Fara í efni

Við erum boðberar mikillar framfarasóknar

Viðtal  í Fréttablaðinu 12.apríl
Ögmundur Jónasson þinflokksformaður Vinstri grænna, formaður BSRB og fyrrverandi fréttamaður í viðtali um stjórnmál, stríð og mögulegt ríkisstjórnarsamstarf að loknum kosningum.

"Innra með mér hefur alltaf logað pólitískur eldur. Ég reyni að fylgjast vel með því sem er að gerast í samfélaginu og í heiminum öllum. Ég á í stöðugu samtali við umhverfið og Við umheiminn og það býr til atburðarás innra með mér, sem knýr mig áfram í stjórnmálum," segir Ögmundur Jónasson alþingismaður Vinstri-Grænna og formaður BSRB, aðspurður um það hvernig hann myndi lýsa sjálfum sér sem stjórnmálamanni. Ögmundur lærði sagnfræði í Bretlandi og snerist til vinstri hugmynda á námsárunum. Svo kom hann heim og gerðist fréttamaður um tíu ára skeið á Ríkissjónvarpinu, áður en hann varð formaður BSRB árið 1988 og fór síðan á þing, fyrst fyrir Alþýðubandalagið og óháða, og síðan fyrir Vinstri græna. Hann segist lengi hafa verið pólitískt þenkjandi, líka þegar hann var fréttamaður.

"Ég hef alltaf verið mjög pólitískur, en ég var aldrei mjög flokkspólitískur. Pólitíkin þvældist aldrei fyrir mér í fréttamennskunni. Það á við um fréttamenn, nokkuð marga, líka þá sem eru pólitískir, að þeir vilja að blaðagreinin eða sjónvarpsþáttturinn sé góður, viðfangsefnið fái heiðarlega umfjöllun og að öllum viðmælendum gangi vel, burtséð frá skoðunum. Þannig hugsa góðir fréttamenn. Ég held reyndar að við þurfum að efla fjölmiðlana hér á landi. Það þarf að gera fréttamönnum kleift að fara á vettvang atburða, gera þeim kleift að sinna málum almennilega og sérhæfa sig. Ég held að það yrði þjóðfélaginu mjög til góðs og myndi efla lýðræðið."

 

Gylliboð í skattaumræðu

Ögmundi finnst umræðan í upphafi kosningabaráttunnar einkennast af nokkurri taugaveiklun. "Skattaumræðan snýst óvenjumikið um gylliboð til kjósenda," segir Ögmundur. "Framsóknarflokkurinn reið á vaðið, skelfingu lostinn yfir útkomu sinni í skoðanakönnunum og bauð í upphafi 15 milljarða í skattalækkanir og útgjöld. Íhaldið kom á eftir og vildi ekki vera minna. Það færði loforðapakkann upp undir 30 milljarða. Ég sé ekki betur en Samfylkingin sé líka farin að daðra við svona gylliboð. Menn hafa hins vegar ekki svarað þeim spurningum sem vakna með þessu. Ef menn ætla að draga úr tekjum ríkissjóðs sem þessu nemur verða menn að svara því hvar þeir ætla að skera niður eða hvort þeir ætla að innheimta tekjurnar með öðrum hætti, þá væntanlega í skólagjöldum, auknum álögum á sjúklinga, hærri lyfjagjöldum og svo framvegis. Loforð stjórnarflokkanna virka því sem hótanir á þá sem hafa þurft að bera auknar byrðar undanfarið í gegnum slík gjöld."

- En hafið þið ekki boðað skattalækkanir líka?

"Nei, við höfum fyrst og fremst talað um millifærslur í skattkerfinu. Við viljum auka ráðstöfunartekjur láglauna og millitekjufólks, en finnst ekkert athugavert við það að þeir borgi skatta sem hafa úr miklu að moða.  Við ætlum að bæta stöðu húsnæðiskaupenda og leigjenda, við ætlum að stórbæta stöðu barnafólks. Velferðarkerfið í heild sinni ætlum við að bæta. Ef menn ætla að gera það, þá lofa menn náttúrulega ekki um leið að draga úr tekjum ríkissjóðs."

Hreint ekkert afturhald

- Nú virðast Vinstri grænir oft vera á móti hlutum, á móti einkavæðingu og á móti stóriðjuuppbyggingu. Eruð þið ekki tómt afturhald?

