Fara í efni

VILBJÖRN


Þá hefur það gerst að ríkisstjórnin er komin í Ráðhús Reykjavíkur. Þangað er mættur Vilbjörn en svo hefur verið kallað þetta samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni, með þá Vilhjálm Þ. og  Björn Inga í fararbroddi. Þetta eru ill tíðindi fyrir þá sem vilja efla samfélagsþjónustu og umhverfisvernd. Fyrir áhugamenn um mislæg gatnamót, einkavæðingu, stóriðjustefnu, í stuttu máli fyrir þá sem styðja þá mengunar- og misréttisstefnu, sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa rekið í Stjórnarráðinu, er þetta hins vegar drauma stjórnarmynstrið. Og fyrir álrisana, sem þessir flokkar þjóna svo vel, er Vilbjörn himnasending.

Í fréttaviðtölum eftir að tilkynnt var um myndun meirihlutans var Vilbjörn kominn á harðahlaup í flótta frá eigin kosningaloforðum og var það ex-bé hluti Vilbjörns, sem hljóp hraðar. Vilhjálmur brosti þegar umræðunni var beint að kosningaloforðum Björns Inga. Sjálfur vona ég að flokkarnir framfylgi ekki hótunum um að selja hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Verði hins vegar sú raunin, verður fróðlegt að sjá hvort 250 þúsund krónurnar sem Björn Ingi hefur lofað að senda hverjum og einum Reykvíkingi að sölunni aflokinni, verða sendar í ávísun eða rafrænt.

Eitt er víst að Reykvíkingar munu þurfa að hugleiða það mjög alvarlega hversu eftirsóknarvert það er að hafa þessa tvo stjórnmálaflokka, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn samtímis við stjórnvölinn í Ráðhúsinu og Stjórnarráðinu. Er ekki komið nóg af því að íslensku samfélagi sé stýrt af stjórnmálaflokkum sem ganga erinda peningafólks og erlendra auðhringa?