Fara í efni

Vísindasiðanefnd beitt valdi

Birtist í Mbl
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs hefur sent frá sér ályktun þar sem varað er við þeim breytingum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að gera á vísindasiðanefnd. Tvennt hefur gerst að frumkvæði ráðherrans.

Í fyrsta lagi var nefndin sett af í heilu lagi. Eins og flesta rekur eflaust minni til var meirihlutinn í þeirri nefnd sem nú hefur verið leyst frá störfum mjög gagnrýninn á vinnubrögð ríkisstjórnarinnar varðandi gagnagrunninn á heilbrigðissviði og hélt uppi faglegri og málefnalegri umræðu um áform stjórnvalda.

Í öðru lagi skal nú annar háttur hafður á við að tilnefna í nefndina. Tilnefningu í hana er nú breytt á þann veg að í stað þess að óháðir aðilar tilnefni fulltrúa er sá réttur færður til ráðherra í ríkisstjórninni en með því móti er vísindasiðanefnd hnýtt fastari böndum framkvæmdavaldinu en verið hefur. Auk þess að fækkað er í nefndinni um tvo er tilnefningarrétturinn nú tekinn af læknadeild og lögfræðideild Háskóla Íslands, Líffræðistofnun, Læknafélagi Íslands, Fél. hjúkrunarfræðinga og Siðfræðistofnun. Landlæknisembættið heldur sínum tilnefningarrétti en ráðherrarnir sem koma til með að skipa í nefndina framvegis eru menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra auk heilbrigðisráðherra.

Vísindasiðanefnd hefur m.a. það verkefni að úrskurða um ágreining sem upp kann að koma í tengslum við miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði en sem kunnugt er fara nú fram samningar um það efni á milli ríkisstjórnarinnar og Íslenskrar erfðagreiningar. Með fullri virðingu fyrir því fólki sem nú er skipað í nefndina þá er það fullkomið hneyksli að á þessu viðkvæma stigi skuli vísað úr vísindasiðanefnd þeim einstaklingum sem hafa kafað rækilegast í gagnagrunninn; hafa til að bera þekkingu á þessu sviði og hugrekki til að standa við sannfæringu sína. Aðfarir ríkisstjórnarinnar vekja spurningar um frjálsa gagnrýna hugsun á Íslandi. Í þessu tiltekna máli hefur slík hugsun þvælst fyrir ríkisstjórninni. Í stað þess að svara gagnrýni með rökum er beitt valdi.

Árni Sigurjónsson benti á það í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku að orka kunni tvímælis hverjir séu óháðir og hverjir ekki. Þegar allt komi til alls séu starfsmenn Háskóla Íslands opinberir starfsmenn og undirseldir framkvæmdavaldinu. Þá bendir hann á að víða leynist hagsmunaþræðir, einnig í háskólum. Þetta kann að vera sjónarmið en engu að síður ganga hefðir háskóla út á að standa vörð um sjálfstæða, gagnrýna hugsun og langur vegur þykir mér vera á milli þess að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands tilnefni í vísindasiðanefnd eða Björn Bjarnason menntamálaráðherra sem reyndar hefur þegar tilnefnt skrifstofustjóra sinn.

Allt þetta vekur spurningar um aðskilnað framkvæmdavalds og úrskurðaraðila á borð við vísindasiðanefnd. Heilbrigðisráðherra telur sig hafa vald til að breyta reglugerðum um þetta efni einhliða. Að okkar dómi hefur heilbrigðisráðherra farið offari í þessu máli enda mun þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs beita sér fyrir því að málið verði tekið til umfjöllunar á Alþingi þegar það kemur saman í byrjun október.