Fara í efni

VIL VALDALAUSAN FORSETA MEÐ ÁHRIFAMÁTT

Bessastaðir 380
Bessastaðir 380

Um langt skeið réðu konungar og keisarar lögum og lofum víða um lönd - töldu sig eina réttborna til valda og væru völdin jafnvel frá guði komin. Síðan kom þingræðið til sögunnar með kjörnum löggjafarsamkundum, fyrst með takmörkuðum kosningarétti og síðan smám saman almennum.

Framan af gat konungsvaldið eða aðalsveldi hafnað ákvörðunum hinna lýðræðislega kjörnu þinga en eftir því sem tímar liðu takmarkaðist það vald og gátu konungar og eftir atvikum efri deildir skipaðar fulltrúum aðals nú aðeins frestað ákvörðunum þjóðþinganna. Neitunarvald konunga, keisara og undir það síðasta forseta, varð síðan að málskotsrétti, það er rétti til að skjóta málum til úrskurðar í lýðræðislegri kosningu. Ekki varð þessi þróun alls staðar nákvæmlega á þennan veg en hjá okkur varð hún svona.

Þá er bara eitt skref eftir til að lýðræðið verði beint og það er að þjóðin geti sjálf ákveðið hvaða mál hún vilji taka til úrskurðar í lýðræðislegri kosningu. Þar með yrði hún ekki háð málskotsréttinum heldur hvíldi rétturinn hjá henni sjálfri. Þar með væru leifar einræðistímans úr sögunni.

Þar til þessu fyrirkomulagi hefur verið komið á hér á landi er málskotsréttur forseta mjög mikilvægur. En vel að merkja forsetinn er hér aðeins milliliður. Hann tekur vissulega ákvarðanir um hvaða mál þjóðin fær til úrskurðar. Endanleg niðurstaða liggur hins vegar hjá þjóðinni sjálfri.

Forseti Íslands getur haft mikil áhrif beiti hann sér af viti og hyggindum en að mínu mati á hann að hafa mjög takmarkað vald á hendi enda kjörinn sem einstaklingur en varla á grundvelli afstöðu til þeirra pólitísku málefna sem brenna á samtímanum hverju sinni.

Þess vegna er ekki nauðsynlegt að forseti hafi meirihluta þjóðarinnar á bak við sig. Deila má um það hvort það einu sinni er æskilegt.

Forseti sem kynni að skírskota til þess að sér ætti að leyfast flest því meirihluti þjóðarinnar standi honum að baki er kominn allan hringinn og minnir á konunga fyrri tíðar sem að vísu sögðu ekki að vald sitt væri frá fólkinu komið heldur sjálfu almættinu.

Að mínu mati á ekki að styrkja og efla forsetavaldið. Við eigum hins vegar að kjósa forseta sem hefur sannað sig í heimi vísinda, lista eða á sviði mannréttinda og hefur burði til að hafa áhrif; einstakling sem býr yfir kjarki og þori til að brjóta okkur leið inn í framtíð menningar, mannréttinda og náttúruverndar.