Fara í efni

VINUR KVADDUR

Síðastliðinn föstudag var jarðsunginn frá Guðríðarkirkju Matthías Björnsson, loftskeytamaður og kennari með meiru. Já, miklu meiru. Matthías var mikill Íslendingur og elskaði land sitt og þjóð. Útförin bar þess og merki, ættjarðarlögin ómuðu í bland við kristilegan boðskap. Hver á sér fegra föðurland, Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót...
Matthías fór víða um lönd sem loftskeytamaður á skipum og í andanum var hann sífellt á ferðinni, brennandi af áhuga á málefnum líðandi stundar sem hann fléttaði jafnan arfleifð fyrri tíðar.
Matthías var lítið gefið um þá tilhugsun að Ísland gengi í Evróupsambandið, mátti ekki til þess hugsa, þeim mun meira var honum umhugað að tryggja fullvalda Ísland, sjálfstætt og réttlátt. Já, réttlátt. Það mátti ekki vanta, réttlætið. Matthías var alla tíð eldheitur sósíalisti af bestu gerð!
Séra Hreinn S. Hákonarson jarðsöng hina öldnu kempu og gerði öllu þessu góð skil í minnigarorðum sínum. Séra Karl Matthíasson, sonur Matthíasar tók mig síðan í kennslustund að lokinni athöfninni þegar ég spurði hann um ritningarlesturinn sem valinn hafði verið og endaði á þeirri bæn að við mættum „öðlast viturt hjarta."  Þetta þótti mér góð hugsun, hjartahlýja og velvild byggð á visku.
Í fyrri tíma skilningi á manninum var vitið í hjartanu og var það ekki fyrr en vel var liðið á mannkynssöguna að þekking og vit varð staðsett ofan axla. Það breytir ekki ágæti þessarar hugsunar um manngæsku byggða á viturri hugsun. Er þetta réttur skilningur, spurði ég séra Karl? Hann kvað svo vera og hélt síðan yfir mér merkan fyrirlestur og klykkti út á því að 90. Davíðssálmur sem lesið hefði verið upp úr væri að margra mati inspírasjón séra Matthíasar Jochumssonar að þjóðsöng Íslendinga:
Ég fletti upp á 90. Davíðssálmi. Upphafið er á þessa leið:

Drottinn þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir : „Hverfið aftur þér mannanna börn."
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka...

Blessuð sé minning vinar míns Matthíasar Björnssonar.