Fara í efni

VOPNAKAUP: RÉTT SKAL VERA RÉTT

Lögreglan 2
Lögreglan 2


Í fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga hefur verið óskað svara um tillögur og ákvarðanir sem lúta að vopnavæðingu lögreglunnar á Íslandi. Svör embættismanna hafa verið á þann veg að vísað hefur verið til almenns orðalags í skýrslum um þörf á búnaði fyrir lögreglu. Þannig virðist vera um að ræða tilraun til að leiða umræðuna frá þeirri staðreynd að enginn hefur lýst því yfir að viðkomandi hafi tekið endanlega ákörðun um að kaupa eða þiggja byssurnar heldur hefur verið rætt um ,,milligöngu" í því efni. Ekkert hefur komið fram um að ákvörðunin hafi verið byggð á ákveðnu mati eða tilteknum forsendum. Viðkomandi hefur ekki vísað til þess að formleg ósk hafi borist um að fá byssurnar, ekki hefur verið vísað til þarfagreiningar fyrir byssunum og svo mætti áfram telja.

Allt uppá borðum

Vegna þessa galla á ákvarðanatökunni virðist hafa verið gripið til þess örþrifaráðs og eftiráskýringar að vísa til almenns orðalags í skýrslum til að réttlæta gjörninginn. Fjöldi skýrslna um lögregluna hefur litið dagsins ljós undanfarin ár. Ein þeirra hefur ítrekað verið kölluð Ögmundarskýrsla í umræðu undanfarinna daga og þannig dylgjað um að vopnavæðing lögreglunnar sé að minni kröfu. Ekkert gæti verið meira fjarri sannleikanum. Staða lögreglunnar var og er enn krítisk þar sem fjárframlög til hennar hafa sætt niðurskurði á fjárlögum í mörg ár og niðurskurðurinn hefur enn ekki verið bættur þótt ég hafi ætíð sagt að slíkt hlyti að gerast í áföngum og með hliðsjón af stöðu ríkissjóðs.
Að sama skapi hef ég ætíð sagt að grundvallaratriði sé að allar upplýsingar komi fram sem varpað geti ljósi á stöðuna. Engum skýrslum var því ,,smyglað" í gegnum Alþingi í minni ráðherratíð líkt og segir í nýlegri frétt DV. Þvert á móti vildi ég að allar upplýsingar kæmu fram og þær ræddar af alvöru. Í þessari frétt DV er í raun fjallað um tvær ólíkar skýrslur og er fréttin að því leyti röng. Engan skal undra því erfitt getur verið að hafa yfirsýn yfir allar þær skýrslur og skjöl sem unnin hafa verið á lengri tíma. Til upplýsingar og svo allir geti glöggvað sig á þeim skýrslum og skjölum um lögregluna sem hafa litið dagsins ljós undanfarin ár tel ég rétt að birta hér lauslegt yfirlit yfir helstu gögn:

Þessi þingsályktunartillaga var samþykkt í júní 2012. Hér er innanríkisráðherra falið að skipa nefnd níu fulltrúa sem fjalli um grundvallarskilgreiningar á löggæslu og geri löggæsluáætlun fyrir Ísland.

Þessi skýrsla varð til í innanríkisráðuneytinu haustið 2012 og hefur undanfarna daga verið kölluð ,,skýrsla Ögmundar" eða ,,Ögmundarskýrslan". Ljóst er af inngangsorðum hennar að hér er um að ræða afurð samráðsfunda embættis ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytis þar sem RLS kemur á framfæri mati sínu á stöðu lögreglunnar. Á blaðsíðu 2 má finna þann texta sem vitnað hefur verið beint í til að réttlæta vopnavæðingu almennrar lögreglu. Hér var ekki um að ræða skýrslu sem formlega gekk til Alþingis og þar borin undir atkvæði. Svo var ekki. Ég gerði hins vegar alþingismönnum skýrsluna aðgengilega svo að efni hennar gæti fengið opna umræðu.

Þessi skýrsla, svokölluð Leiðarljóssskýrsla var unnin í innanríkisráðuneytinu og var rædd á Alþingi vorið 2013 en hér er um að ræða þverpólitíska vinnu þar sem stjórnmálamenn og embættismenn settust við sama borð til að fjalla um málefni lögreglunnar og komust að sameiginlegri niðurstöðu. Mun það vera í fyrsta sinn sem málefni lögreglunnar hljóta slíka nálgun. Hér er því um að ræða tímamótaplagg og mikilvæga skýrslu sem ætlað var að verða leiðarljós við gerð löggæsluáætlunar en sú vinna stendur nú yfir.

Í tíð Hönnu Birnu Kirstjánsdóttur, sem innanríkisráðherra var þingmannanefnd falið að forgangsraða sérstakri viðbótarfjárveitingu. Þar er um að ræða 300 milljón króna framlagi til viðbótar 200 milljónum sem fyrri ríkisstjórn lagði til fyrir fjárlagaárið 2013. samtals gerir þetta 500 milljónir. Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum undanfarið að umræddar hríðskotabyssur hafi verið fjármagnaðar með hluta þessarar viðbótarfjárveitingar. Því hefur hins vegar verið hafnað að innanríkisráðuneytinu.

Leyndin sjálf tortyggileg

Þessa vikuna hafa borist fregnir af vopnavæðingu almennrar lögreglu í landinu. Útskýringar hafa verið gefnar en flestum hefur verið breytt í kjölfarið eða dregnar til baka, leiðréttar o.s.frv. Það ætti ekki að vera flókið verkefni að upplýsa almenning í landinu um það hver hafi tekið ákvörðun um byssurnar, skýra frá því á hvaða forsendum sú ákvörðun var tekin og færa fyrir ákvörðuninni rök. Á meðan það er ekki gert og leyndinni er ekki eytt með trúverðugum upplýsingum verður ekki hægt að ræða málið af alvöru og tortryggnin ein mun lifa. Það er ekki gott þegar lögreglan á í hlut.