Fara í efni

VILJA MAKKA UM EIGIN KJÖR

DV
DV

Birtist í DV 27.08.08.
Um eftirlaunalögin svonefndu eru tvenn sjónarmið á Alþingi. Annars vegar að gera eigi einhverjar breytingar á lögunum „til að sníða af þeim verstu annmarkana" eins og þau orða það gjarnan þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins. Þegar ríkisstjórn undir þeirra forystu var mynduð urðu þau ásátt um að hreyfa eitthvað við eftirlaunalögunum og koma þannig til móts við þá miklu gagnrýni sem er í þjóðfélaginu á sérréttindin sem alþingismenn og ráðherrar hafa skapað sér og nokkrum embættismönnum. Útfærslan var hins vegar óuppgerð þeirra í millum. Og er enn.

ISG og GHH vilja ekki óbundna atkvæðagreiðslu

Hitt sjónarmiðið sem fram hefur komið á Alþingi gengur út á að afnema beri með öllu sérréttindi fyrrnefndra aðila og láta þá fara inn í Lífeyrirssjóð starfsmanna ríkisins, LSR,  og búa við sömu lífeyriskjör og starfsmenn ríkisins gera almennt. Valgerður Bjarnadóttir lagði fram frumvarp þessa efnis í vetur. Ég hef sannfæringu fyrir því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill fara þessa leið og afnema sérréttindin með öllu. Þetta held ég að þau Geir og Ingibjörg viti líka. Þess vegna koma þau í veg fyrir að þingið greiði atkvæði um frumvarp Valgerðar því vel má vera að meirihluti Alþingis vilji ekki ganga í berhögg við vilja þjóðarinnar komi til atkvæðagreiðslu á þingi um málið.
Nú eru góð ráð dýr. Frá því í vor hefur verið reynt er að draga fulltrúa allra flokka á Alþingi inn í einhvers konar samtryggingarsnakk um málið. Í Kastljósi á mánudag sagði Ingibjörg Sólrún að þau einbeittu sér nú að því að ræða málið „inni í þeim hópi sem væri með þetta." Hvaða „hópur" skyldi það vera? Jú, það munu eiga að vera formenn allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Hafa formenn stjórnarandstöðuflokkanna fallist á þessa málsmeðferð? Ekki er mér kunnugt um að svo sé. Ég heyri ekki betur en þeir andæfi því jafnan þegar málið kemur upp á þessum forsendum.

Við munum sjá þetta í nafnakalli

En hvers vegna í ósköpunum láta fjölmiðlamenn þau Geir og Ingibjörgu komast upp með þetta blekkingartal um samráð við stjórnarandstöðuna? Og varðandi aðferðafræðina spyr ég hvort fjölmiðlamönnum geti virkilega fundist eðlilegt að þingmenn og ráðherrar makki á bak við tjöldin um eigin sérréttinda-lífeyriskjör eins og formaður Samfylkingarinnar sagði Kastljósáhorfendum að unnið væri að?  Hvers vegna er ekki spurt út í þetta? Og einnig hitt, hvers vegna er komið í veg fyrir að greidd séu atkvæði um þær tvær leiðir sem deilt er um, sérréttindaleiðina fyrir þingmenn og ráðherra annars vegar og almenn kjör þeim til handa hins vegar?
Ekki svo að skilja að ekki verði séð til þess að  atkvæðagreiðsla um þessa tvo valkosti  fari fram. Það mun ég gera og krefjast nafnakalls.

Ögmundur Jónasson, alþingismaður