Stöð 2 og hældist mjög af þátttöku Íslendinga í hernaðarsamvinnu innan NATO þar sem Íslendingar taka nú virkan þátt. Vegna þess alvarlega ástands sem skapast hefur í þjóðfélaginu eftir að ríkisstjórnin skýrði frá áformum sínum að hafa stjórnarskrárvarin lýðréttindi af þjóðinni hafa önnur mál fallið í skuggann. Eitt þeirra er hvernig Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra vinnur að því leynt og ljóst að koma á vopnuðum íslenskum her. Allt er gert undir því yfirskyni að við séum að leggja okkar af mörkum í friðarstarfi. Reyndin er allt önnur og hafa birst myndir frá Kabúl af vopnuðum Íslendingum. Hafa þessir menn ef til vill verið þjálfaðir sem hermenn? Þessu þarf nú að fara í saumana á og upplýsa verður þjóðina um hvað hér raunverulega er að gerast. Það verður ekki þolað að umræðulaust verði komið á fót íslenskum her. Það væri hins vegar eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn og einhvern veginn passar þetta ágætlega inn í samhengið: Stjórnarskráin brotin, kosningaréttur skertur og komið á fót vopnuðum her.