Fara í efni

Vísvitandi vanþekking Magnúsar og bakþankar Eiríks

Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á tveimur greinum eftir Þorleif Óskarsson  sagnfræðing um fjölmiðla hér á heimasíðunni. Annars vegar víkur hann að ummælum Magnúsar  Stefánssonar alþingismanns um ungt fólk í Fréttablaðinu 29. janúar. Þorleifur segir að svo sé að skilja á Magnúsi að ómerkilegir áróðursmeistarar hafi blekkt unga fólkið varðandi stóriðjuáform stjórnvalda; unga fólkið sé á valdi tilfinninga og áðróursmeistararnir beiti „vísvitandi vanþekkingu“. Þorleifur telur þetta vera nokkuð nýstárlegt sjónarhorn og bera vott frumlegri hugsun framsóknarmanna og í þeirra anda. Ekki veit ég hvort ég get tekið undir með Þorleifi að framsóknarmenn séu öðrum fremur opnir fyrir „vísvitandi vanþekkingu“ en ég bendi lesendum á að kynna sér rökstuðning Þorleifs. Bakþankar Eiríks Jónssonar á baksíðu Fréttablaðsins nýlega um gleraugu þjóðþekktra manna urðu Þorleifi tilefni til að íhuga með hvaða augum fjölmiðlarnir skoða þjóðlífið.