Fara í efni

VÍSINDAFÉLAG ÍSLENDINGA 100 ÁRA

vísindafélag Ísl
vísindafélag Ísl

Eitt hundrað ára afmælisbörn eru allmörg þetta árið enda 1918 sögulegt ár fyrir margra hluta sakir, Íslendingar öðluðust fullveldi á þessu ári og skynjuðu fyrir vikið án efa betur en áður að þjóðin þyrfti að standa á eigin fótum. Og athyglisvert er að svo var litið á að fullvalda þjóð í framfarasókn þyrfti á vísindafélagi að halda, enda gerði nýstofnaður Háskóli Íslands vísdómsorð Jónasar Hallgrímssonar, Vísindin efla alla dáð, að einkunnarorðum sínum.  

Og nú blæs Vísindafélag Íslendinga - það má heyra bjartsýnistóninn frá þessum tíma í nafngiftinni - til nýrrar sóknar í tilefni af aldarafmæli sínu. Á laugardag hefst fyrirlestraröð þar sem leitað er til íslenskra vísindamanna um að gera grein fyrir rannsóknum sínum.

Í útvarpsþættinum Samfélaginu, sem slóð hér að neðan vísar til, ræðir Leifur Hauksson, sá frábæri útvarpsmaður, við Ernu Magnúsdóttur, formann Vísindafélagsins og Valgerði Andrésdóttur, sameindaerfðafræðing um veirurannsóknir á Keldum og hvernig þær tengjast alþjóðlegum vísindarannsóknum, m.a. á HIV veirunni.

Báðar verða þær, Erna og Valgerður, ásamt Þorsteini Vilhjálmssyni, prófessor emeritus og Sigurði Guðmundssyni, fyrrverandi landlækni og prófessor, á fyrsta fundi Vísindafélagsins í fyrrgreindri fundaröð. Fjallað verður um vísindasögu og framlag Íslendinga á sviði  veirurannsókna. Fundurinn verður í Safnaúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík og stendur frá klukkan 13:30 til kl. 15:00 eða þar um bil.

Slóð á viðtal: http://www.ruv.is/spila/ras-1/samfelagid/20180405

Um fundinn: http://www.visindafelag.is/forsida/frett/119394/
Vís-Islend - augýsing