Fara í efni

VIÐSKIPTABLAÐIÐ MEÐ VATN Í MUNNI


Á Viðskiptablaðinu er mönnum mjög niðri fyrir. Þar á bæ vilja menn einkavæða flugvelli landsins. Þetta hafi verið gert í Ungverjalandi, Indlandi, Hong Kong og Mexíkó. Er ekki komið að Reykjavíkurflugvelli, spyr Viðskiptablaðið með vatnið í munninum fyrir hönd væntanlegra fjárfesta. Nei, segir Sturla samgönguráðherra, engin áform séu um einkavæðingu flugvalla, “það hefur ekki verið neitt uppi á teningnum.”. En hvað skyldi Framsókn segja? Það stendur ekki á svari hjá þingflokksformanninum Hjálmari Árnasyni, hann telur vel koma til álita að fela einkaaðilum reksturinn á Reykjavíkurflugvelli: “Það er náttúrlega tækifæri sem væri sjálfsagt og eðlilegt að skoða. Varðandi aðra flugvelli hér innanalands hef ég grun um að það þyki ekki fýsilegur fjárfestingarkostur. Einfaldlega vegna þess að markaðurinn er svo lítill og engir munu geta hagnast á því.”

Það er sem sagt sjálfsagt að nýta tækifærið og einkavæða þann flugvöll sem hægt er að græða á að mati Framsóknar, en láta skattborgarann um hitt! Þarf að segja mikið meira?

Viðskiptablaðið stendur sig vel í því að hreyfa umræðu um brennandi þjóðmál og sérstakar þakkir kann ég blaðinu að draga fram í dagsljósið viðhorf Framsóknar í þessu máli sem öðrum.