Fara í efni

VÖRSLUSVIPTINGAR OG RÉTTARRÍKIÐ


Í tilefni af umfjöllun um vörslusviptingar ritar Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, langa grein á vefmiðlinn Pressuna um aðfarahæfi. Þar vekur hann sérstaka athygli á þeim kostnaði sem fylgir því að fara að lögum og segir:

„Þegar fjármögnunarfyrirtækjum er með ólögmætum hætti aftrað frá því að nýta samningsbundinn rétt sinn leggst aukinn kostnaður á innheimtu kröfunnar, enda hafa réttargjöld verið hækkuð mjög rækilega að undanförnu eins og innanríkisráðuneytinu er fullkunnugt um. Þessi kostnaður sem nemur tugum þúsunda leggst til viðbótar á kröfuna og hækkar þannig skuld greiðandans. Vandinn er hins vegar sá að þeir sem leika þann leik að neita að afhenda bifreiðina þrátt fyrir vanefndir eru oftast ekki borgunarmenn fyrir þeim viðbótarkostnaði. Slíkur kostnaður kemur því fram sem tjón fjármálafyrirtækisins sem leiðir til hærri vaxtagreiðslna þeirra sem standa í skilum."

Fyrir það fyrsta er vert að vekja athygli á því að almennt myndi kostnaður við að fá úrskurð dómara vera fimmtán þúsund krónur en ekki tugirþúsunda. Hitt er þó öllu alvarlegra og það eru aðdróttanir formanns Lögmannafélags Íslands um að hækkanir á dómsmálagjöldum réttlæti að fara framhjá lögum í innheimtuaðgerðum. Þessi lógík er handrukkurum og ofbeldismönnum eflaust að skapi, en ekki okkur hinum sem viljum heldur að ágreiningsmál séu leyst með aðstoð réttarvörslukerfsins. Með rökfræði Brynjars mætti hins vegar afnema réttarríkið í heild sinni, enda fylgir því umtalsverður kostnaður sem við berum öll saman, óháð því hvort við þurfum nokkurn tímann að leita til dómstóla.

Brynjar velur - og er það væntanlega með ráðum gert - að skauta alfarið framhjá þeirri staðreynd að vörslusviptingarmenn hafa ekki heimild til að beita valdi, sama hversu hagkvæmt þeim kann að þykja það gagnvart eigin buddu eða annarra. Löggjöfin er alveg skýr í þessu sambandi. Sá sem telur sig eiga rétt til eignar sem er í vörslu annars manns þarf að leita til opinbers aðila og færa sönnur á rétt sinn. Dómari tekur síðan afstöðu til þess hvort beiðnin er réttmæt. Það skal hins vegar undirstrikað að gerðarbeiðanda er óheimilt að taka eign í sína vörslu þar til leyst hefur verið úr ágreiningnum fyrir dómi.

Lögreglan ein hefur heimild til valdbeitingar og þeirri heimild fylgir rík ábyrgð. Öllum má vera ljóst - og vonandi einnig formanni Lögmannafélags Íslands - að það myndi leiða til lögleysu og óreiðu ef ekki giltu skýrar reglur í þessum efnum.

Mín skoðun er sú að heimildir til valdbeitingar eigi að vera skýrar og þröngar, þannig að löggæslumenn eigi auðveldara með að meta heimildir sínar, í stað þess að gera þá að dómurum í oft flóknum ágreiningsmálum. Þá er hitt engin lausn falin í því að framselja heimild til valdbeitingar til hópa innheimtumanna eða einkarekinna rukkara. Slíkt er í andstöðu við reglur réttarríkisins sem ég trúi að okkur Brynjari Níelssyni, formanni Lögmannafélags Íslands, sé báðum umhugað um að halda í heiðri.

http://eyjan.is/2011/09/01/segir-ogmund-ordinn-talsmann-theirra-sem-fremja-refsiverd-brot-radherra-brjoti-gegn-thriskiptingu-rikisvalds/ 

http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Brynjar/vorslusviptingar