Fara í efni

VIÐ ÞESSU EIGUM VIÐ SVAR

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins 1. júní segir m.a. :
“EFTA-dóm­stóll­inn hef­ur ógilt úr­sk­urð eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA) um að rík­isaðstoð Íslands til Farice ehf. vegna sæ­strengs hafi verið í sam­ræmi við evr­ópska efna­hags­samn­inginn. Í dómi dóm­stóls­ins sem kveðinn var upp í dag kem­ur fram að ESA hafi í úr­sk­urði sín­um ekki gengið úr skugga um lög­mæti um­ræddr­ar rík­isaðstoðar. Farice, sem er fé­lag í fullri eigu rík­is­ins, hafði fengið rík­isaðstoð vegna lagn­ingar nýs fjar­skiptasæ­strengs frá Hafn­ar­vík í Þor­láks­höfn til Calway á Írlandi.
Upp­haf máls­ins má rekja til þess að fjar­skipta- og fjöl­miðlafyr­ir­tækið Sýn hf. hafði leitað til ESA til að fá ákvörðun um rík­isaðstoð til Farice vegna fyr­ir­hugaðra fjár­fest­inga í sæ­streng ógilta, en árið 2019 skrifaði Sýn og Norda­vid und­ir sam­starfs­samn­ing um að skoða sam­legð með lagn­ingu á nýj­um ljós­leiðarasæ­streng milli Íslands og Írlands.” (Leturbreyting er mín.)
Nánar: https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2022/06/01/efta_ogildir_akvordun_esa_i_mali_synar/
Með öðrum orðum, sæstrengur (sem hlýtur að teljast til grunninnviða) að fullu í samfélagslegri eign má ekki fá stuðning frá eigendum sínum, íslensku samfélagi vegna þess að einkafyrirtæki sér hugsanlega hagnaðarmöguleika í því að ná eignarhaldinu í sínar hendur.

Í mínum huga er svar samfélagsins löngu orðið tímabært: Ísland segi sig frá EES samningnum sem þegar allt kemur til alls er enginn samningur heldur einhliða ákvörðunarvald í Brussel. Og það sem meira er, þetta ákvörðunarvald er fullkomlega á forsendum einkafjármagnsins, tæki til að hafa af samfélaginu allar eignir sem gætu gefið eitthvað af sér og koma þeim í hendur fjárfestingabraskara.

EES samningurinn er orðinn að einhverju allt öðru en margir ætluðu í upphafi. Í samræmi við það þarf að bregðast við. Vald yfir grunnstoðum samfélags er lýðræðislegt vald. Þegar eignarhald yfir grunnstoðunum er tekið frá samfélaginu þá er lýðræðið einnig frá því tekið.

Ætlum við að taka þessu eins og sauðir? Að sjálfsögðu ekki.