Fara í efni

Við mótmælum öll

George Bush Bandaríkjaforseti flutti síðastliðna nótt ávarp sem var útvarpað og sjónvarpað um allan heim. Hann sagði Sameinuðu þjóðirnar hafa brugðist. Bandaríkjamenn væru friðsöm þjóð en þeir ættu í höggi við skúrka sem réðu yfir gereyðingarvopnum, efnavopnum og einhvern tíma kjarnorkuvopnum (one day nuclear weapons). Við höfum gert allt sem í okkar valdi hefur staðið til að forðast stríð en við munum aldrei láta glæpamenn beita okkur þvingunum og kúgunum. Þetta sagði Bush í þann mund sem hann skýrði Saddam Hussein frá því hverjir skilmálarnir væru. Hann skyldi hafa sig á brott frá Írak innan fjörutíu og átta stunda!! Íraska hernum ráðlagði hann að leggja niður vopn "með sæmd" ( with honour). Svona talar æðsti valdamaður ríkis sem staðið hefur fyrir viðskiptaþvingunum gegn Írak í tólf ár; þvingunum sem sannanlega hafa dregið mörg hundruð þúsund börn í landinu til dauða. Svona talar maður sem staðið hefur fyrir loftárásum á Írak í hverri einustu viku frá lokum Persaflóastríðsins 1991!! Svona talar maður sem er beintengdur bandarískum olíuhagsmunum; auðhringum sem ásælast olíuauðlindir Íraks. Svona talar maður sem er forseti þess ríkis sem sá Írökum fyrir efnavopnum sem nú þykir glæpsamlegt að þeir hafi á hendi!!! Svona talar maður sem studdi Íraka með ráðum og dáð í átta ára stríði þeirra gegn Íran!! Svona talar maður sem nýbúinn er að sjá kjarnorkuveldinu Pakistan fyrir hergögnum fyrir 1,2 milljarða Bandaríkjadollara og kjarnorkuveldinu Indlandi fyrir áttatíu milljón dollara hergagnasendingu. Eru engin takmörk fyrir hræsninni? Athyglisvert er að Bush sló varnaglana tvo gegn gagnrýni sem einkum hafa verið notaðir að undanförnu í Washington. Annar varnaglinn hefur sín áhrif í Bandaríkjunum þar sem gyðingar eru fjölmennir. Hann gengur út á þetta: "Ef þið eruð á móti aðgerðum gegn Saddam Hussein þá eruð þið á móti Ísrael". Hinn virkar vel á alla heimsbyggðina, sérstaklega eldri kynslóðmia í Evrópu. "Ætlið þið að fara að dæmi Chamberlains og halda hlífisskildi yfir einræðisherrunum eins og Chamberlaim gerði gagnvart Hitler 1938 þegar Tékkum var fórnað?"  Það er athyglisvert að andstaðan gegn þessum áróðri kemur nú ekki síst frá bandarískum hægri mönnum. Patrick Buchanan, þekktur úr þeim röðum allar götur frá Nixon tímanum ræðst af mikilli hörku gegn þessum röksemdum í tímaritinu The Conservative sem nýkomið er út. Það væri skemmtileg tilbreyting ef íslenskir hægri menn frá Davíð Oddssyni til Halldórs Ásgrímssonar áttuðu sig á að til eru önnur tilbrigði á hægri væng stjórnmálanna þar sem þeir hafa kosið að halda sig en að segja bara já og amen við öllu sem frá George Bush kemur. Eitt er víst, að allt friðelskandi fólk og allir þeir sem berjast gegn hræsni og ofbeldi þurfa að segja einum rómi: Við mótmælum öll. Daginn sem Bandaríkjamenn og bresku fylgifiskarnir gera alvöru úr hótunum sínum og ráðast á Írak skulum við öll mæta í miðborg Reykjavíkur til að sýna andúð okkar á ofbeldisöflunum í Washington og mótmæla undirlægjuhætti íslensku ríkisstjórnarinnar.