"Þvert á móti. Við erum boðberar mikillar framfarasóknar, ekki bara í félagslegu tilliti heldur líka efnahagslegu. Við höfum verið mjög með hugann við það hvernig hægt er að búa atvinnurekstrinum eins góð skilyrði og unnt er. Við höfum til dæmis lagt fram tillögur um sérstakar skattaívilnanir fyrir ný fyrirtæki. Vextirnir skipta líka sköpum. Við verðum að halda þeim eins lágum og mögulegt er. En hverjir eru það sem eru að væna okkur um afturhald? Skyldu það vera talsmenn þungaiðnaðar, sem eru ábyrgir fyrir mestu ríkisafskiptum síðan á tímum Stalíns?  Veltum því nú fyrir okkur ef við hefðum fengið flokk fyrir nokkrum árum sem hefði sagt að hann ætlaði að innleiða þungaiðnað sem þriðjung af íslenskri atvinnustarfsemi og að hann vildi að ríkið hefði þar afgerandi áhrif. Hvernig hefðum við skilgreint þannig flokk? Verður maður ekki að fara vel aftur fyrir miðja síðustu öld og helst eitthvert austur yfir til þess að finna fyrirmyndir að svo ofsafengnum ríkisafskiptum. Það skyldi þó aldrei vera að við séum talsmenn hinnar fjölbreyttu flóru í atvinnulífinu og samkeppni þar sem að hún á við?

- Þið hafið fremur lagst gegn einkavæðingu. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur heilbrigt og nútímalegt samkeppnisumhverfi hér á landi?

"Við höfum verið talsmenn þess að það sé hlutverk ríkis og sveitarfélaga að sjá um grunnþjónustuna í samfélaginu og að hún verði sem best. Við viljum hafa hana vel rekna og gæta hagræðingar í öllu tilliti. Það þjónar ekki bara heimilunum í landinu heldur líka fyrirtækjunum. Ef við lítum á þau fyrirtæki sem hafa verið í samfélagslegum rekstri, eins og útgerðirnar áður fyrr, þá var þeim komið á fót með félagslegu átaki vegna þess að einstaklingarnir höfðu ekki burði til þess. Sum af þessum fyrirtækjum eiga vissulega heima á markaði. Við vorum ekki andvíg því að Áburðarverksmiðjan yrði markaðsvædd, Gutenberg eða Síldarverksmiðjur ríkisins, svo dæmi séu tekin. Við höfum hins vegar gagnrýnt hvernig staðið hefur verið að sölunni, sem er annar handleggur. Mörg þessara fyrirtækja hafa nánast verið gefin. Mér finnst lykilatriði að við séum ekki of þröngsýn í þessu málum og gætum þess alltaf að spyrja hvort markaðsvæðing, eins og til dæmis bankanna, borgi sig fyrir neytendur og þjóðina og leiði ekki á endanum til fákeppni. Það getur verið að góð kjölfesta á vegum ríkisins sé í raun heppilegri grundvöllur fyrir samkeppnisþjóðfélag. Grundvallaratriðið er það að við viljum hafa góða og hentuga blöndu af velferðarþjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga og blómstrandi atvinnulífi. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar búnir að snúa þessu öllu á haus. Þeir brjóta niður grunnþjónustuna með markaðsvæðingu og innleiða síðan ríkisafskipti í atvinnurekstri." 

Stríðið í Írak 

-  Er ekki ríkisstjórnin með pálmann í höndunum varðandi stríðið í Írak, nú

þegar Saddam Hussein er fallinn?

"Nei, því fer víðs fjarri. Sannast sagna finnst mér dapurlegt hvernig Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hafa haldið á því máli. Við lútum þarna algerlega vilja Bandaríkjastjórnar og bresku ríkisstjórnarinnar, sem gengu gegn vilja Sameinuðu þjóðanna. Við skulum gá að því að þetta er ekki bara einhver Bandaríkjastjórn. Að mínum dómi eru komnir til valda í Bandaríkjunum menn sem eru mjög vafasamir og boða grímulausa og ofstækisfulla heimsvaldastefnu. Mannréttindasamtök hafa varað við þessum aðilum. Þeim gerist ríkisstjórn Íslands hins vegar handgengin, en lætur sem hún sé að gæta íslenskra hagsmuna. Þá spyr ég: Halda menn að aðgerðir ríkisstjórnarinnar og fylgispekt hennar við þessa hauka í Washington sé til þess fallin að auka öryggi okkar sem borgara í heiminum?  Ég held þvert á móti að það hafi dregið úr því.

Þegar ríkisstjórnin kemur núna fram og talar af mærð um nauðsyn þess að styðja alþýðu Íraks, held ég að mörgum verði hálf ómótt. Í 13 ár hafa íslensk stjórnvöld stutt viðskiptabann á Íraka sem hefur haldið þessari þjóð í gríðarlegum hremmingum. Menn hafa talað um að á milli 500 þúsund til ein milljón barna hafi látið lífið."

- Hvernig túlkar þú þá fögnuð írasks almennings í Baghdad í vikunni?

