Fara í efni

VIÐ SEGJUM:


Ég fagna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.  Hún er tækifæri til að segja yfirgangs- og fjármagnsöflum að þegar hagsmunir fólks og fjármagns takast á, þá á fólkið að láta til sín taka. Á Íslandi býðst okkur farvegur lýðræðisins til að láta rödd okkar heyrast. Þennan farveg eigum við að breikka og dýpka. Sú viðleitni er hafin.

Við erum að hefja vegferð inn í nýja tíma. Inn í opnara samfélag þar sem forræðishyggja víkur fyrir virkara lýðræði. Þetta grætur forræðishyggjan. Hún vill að lýðræðið taki bara til hundahalds og tímastillingu á klukkunni. Fram hefur komið að fjármálaheiminum er líka meinilla við íslensku þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hún ógnar veldi peningahyggjunnar. Hún sé fordæmi sem helst megi ekki verða að veruleika.

Þjóðaratkvæðagreiðslan er einfalt mál. Hún er eins og atkvæðagreiðsla um kjarasamning. Ef þú telur að hægt sé að ná betri niðurstöðu en fyrir liggur, þá fellir þú samninginn, segir NEI, að öðrum kosti samþykkir þú.

Atkvæðagreiðslan fjallar um samningsstöðuna, ekki um nein smáatriði. Sáraeinfalt þótt margir reyni að þvæla málið og gera það flókið.

Það er ekkert flókið við það að segja stjórnvöldum í Bretlandi og Hollandi að við viljum  láta koma fram við okkur sanngirni; að við segjum NEI við yfirgangi og ósanngirni.