Fara í efni

VILL BORGIN HÁSPENNU VIÐ LÆKJARTORG?

DV -
DV -

Birtist í DV 18.09.13.
Háspennu kallar Háskóli Íslands nýjan spilasal sinn við Lækjartorg í Reykjavík. Hugmyndin með nafngiftinni  er sú að vekja með fólki, sem haldið er spilafíkn, löngun til að koma við í þessum húsakynnum Háskóla  Íslands með opnar pyngjur sínar. Að mínu mati er þetta í hæsta máta óábyrgt og staðsetningin auk þess ósmekkleg.
Ástæða er til að inna borgaryfirvöld eftir því hvort það hafi verið á misskilningi byggt að það væri ásetningur þeirra að reyna að koma spilavítum úr miðborginni.

Borgin hefur viljað sýna ábyrgð

Varla er hægt að komast nær miðborginni en á sjálfu Lækjartorgi og leyfi ég mér að varpa þeirri spurningu til borgaryfirvalda hér á síðum DV hvort þetta samræmist stefnu borgarinnar. Á fundum sem ég, eða fulltrúar innanríkisráðuneytisins í minni tíð sem ráðherra, áttum með forsvarsmönnum Reykjavíkurborgar kom fram ríkur skilningur á mikilvægi þess að stemma stigu við spilafíkn.
Nú geri ég mér grein fyrir því að hægara er um að tala en í að komast þegar þessi mál eru annars vegar. Þannig beitti ég mér fyrir því í tíð minni sem innanríkisráðherra að ráðist var í mjög vandað vinnu- og samráðsferli  til þess að koma á skynsamlegra og réttlátara reglu- og lagaumhverfi á þessu sviði. Frumvarp var að loknu þessu ferli lagt fram þar sem gert var ráð fyrir breytingum þegar í stað, en jafnframt reynt að ná sem víðtækastri sátt um breytingar til langframa. Öll þessi undirbúningsvinna tókst að mínu mati með miklum ágætum. En síðan kom á daginn að á Alþingi reyndist vera hár þröskuldur, erfiður yfirferðar.

Allir undir sama rekstrarþak

Flestir rekstraraðilar happdrættisvéla voru tilbúnir að fallast á þær breytingar sem ráðist skyldi í þegar í stað en langtímamarkmiðin voru enn til umræðu.  Í mínum huga var - og er  - framtíðarsýnin sú að öll happdrættisfyrirtækin verði sett undir sama rekstrarhatt og þannig komið í veg fyrir samkeppni þeirra í milli en samkeppnin hefur haft það í för með sér að stöðugt er leitað ágengari aðferða til að komast yfir fé þeirra sem spila að einhverju marki. Því miður er þar um að ræða fólk sem margt hvert er ekki sjálfrátt gerða sinna frammi fyrir spilavélunum. Þessu fólki ber að hjálpa en ekki beita bellibrögðum til að komast yfir fé þess. Þessa framtíðarsýn var að finna í greinargerð með fyrrnefndu lagafrumvarpi .

Aukið aðhald og takmörkun á netspilun

Ekki var ætlunin að hrapa að breytingum í þessa veru. Þvert á móti átti að gefa rúman aðlögunartíma. Þegar í stað skyldi hins vegar komið á starfseiningu -happdrættisstofu -  sem hefði með höndum eftirlit  með þessari viðkvæmu starfsemi, sem þegar veltir hátt á annan tug milljarða. Happdrættisstofa skyldi í öðru lagi vera stjórnvöldum til ráðgjafar og í þriðja lagi ætti hún að móta farveg fyrir fjármuni sem ætlaðir  væru til forvarna og endurhæfingar.  Þá skyldu þegar í stað settar skorður við fjárhættuspili á netinu, sem áður segir,  en innlendum aðilum þó heimiluð slík starfsemi með tilheyrandi takmörkunum. Bæði hvað netspilun áhrærir og happdrættisstofuna var litið til Noregs um fyrirmyndir.

Íhaldssamt Alþingi

En því miður reyndist Alþingi íhaldsamara en ég hafði ætlað og voru það mikil vonbrigði þegar þingheimur lét nokkra þingmenn komast upp með að stöðva þetta mál. Að lokinni fyrstu umræðu um frumvarpið gekk það til nefndar eins og vera ber en sá hængur var hins vegar á að aldrei fékkst samþykki fyrir því að það kæmi til almennrar atkvæðagreiðslu í þinginu.
En vinnan að baki framvarpinu er ekki ónýt ef vilji er til að nýta hana.

Beðið viðbragða ríkis og borgar

Á komandi Alþingi verður gengið eftir því hvort núverandi  innanríkisráðherra og meirihlutinn á Alþingi ætlar að fara að hætti fyrra þings og bregða fæti fyrir raunverulegt umbótastarf á þessu sviði.
Fróðlegt verður að fá svör við því og svo frá borginni, hvað því valdi að heimilað skuli að opna spilavíti á Lækjartorgi í Reykjavík, í sjálfu hjarta borgarinnar.