Fara í efni

VINNUM MEÐ ÞEIM SEM STANDA OKKUR NÆST

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 09.12.12.
Fyrirsögnina sæki ég  efnislega í útvarpsviðtal við Anton Frederiksen, innanríkisráðherra Grænlands, sem hér var í opinberri heimsókn fyrir fáeinum dögum ásamt Kára Höjgaard, innanríkisráðherra Færeyja.
Í viðtalinu ræddi Anton Frederiksen meðal annars um ásælni erlendra stórvelda í grænlenskar auðlindir. Nefndi hann Kína í því sambandi. Fleiri renna vonaraugum til þeirra verðmæta sem kunna að vera fólgin í risavöxnu Grænlandi sem Eiríkur rauði nefndi svo, þegar norrænir menn undir hans forystu stigu þar á land fyrir rúmum eitt þúsund árum. Grænlendingar sem komu til Grænlands yfir freðmýrar Norður-Ameríku nefndu landið hins vegar Kalaallit Numat. Það mun þýða land þjóðarinnar sem landið byggir.  Þessi tenging á milli lands og samfélags er skemmtileg og um leið mjög umhugsunarverð.
Og það var einmitt þessu tengt sem grænlenski innanríkisráðherrann lagði áherslu á í fyrrnefndu viðtali; mikilvægi þess að gæta hagsmuna grænlensku þjóðarinnar þegar vald og auður bönkuðu upp á. Og sem fyrr segir þá eru það ekki aðeins Kínverjar sem eru áhugasamir; Evrópusambandið er farið að dæla þangað fjármagni í formi styrkja, átta milljörðum árlega ef ég hef skilið rétt. Og Anton Frederiksen sagði í þessu samhengi að við, grannarnir á norðurslóðum í Vestnorræna ráðinu, Grænlendingar, Íslendingar og Færeyingar, ættum að haldast í hendur í lífsins ólgusjó.
Þessu er ég hjartanlega sammála. Við búum að sönnu við ólíkar aðstæður að ýmsu leyti. Þegar við berum saman bækur okkar í sveitarstjórnarmálum kemur til dæmis á daginn að sveitarfélögin á Grænlandi eru margfalt stærri en Ísland, það stærsta reyndar stærra en Frakkland og Portúgal til samans! Við erum aftur fjölmennasta þjóðin, af þessum þremur vestnorrænu þjóðum, þótt á heimsvísu séum við agnarsmá.
En þessar þrjár þjóðir eiga það sammerkt að byggja lönd á norðurslóð, umlukin hafinu, staðráðin í því að láta ekki hafa af okkur sjávarauðlindina sem um aldir hefur haldið í okkur lífinu og í seinni tíð fært okkur velsæld. Þegar á hefur þurft að halda hefur hjálparhöndin jafnan komið fyrst frá okkar góðu grönnum. Færeyingar buðu Íslendingum lán á kostakjörum strax eftir hrun og skáru sig úr öllum með því að setja okkur engin skilyrði.  Slíku vinarbragði eigum við aldrei að gleyma. Þarna sýndu Færeyingar að þeir standa okkur ekki aðeins næst landfræðilega heldur einnig sem góðir óeigingjarnir vinir.
Og þessa óeigingirni eigum við að temja okkur í samskiptum við þessa granna okkar á norðurslóð. Vestnorrænu þjóðirnar þrjár eiga að styðja hver aðra í glímunni við mennina með seðlabúntin og stór-ríkin sem ásælast land þeirra. Þá er hollt að muna boðskapinn í nafngift Grænlendinga á landi sínu, Kalaallit Numat:  Að landið og auðæfin eru fyrir samfélagið og eiga að þjóna því en ekki peningavaldinu eða stórveldahagsmunum, hvort sem er í Peking, Moskvu, Brussel  eða Washington.