Fara í efni

VILJUM VIÐ SAMFÉLAGSLAUN?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.01.15.
Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum væru sænskir frjálshyggjumenn allra manna fúsastir að taka á móti flóttamönnum og innflytjendum. Svíþjóð ætti að vera öllum opin. Mér þótti þetta aðdáunarverð afstaða en lagði við hlustir þegar spurt var hvað yrði um gjaldfrjálst velferðarkerfi; risi það undir hundruðum þúsunda snauðra aðkomumanna hvað sem síðar yrði þegar þeir væru komnir til starfa og orðnir bjargálna. Þá væri að sönnu enginn munur á þeim og hinum sem fyrir voru. En í millitíðinni?
„Hver segir að kerfið eigi að vera gjaldfrjálst", var þá spurt á móti. „Við markaðsvæðum kerfið og þá fá þeir þjónustu sem borga".

Markaðslögmálin áttu með örðum orðum að tryggja sjálfbærni kerfisins.

Þetta kom mér í hug við fréttir af borgaralaunum eða samfélagslaunum sem nú á að gera tilraun með í Finnlandi og nokkrum sveitarfélögum í Hollandi. Víðar hafa komið fram slíkar tillögur og tilraunir gerðar.  

Í félagsmálanefnd Evrópuráðsins þar sem ég á sæti hefur verið til umfjöllunar skýrsla um þetta efni. Áhugaverð erindi hafa verið flutt í tengslum við hana og hefur mönnum leikið sérstök forvitni á að heyra um fjármögnun kerfisins sem hljóti að verða óhemju dýrt ef tryggja á öllum lífvænleg samfélagslaun óháð atvinnutekjum en sú er hugmyndin.

Smám saman hafa menn þó verið að átta sig á samhenginu. Kerfið á nefnilega ekki að verða neitt óskaplega dýrt því samfara innleiðingu þess yrði allt millifærslukerfið afnumið!

Hvað þýðir það? Það þýðir að barnabætur, húsnæðisbætur, örorkubætur og annar samfélagslegur stuðningur yrði afnuminn. Allir yrðu hins vegar frjálsir að nota samfélagslaunin til þess sem hugurinn girnist. „Einhver kann að vilja fara til Majorka, annar í liðskiptaaðgerð", svo rifjuð séu upp ummæli íslensks ráðamanns sem á sínum tíma talaði fyrir einkavæðingu og mikilvægi kostnaðarvitundar í heilbrigðidkerfinu!

En eru menn í alvöru að meina þetta svona? Nú kann að vera blæbrigðamunur á tillögumönnum en í grunninn er hugsunin þessi: Öllum verði tryggð framfærsla, millifæslukerfið afnumið en einstaklingurinn ráði sjálfur hvernig hann ver fjármunum sínum. Engum komi við hvaða tekna hann afli sjálfur.

En hvers vegna skyldu allar þessar millifærslur vera til komnar, er það ekki í hagræðingarskyni fyrir samfélagið allt? Í stað þess að borga öllum laun þannig að viðkomandi gæti staðið í húsnæðiskaupum allt lífið, verið með börn á framfæri allt lífið, þurft að glíma við sjúkdóm einhvers í fjölskyldunni allt lífið, þá veitir samfélagið stuðning á meðan fólk er að afla húsnæðis, á meðan börn eru á framfæri, á meðan við sjúkdóma og orkutap er að stríða og svo framvegis.

Þetta er nú kallað forræðishyggja og að undan henni verði að bjarga okkur.
En viljum við það?