Fara í efni

Vill Sjálfstæðisflokkurinn minnka íbúðarhúsnæði eða veikja Íbúðalánasjóð?

Það er ágætt til þess að vita að til standi að hækka lán Íbúðalánasjóðs. Ætlunin er að hækka lánshlutfallið úr 65% (70% fyrir fyrstu íbúð) í 90%. Þetta hefur talsvert verið auglýst af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Nú eru íbúðalánin 11,5 milljónir en verða samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar 13 milljónir. Ef menn nú leggjast í útreikning þá koma svoldið skrítnir hlutir í ljós. 11,5 milljónir eru nefnilega 65% af 17,7 milljónum. En hvað skyldi þá vera 90% af 17,7 milljónum? Okkur er jú sagt að verið sé að færa lánshlutfallið úr 65% í 90%.

90% af 17,7 milljónum eru tæpar 16 milljónir. Lánin hækka hins vegar ekki í þessa upphæð sem áður segir heldur í 13 milljónir. Sú upphæð er 90% af 14,5 milljónum. Með öðrum orðum, lánshlutfallið hækkar en af smærri íbúðum!

Þetta þykist ég vita að sé ekki stefna félagsmálaráðherra. Spurningin er þá hvort það sé stefna Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn að minnka íbúðarhúsnæði landsmanna. Eða er einfaldlega  verið að ganga erinda bankanna sem vilja Íbúðalánasjóð feigan og þess vegna þrengja alla möguleika hans til útlána?

Viðmiðunarupphæð íbúðalána þarf að sjálfsögðu að endurspegla gangverð íbúða og þyrfti því að lágmarki að vera um 18 milljónir króna – helst 20 milljónir.