Fara í efni

VILJI TIL NÝSKÖPUNAR INNAN ALMANNAÞJÓNUSTUNNAR


Þessa dagana er haldin í Reykjavík ráðstefna á vegum norrænu verkalýðssamtakanna NTR (einkum bæjarstarfsmenn) en BSRB á þar aðild. Á ráðstefnunni er fjallað um nýsköpun og endurnýjun innan almannaþjónustunnar en NTR hefur beitt sér fyrir kröftugri umræðu um þetta efni. Í ávarpi Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra í Reykjavík, til ráðstefnugesta greindi hann frá könnun sem gerð hefur verið á vegum borgarinnar um viðhorf starfsmanna. Þar kom fram mjög mikill og víðtækur vilji starfsmanna að leggja sig fram um að gera vel í starfi. Á fréttavef BSRB er vitnað í ræðu borgarstjóra. Þar segir m.a.: "Starfsmenn borgarinnar eru á níunda þúsundið og tóku ríflega 70% þeirra þátt í könnuninni, þannig að úrtakið var mjög stórt. Fram kom  í könnuninni að 96% starfsmanna eru tilbúnir að leggja sig aukalega fram þegar þess er óskað. 91% segjast tilbúnir að fást við breyttar aðstæður á vinnustaðnum. 96% telja starf sitt mikilvægt. 87% eru þeirrar skoðunar að á vinnustaðnum sé lögð áhersla á gæði í starfi og þjónustu. 84% eru ánægð með samband sitt við sína yfirmenn og 83% eru almennt ánægðir með starf sitt."
Þetta var gott innlegg í umræðu um leiðir til að bæta almannaþjónustuna og ber þess vott að starfsmenn almannaþjónustunnar eru tilbúnir að laga sig að breyttum aðstæðum megi það verða til þess að bæta þjónustuna.

Sjá nánar hér