Fara í efni

VILJA VERSLA MEÐ MÁLFRELSIÐ!


Fram er komið á Alþingi frumvarp um breytingar á þingskaparlögum. Frumvarpið flytur forseti þingsins, Sturla Böðvarsson, ásamt þingflokksformönnum annarra flokka á Alþingi – að einum undanskildum. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á ekki aðild að frumvarpinu og er ég því ekki einn flutningsmanna þess sem þingflokksformaður VG.

Athygli vakti við smíði frumvarpasins hve rík áhersla var lögð á að stytta ræðutíma stjórnarandstöðunnar. Enda þótt í frumvarpinu sé að finna tillögur um að styrkja stöðu þingsins og stöðu stjórnarandstöðu á ýmsa lund vildi stjórnarmeirihlutinn aldrei ljá máls á öðru en að þetta tvennt yrði spyrt saman. Hugsunin var greinilega á þessa lund: Ef þið viljið bætta aðstöðu þá verðið þið að taka því að ræðutími ykkar verði styttur! Með öðrum orðum, kaup og sala, verslun og sviðskipti. Verslun með málfrelsið!

Eitt er að vilja breyta fyrirkomulagi á umræðum á Alþingi. Við höfum verið til viðtals um það og sett fram tillögur þar að lútandi. Hins vegar viljum ekki fyrir nokkurn mun standa þannig að málum að stjórnarandstaðan verði afvopnuð.  Út á það gengur umrætt frumvarp.

Í hvaða málum hefur mest verið talað á undangengnum árum? Aðeins í mestu hitamálunum sem brunnið hafa á þjóðinni. Dæmi: frumvörp um einkavæðingu og sölu opinberra stofnana og fyrirtækja, um einkarekinn gagnagrunn á heilbrigiðassviði, Fjölmiðlalaögin, Öryrkjamálið, Vatnalögin, Hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og að sjálfsögðu frumvörp í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Kannski gleymi ég einhverju en mergurinn málsins er sá að málin eru ekki ýkja mörg þegar litið er til undangengins áratugar. Og staðreyndin er líka sú að langfelst mál sem Alþingi fær til umfjöllunar fá tiltölulega stutta umeræðu og umfjöllun í nefndum þingsins. Oft of stutta. Þetta þarf að laga. Bæta þarf gæðin við lagsmíð á Alþingi.  Það er ekki gert með þessum tillögum um breytt þingsköp.