Fara í efni

Vill þjóðin þýlynda þingmenn?

Birtist í Fréttablaðinu 17.12.2003
Í kjölfar þess að ríkisstjórnin knúði í gegn frumvarp sitt um lífeyrismál þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara hefur hún látið höggin dynja á stjórnarandstöðunni. Að vísu eru þetta léttvæg högg en þeim mun óskammfeilnari eru þau. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lýst því yfir að stjórnarandstaðan sé ekki samstarfshæf og Björn Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks og dómsmálaráðherra telur að málsmeðferð frumvarpsins hafi sýnt fram á að stjórnarandstöðuflokkarnir séu ekki samstarfshæfir í ríkisstjórn. Björn Bjarnason segir orðrétt á heimasíðu sinni að  "forsenda þess, að frumvarpið yrði lagt fram, væri stuðningur við það í öllum þingflokkum."  Svona einfalt er málið í huga Björns Bjarnasonar. Hann virðist líta svo á að málið hafi verið afgreitt. Það var nefnilega búið að segja Birni Bjarnasyni og félögum hans í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að málið hafi verið rætt við formenn allra flokka og hann dregur þá einföldu ályktun að öllum hljóti að hafa verið sagt hvaða afstöðu þeir ættu að hafa. "Traust", segir Björn Bjarnason, "er forsenda þess, að samstarf takist milli manna í stjórnmálum eins og á öðrum vettvangi. Í þessu máli sannaðist enn, að stjórnarandstöðunni er ekki unnt að treysta."

Stjórnarliðar samþykktu frumvarpið nánast óséð

Við þennan tón kvað einnig hjá þingmönnum Framsóknarflokksins í umræðu um þetta þingmál. Einnig þeir höfðu fengið í hendur frumvarp volgt úr ljósritunarvélinni undir kvöld á miðvikudag. Þegar í stað virðast allir þingmenn flokksins hafa verið málinu sammála frá upphafi til enda. Og í pontu stigu þeir hver á fætur öðrum og sögðu stjórnarandstöðuna "óstjórnhæfa".
Þetta þykir mér bera vott um ótrúlegan skort á sjálfsvirðingu þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Nú verður skiljanlegra hvers vegna Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafa komist upp með allt ruglið. Þeim er einfaldlega hlýtt gagnrýnislaust, hvort sem það heitir Kárahnjúkavirkjun, einkavæddur gagnagrunnur á heilbrigðissviði, samningsrof við öryrkja, einkavinavæðing og nú síðast málsmeðferð þessa frumvarps.
Hjá okkur í Vinstrihreyfingunni grænu framboði horfir þetta öðruvísi við. Við kappkostum að vera lýðræðislegur stjórnmálaflokkur. Í þessu tilviki er tiltekið lagafrumvarp borið undir formann flokksins. Hann kveðst vera sammála ýmsum meginforsendum frumvarpsins en lýsir þó efasemdum um tilteknar greinar, einkum þær sem snúa að hans eigin kjörum, tímasetningu og málsmeðferð. Jafnframt kemur fram að mjög eindregin andstaða muni koma fram úr röðum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs við frumvarpið og alla þá hugmyndafræði sem það byggir á. Um þetta getur undirritaður borið vitni.
Nú ber að hafa það í huga að málið var kynnt undir ströngum trúnaði af hálfu guðfeðra þess. Í ljósi þess spyr ég: Hvernig er hægt að ætlast til þess að allir þingmenn styðji málið samstundis og það kemur fram, án þess að þeir hafi kynnt sér efni þess? Talsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru í reynd að segja okkur að nánari skoðun mála gerist ekki þörf því þeir hafi ákveðið fyrir hönd flokksmanna sinna hver niðurstaðan verði!

Forsenda þess að þinginu sé treystandi

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna ætluðst hins vegar til að þeim gæfist tækifæri til að kynna sér málið og taka síðan málefnalega afstöðu til þess á eigin forsendum. Þetta eru eðlileg vinnubrögð og forsenda þess að  þinginu sé treystandi.  Sú þýlyndisstefna sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur krefjast af þingmönnum sínum skýrir hve margar illa ígrundaðar ákvarðanir hafa verið teknar á síðustu kjörtímabilum.
Vel má vera að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geti treyst hvor öðrum að rugga ekki bátnum um of og stofna þannig völdum hvors annars í hættu. Það er eflaust þetta sem Björn Bjarnason á við þegar staðhæft er að "traust" þurfi að ríkja á milli stjórnmálaflokka. Það þýðir í reynd að hafa á að skipa liði sem gerir það sem því er sagt. Öðru máli gegnir um hina sem vilja skoða málin á ígrundaðan hátt og taka síðan yfirvegaða afstöðu. Slíkt fólk er það sem Björn Bjarnason og samstarfsfélagar hans í Framsóknarflokknum telja vera "óstjórnhæft."

"Þokkalegir þingmenn"

Hjálmar Árnason þingmaður Framsóknarflokks skrifar grein í Fréttablaðið í gær sem ber nokkuð beitta fyrirsögn: Nótt hinna löngu hnífa. Hjálmar segir að sveðjum hafi óspart verið brugðið á loft í þessari umræðu "ekki vegna efnis" hins umdeilda frumvarps, heldur "vegna hliðarverkana". Þar er m.a. um það að ræða að einstakir þingmenn leyfðu sér að hafa skoðun á málinu og tóku jafnvel mark á ábendingum utan úr þjóðfélaginu! Hjálmar segir að lengi hafi verið vilji til að breyta lífeyrisréttindum þingmanna. Þetta er rétt hjá Hjálmari en hitt er rangt að um þetta hafi farið fram skipuleg og víðtæk umræða. Það er greinilegt að Hjálmar Árnason botnar ekkert í öllu þessu írafári. Hann kallar sér til vitnis háskólakennara  í stjórnmálafræðum um að nauðsynlegt sé "lýðræðisins vegna" að stjórnmálamönnum séu búin góð kjör, "þannig að til þess fáist þokkalegt fólk". Ég ætla fyrir mitt leyti að kalla til vitnis Drífu Snædal, ritara Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um gagnstætt viðhorf. "Fólk fer ekki út í stjórnmál út af peningum og það á ekki að vera þannig", segir hún í viðtali við morgunútvarp.  Þetta held ég að sé rétt. Sannleikurinn er sá að ef þingmönnum eru búin allt önnur og betri kjör en almennt gerist í landinu þá er sú hætta fyrir hendi að tengslin við þá sem eru á lágum tekjum hreinlega rofni. Menn hætti að finna nokkurn hlut á sjálfum sér en þurfi þess í stað að reyna að komast að sanngjörnum niðurstöðum með útreikningum. Þannig þyrftu  hinir "þokkalegustu menn"  að bera sig að. En hitt er aftur á móti víst að ef alþingismenn, að ekki sé nú minnst á ráðherra, hefðu verið á strípuðum örorkubótum þá er ég viss um að samningurinn sem gerður var við Öryrkjabandalag Íslands hefði ekki verið brotinn.