Fara í efni

VIÐKVÆMIR VERKALÝÐSFORINGJAR EÐA RANGTÚLKANIR MORGUNBLAÐSINS?

              
Nokkur umræða hefur orðið um þátttöku í hátíðahöldum og baráttufundum 1. maí sl. og í framhaldinu um hlutverk verkalýðshreyfingarinnar. Staksteinar Morgunblaðsins sl. laugardag sögðu verkalýðsforingja viðkvæma fyrir þessari umræðu. Vitnað var í skrif formanns Rafiðnaðarsambandsins, sem gagnrýndi blaðið. Og Staksteinar nefndu fleiri til sögunnar: „Í gær birtist hér í blaðinu grein eftir Sigurð Á. Friðþjófsson, upplýsinga- og fræðslufulltrúa BSRB, af sama tilefni, þar sem höfundur segir að Morgunblaðið hafi notað tækifærið til að benda á tilvistarkreppu verkalýðshreyfingarinnar. Af hverju þessi viðkvæmni? Í forystugrein Morgunblaðsins hinn 2. maí sl. var vikið að þeim augljósa vanda, sem verkalýðsfélögin standa frammi fyrir vegna 1. maí. Þátttaka í kröfugöngu og útifundi 1. maí í Reykjavík var ótrúlega lítil og engin kröfuganga var gengin á Akureyri. Af hverju má ekki ræða þetta mál? Af hverju má ekki vekja athygli á því, að ástæðan sé kannski sú, að verkalýðshreyfingin og forystusveit hennar hafi ekkert að segja lengur?“

Rangfærslur leiðréttar

Þarna eru Staksteinar komnir fram úr sjálfum sér. Sigurður Á. Friðþjófsson var fyrst og fremst að leiðrétta rangar staðhæfingar fjölmiðla um þátttöku í fundahöldum og hátíðasamkomum á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Sumir fjölmiðlar (fréttastofa RÚV og Blaðsins)  gengu svo langt að fullyrða að aðeins 400 manns hefðu tekið þátt í göngunni og fjögur hundruð til viðbótar í útifundinum á Ingólfstorgi!
Óvilhöllu fólki sem var til staðar ber saman um að þetta sé fullkomin fjarstæða og hafi þúsundir manna tekið þátt. Sigurður Á. Friðþjófsson bendir enda á að í 1. maí kaffi BSRB hafi komið 700 manns og um 900 hafi mætt hjá Eflingu. Síðan eru öll hin félögin...Ég spyr sjálfan mig hvað vaki fyrir fjölmiðlum sem virðast nú leggja upp úr því að grafa undan baráttudeginum 1. maí.

Vinsemd Morgunblaðsins?

Staksteinar fullyrða að ekkert nema gott vaki fyrir Morgunblaðinu að vilja ræða „vanda“ verkalýðshreyfingarinnar. Ekki verður sagt að tónninn í leiðara Morgunblaðsins 3. maí hafi verið sérstaklega vinsamlegur: „Verkalýðshreyfingin er augljóslega komin í öngstræti með hátíðahöldin 1. maí. Þátttaka í kröfugöngunni í Reykjavík var ótrúlega lítil. Aðsókn að útifundinum á Ingólfstorgi sömuleiðis. Engin kröfuganga var á Akureyri þennan sögulega dag og hátíðahöldin með misjöfnum hætti í kaupstöðum. Ræður verkalýðsforingja á 1. maí vöktu litla athygli. Þeir höfðu lítið fram að færa. Boðskap þeirra fylgdi enginn sannfæringarkraftur. Þegar saman fara áhugaleysi félagsmanna og veik forysta er ekki við góðu að búast. Kannski má segja, að hátíðahöldin 1. maí að þessu sinni endurspegli með skýrum hætti þá tilvistarkreppu, sem verkalýðshreyfingin augljóslega er í. Ef verkalýðsfélögin hafa ekki lengur fyrir neinu að berjast er bezt að horfast í augu við það. Það er enginn tilgangur í því að safna upp sjóðum með félagsgjöldum og öðrum gjöldum ef þessir peningar ganga ekki til annars en að halda uppi skrifstofubákni félaganna. Til hvers að halda því uppi ef baráttumálin eru engin og sannfæringarkrafturinn er horfinn?“
Og í fyrrnefndum Staksteinaskrifum eru þessu „vinsamlegu“ skrif botnuð: „Af hverju má ekki benda á, að félagsmenn verkalýðsfélaganna greiða mánaðarlega gjöld í sjóði félaganna og halda þar með uppi skrifstofuveldi þeirra? Hvers vegna má ekki tala um þennan vanda verkalýðshreyfingarinnar? Morgunblaðið hefur fjallað um þennan vanda verkalýðsfélaganna af yfirvegun og án alls fjandskapar en viðbrögð verkalýðsforystunnar eru merkileg. Eru þetta ekki félagasamtök, þar sem félagarnir ráða? Ríkir ekki lýðræði í þessum félögum? Er ekki sjálfsagt að ræða um það í hverju vandi þeirra er fólginn?“

Á umræða um vaxtabætur og einkavæðingartal forsætisráðherra ekki erindi?


