VILL BJARNI NIÐUR Í HJÓLFÖRIN?
Almennt var það viðhorf ríkjandi innan stjórnarandstöðunnar á Alþingi að ríkisstjórnin ætti hvorki að standa né falla með Icesave samningnum. Almennt var það viðhorf ríkjandi að rétt væri að hefja sig upp úr flokkspólitískum hjólförum og vinna á þverpólitískum grundvelli. Þetta var gert. Með stuðningi stjórnarandstöðunnar voru smíðaðir fyrirvarar. Að þeirri vinnu kom Sjálfstæðisflokkurinn ásamt öðrum flokkum. Nú segir formaður þess flokks að ef Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við þá fyrirvara sem Alþingi, þar á meðal hann sjálfur, setti þá eigi ríkisstjórnin að segja af sér! Bjarni Benediktsson sagði í Valhöll í gær: „Verði fyrirvörunum við ríkisábyrgð á Icesave-samning ríkisstjórnarinnar hafnað, verði ekki fallist á skilaboðin frá Alþingi, er ég jafnframt þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eigi að segja af sér. Hún hefur þá endanlega sannað sig að vera óhæfa til að gæta að hagsmunum þjóðarinna."
Svona talar maður sem líkar illa við að vera kominn upp úr hjólförunum og vill niður í þau aftur. Ef Bretum og Hollendingum líkar illa við hans gjörðir eiga aðrir þá að víkja! Er ekki einhver brotalöm í þessum málflutningi?