Fara í efni

VITA MENN AF HVERJU ÞEIR ERU SVONA REIÐIR?

Hnefinn 2
Hnefinn 2

Mikill hugaræsingur er víða vegna nýgerðra búvörusamninga. Brigslyrði og ásakanir ganga á víxl. Fjölmiðlar, sumir hverjir, krefja þingmenn sagna um afstöðu eða afstöðuleysi eftir atvikum og er sérstaklega til umræðu að margir hafi setið hjá við atkvæðagreiðslu. Sumir eru gamansamir. Forstjóri Haga, skrifar þannig grein til að útskýra hvernig hjásetumenn hafi brugðist bændum!

Ekki standast allir þessa ágjöf sem er þó skopleg í bland. Þannig sjást þess dæmin um hjásetumenn sem ákaft iðrast og skrifta opinberlega í von um syndaaflausn. Enda stutt í kosningar.

Hjáseta, einkum af hálfu stjórnarandstöðu, er iðulega vegna þess að stjórnarandstaðan hefði viljað tilteknar breytingar á því þingmáli sem er til afgreiðslu í það og það skiptið, en getur líka þýtt andstöðu við mál. Yfirleitt gera menn þá grein fyrir hvernig túlka eigi hjásetu þeirra. Gott ef ég sat ekki hjá á sínum tíma við endanlega afgreiðslu skuldaleiðréttingarinnar, sem ég studdi þó, en taldi að útfærlsan hefði átt að vera á annan veg,  sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/gerdi-grein-fyrir-afstodu-minni

Annað ágætt dæmi eru fjárlögin. Yfrileitt situr stjórnarandstaða hjá við afgreiðslu þeirra á sömu forsendum. Stjórnarandstaðan er þá sátt við sumt en ósátt við annað en áréttar að hún hafi ekki samið frumvarpið og taki hún ekki á því pólitíska ábyrgð. Gera þingmenn þá yfirleitt grein fyrir afstöðu sinni og skýrist við það hjásetan. Hjáseta þarf því ekki að þýða afstöðuleysi.

Sama gegnir um búvörulögin. Þau studdu menn eða andmæltu eftir atvikum. Sum þeirra sem gerðu hvað best grein fyrir afstöðu sinni í umræðu á þingi eða í fjölmiðlum, nema hvort tveggja væri, sátu hins vegar hjá við afgreiðsluna. Gagnrýndu þá, meðal annars, að hafa ekki haft færi á að móta samningsferlið af hálfu ríkisins sem skyldi. Að sama skapi tóku aðrir þátt í atkvæðagreiðslunni án þess að vitað sé að hafi gert skýra grein fyrir afstöðu sinni. Bara á móti málinu án þess að það sé skýrt nánar, sem er náttúrlega afstaða út af fyrir sig þótt órökstudd sé.

Ég legg til að fjölmiðlafólk sem vill blása þessi mál út í ljósi atkvæðagreiðslunnar einnar leggist yfir málið og skoði ræður þeirra sem tjáðu og skrifuðu í blöð. Sjálfur hef ég nokkuð skrifað um þessi mál og afstaða mín til álitamála sem tengjast landbúnaði, kunn þótt ekki hafi ég átt kost á því að vera við umfjöllun og atkvæðagreiðslu búvörusamninganna.

Hvað þessa samninga áhrærir og hugaræsinginn sem þeim fylgir sýnist mér andmælin vera á mjög mismunandi forsendum. Sumir eru á móti því að samfélagið styðji yfr höfuð innlenda landbúnaðarframleiðslu, aðrir vilja að það sé gert með öðrum hætti. Enn aðrir telja samvinnurekstur eins og mjólkurbændanna í MS slæman, allt eigi að byggjast á samkeppni bænda og framleiðenda í millum, óháð þeim skjalfesta  árangri sem samvinnureksturinn hefur skilað. Síðan eru þau sem telja að ekki eigi að semja til langs tíma, aðrir að jafnvel endurskoðunarákvæði samninganna feli í sér óöryggi fyrir atvinnugreinina. Þá eru þau sem vilja styðja innlenda mjólkur- og kjötframleiðslu en ekki til útflutnings. Aðrir vilja leysa málið með inngöngu í ESB og gera bara eins og gert er þar á bæ. Eða kannski ekki, því þar er heldur betur skipulagt og niðurgreitt. Það er því vandlifað.

Kannski er þegar allt kemur til alls bara auðveldast að vera reiður, jafnvel ofsalega reiður. Reiði er hins vegar aldrei góð ef maður ekki skilur hvers vegna. 

Annars vakir ekki fyrir mér að gera lítið úr skoðanaágreiningi og umræðu. Þjóðfélagið á einmitt að færast fram á við í kröftugri og málefnalegri umræðu.  En til að svo megi verða - að við færumst fram á veginn en ekki aftur á bak - þá þarf umræðan talsvert meiri undirbyggingu en sú sem við höfum orðið vitni að síðustu daga um búvörulögin. Þess bera vitni allar heitstrengingarnar og formælingarnar sem birtast okkur þessa dagana.

Annars á ég þá ósk, að inn á Alþingi veljist fleira fólk en færra, sem vill verja innlenda landbúnaðarframleiðslu og íslenska bændur og helst sem fæsta sem segjast vilja bjarga bændastéttinni með því að rýra hlut hennar.