Þau voru á meðal ræðumanna BSRB 1. maí sl.

Að sjálfsögðu á að ræða þessi mál. Og það á að sjálfsögðu að gera  „af yfirvegun“ og helst „án alls fjandskapar“. Hvorugt gerir Morgunblaðið í þessum ívitnuðu skrifum. Í fyrsta lagi er á það að líta að ræður sem fluttar voru 1. maí að þessu sinni voru, eftir því sem ég hef heyrt og lesið, almennt alvöruþrungnar og innihaldsríkar og fráleitt allt tal um að þær hafi ekki átt erindi til samtímans. Eða var tal formanns Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, ræðumanns BSRB á Ingólfstorgi, um vaxtabætur og kjör fólks sem er að koma yfir sig húsnæði innihaldslaust píp, eða skyldi þar ekki fara maður sem talar máli þúsunda launamanna? Ég tel svo hafa verið. Var óviðurkvæmilegt af hans hálfu að minnast á einkavæðingarfárið og nefna sérstaklega – ýmsa grunnþætti samfélagsins, vatnið, rafmagnið, velferðarþjónustuna og  hugmyndir forsætisráðherrans um að einkavæða eldvarnir á alþjóðaflugvellinum í Keflavík? Átti hann að einskorða sig við mál sem Morgunblaðinu eru þóknanleg en sleppa hitamálum sem nú er tekist á um. Það var heldur ekki svo að Vernharð Guðnason beindi ekki gagnrýnum augum inn á við, nokkuð sem Morgunblaðið segir verkalýðsforingja vera viðkvæma fyrir og ekki vilja ræða. Á Ingólfstorgi sagði hann m.a.: „Við skulum ekki leggjast í þann ósið að gagnrýna bara aðra, heldur skulum við einnig gerast gagnrýnin á eigin gjörðir og spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að við tökum af og til í hnakkadrambið á okkur sjálfum, og hvort til þess kunni að vera tilefni að við hysjum upp um okkur brækurnar. Þannig eigum við ekki að láta það gerast að stéttarfélögin breytist í stofnanarisa sem óljóst er hver stjórni; stofananarisa sem gerast sjálfhverfir, öðlast eigið líf á eigin forsendum – risa sem fjarlægjast uppruna sinn – fólkið í verkalýðshreyfingunni“. ...

Morgunblaðið horfi í eigin barm

Ég leyfi mér að beina því til Morgunblaðsins að það taki í hnakkadrambið á sjálfu sér, svo vitnað sé í orðfæri Vernharðs Guðnasonar, og endurmeti vinnubrögð sín. Eða hvers vegna eiga menn að þurfa að sitja undir því að Morgunblaðið geri mönnum upp skoðanir og afbaki í frásögnum staðreyndir um þátttöku á fundum og það sem þar er sagt?
Var Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, svo áfram sé haldið, ef til vill ekki að fjalla um brennandi mál þegar hún beindi sjónum að erlendu vinnuafli og hvernig íslenskum stjórnvöldum og vinnumarkaði bæri að bregðast við? Telur Morgunblaðið að engin sannfæring hafi búið að baki orðum varaforseta ASÍ? Morgunblaðið sýndi mér og Kristjáni Gunnarssyni, formanni Starfsgreinasambandsins, þann sóma að skýra ágætlega frá efnisatriðum í ræðum okkar, annars vegar í Reykjanesbæ og hins vegar á Ísafirði. Ég fjallaði um kjaraskiptinguna og Kristján um verðtryggingu í samhengi við hagsmuni launafólks og lífeyrissjóða. Var þetta innihaldslaust tal? Ég gæti nefnt margar áhugaverðar ræður sem fluttar voru þennan 1. maí, ræður sem í senn voru kraftmiklar og innihaldsríkar. Ég nefni ræðu Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR í Hafnarfirði, sem fjallaði um þjóðfélagsþróunina og hvernig verkalýðshreyfingunni bæri að hafa áhrif á hana. Ég nefni einnig ræðu Helgu Hafsteinsdóttur, formanns Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu sem hún flutti í Stykkishólmi og Snæfellsbæ á 1. maí. Þar var áherslan á innflæði erlends vinnuafls og hvernig bæri að bregðast við.

Morgunblaðið fari rétt með

Í helgarblaði Morgunblaðsins í aðdraganda 1. maí var ágætlega fjallað um verkalýðsmál – yfirlýsing fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík birt í heild sinni og Reykjavíkurbréfið helgað hreyfingunni. Þar var margt ágætt sagt. Síðan skipast veður í lofti og hafa menn gerst geðstirðari á ritsjórnarskrifstofum Morgunblaðsins eftir að hátíðahöldin eru afstaðin.
Morgunblaðsmenn hafa rétt til þess að verða úfnir til sálarinnar eins og aðrir. Þeir sem stýra einum öflugasta fjölmiðli landsins þurfa hins vegar að fara rétt með. Það hefur Morgunblaðið ekki gert í þessu efni.