Fara í efni

VONANDI MISHEYRÐIST MÉR SUMT Í SILFRINU


Við berum öll saman ábyrgð og okkur ber öllum að vinna saman að framhaldinu á lausn Icesave-deilunnar. Á þessa leið mælti Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í Silfri Egils í dag. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um framhald málsins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að sinn flokkur væri ekki að draga sig út úr samningaviðræðunum um Icesave og sama var uppi á teningnum hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins. Birgitta Jónsdóttir frá Hreyfingunni kvaðst vera að skoða málið en fram kom hjá henni traust í garð samninganefndarinnar sem setið hefur á rökstólum við Breta og Hollendinga að undanförnu. Eiríkur Svavarsson, talsmaður Indefence-hópsins kom einnig inn á nauðsyn þess að leiða þetta mál farsællega til lykta. En þá er líka að gera það. Enginn hefur rétt á að hrökklast frá borði. Hvað þá að nýta sér það í þröngum pólitískum tilgangi.

Undir niðri í samræðunum í Silfri Egils kraumaði Sturlungaöldin. Stutt var í að menn vildu tengja Icesave og líf ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum, nota Icesave til að koma ríkisstjórninni frá. Hvað sem mönnum finnst um framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave - og þar er ég mjög gagnrýninn - þá er þetta óafsakanleg framganga.
Ástæðurnar fyrir því eru tvær:
Í fyrsta lagi, þá er niðurstaða sem byggir á ósamlyndi lakari en niðurstaða sem byggir á samstöðu.
Í öðru lagi, þá hefur þjóðin þörf fyrir að koma sameinuð út úr þessu máli en ekki sundruð. Þannig líður öllum betur og við erum fyrir bragðið betur í stakk búin að stíga skref inn í framtíðina.

Langt er liðið frá Sturlungaöld. En arfleifð hennar má aldrei gleymast. Hatrammar deilur leiddu til hruns íslensks samfélags sem tók aldir að komast upp úr. Málefnalegar deilur eru jafn heilbrigðar og ómálefnalegar deilur eru illar. Þegar þröngir flokkshagsmunir ráða er aldrei við góðu að búast. Þá gerast jafnvel bestu menn ómálaefnalegir.  Nokkur orð féllu í þættinum sem báru vott um að flokkshugsun væri að byrja að byrgja mönnum sýn. Vonandi misheyrðist mér eitthvað í Silfrinu í dag.