" Fólk fagnar því auðvitað að fá mat og vatn. Ég hefði fremur kosið að hjálparstofnanir hefði komið færandi hendi. Þarna er það sigurvegarinn, sem er búinn að fara myrðandi yfir landið og búinn að valda spjöllum sem enn eiga eftir að koma í ljós, sem kemur með vatnið. Annars er það svo að ég trúi nánast engum fréttum sem koma þarna út, og nánast engum fréttum sem koma frá sigurvegurunum. Í sögu sigurvegaranna eru engir stríðsglæpir framdir og þar eru engir óbreyttir borgarar drepnir. Þar er heldur ekki ráðist á menningarminjar, sjúkrahús og sjónvarpsstöðvar, eins og gert hefur verið. Sem betur fer eru ýmiss mannréttindasamtök að reyna að hafa áhrif á þessa mynd."

Hefði ekki leyft afnot af Keflavíkurflugvelli 

- Hvernig vilt þú þá taka á einræðisherrum?

"Ég held að með mjög staðfastri baráttu sem byggir á lýðræðislegum vinnubrögðum geti alþjóðasamfélagið í sameiningu upprætt einræðisherra. Horfum til Suður-Afríku. Heimurinn svældi kynþáttastjórnina út með viðskiptabanni sem stjórnarandstaðan í Suður-Afríku bað um. Það var ekki tilfellið í Írak. Engin andstaða þar bað um viðskiptabann sem drap börn í landinu. Mér finnst jafnframt að það þurfi að gerbreyta Sameinuðu þjóðunum og öllu vinnulagi þar. Þjóðirnar eiga að fara að tala saman á öðrum nótum og lúta eigin sannfæringu í stað þess að lúta vilja hinna ríkari þjóða."

- Ef að þú værir utanríkisráðherra, hvað myndir þú gera varðandi stríðið?

"Þá hefðum við lagst gegn árásunum og ekki heimilað afnot af Keflavíkurflugvelli eða umferð um lofthelgina til þessara árása."

-Myndu samskipti Íslands við Bandaríkin þá ekki versna til muna ef þið færuð með utanríkismál?

"Það færi eftir því hverjir stjórnuðu í Bandaríkjunum, en tvímælalaust við þá stjórn sem nú er þar við völd. Við myndum andæfa stefnu hennar af krafti, ef við sætum við stjórnvölinn."

Vill ríkisstjórn með Samfylkingu og Frjálslyndum

- Yfir í pólitíska landslagið hér á landi. Hvernig ríkistjórn viljið þið?

"Við lítum á það sem forgangsverkefni að gerbreyta um stjórnarstefnu í öllum grundvallaratriðum. Við viljum að þessi ríkisstjórn sem hér hefur setið verði einfaldlega látin víkja. Þá er eðlilegast að horfa til stjórnarandstöðunnar, Samfylkingar og Frjálslynda flokksins, um stjórnarmyndun. Ég held að það séu allar líkur á því að við getum myndað meirihlutastjórn með þessum flokkum og ég held að það yrði ágæt stjórn. Þetta eru hins vegar talsvert ólíkir flokkar þegar kemur að umhverfismálum, einkavæðingu og utanríkismálum en ef við fengjum góða kosningu þá mætti toga þessa flokka yfir á visnstri kantinn. Þar eru margir stuðningsmenn þeirra þótt almennt sé forystan ansi hægri sækin. Stundum finnst mér margir stuðningsmenn Samfylkingarinnar ekki átta sig á hvað flokkurinn fylgir oft hægri sinnarðri stefnu á þingi."

- Gætuð þið hugsað ykkur samstarf með Sjálfstæðisflokknum?

"Mér finnst það vera eins fjarlægur kostur og hugsast getur einfaldlega vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fylgir gerólíkri stefnu en okkar. Við erum pólarnir í íslenskri pólitík. Það þyrfti eitthvað stórkostlegt að gerast til þess að þessir pólar næðu saman, kanski einhvers konar Móðuharðindi. Þá næðu allir saman."

 - En hvað um Framsóknarflokkinn?

"Framsókn er í rauninni margir flokkar og hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum. Hér var ágæt vinstri stjórn á árunum 1988-1991 sem lagði grunninn að jafnvægi í efnahagsmálum. Sá Framsóknarflokkur sem þá var fannst mér ágætur. Sá Framsóknarflokkur sem við höfum kynnst frá 1995 finnst mér afleitur. Ég myndi aldrei vilja fara í stjórn með flokki sem fylgir þeirri stefnu sem hann hefur fylgt í umhverfismálum, atvinnumálum og velferðarmálum. En auðvitað veit ég að innan þess flokks eru margir ágætir einstaklingar. Ég veit að margir sem hafa stutt flokkinn eru félagslega þenkjandi. Það má því vel vera að það megi setja Framsóknarflokkinn í endurhæfingu og reyna að koma honum aftur í samband við sínar rætur, en það yrði erfitt."

Vísar persónupólitík á bug

 

- Er ekki augljóst að Ingibjörg Sólrún yrði forsætisráðherra í ríkisstjórn ykkar, Frjálslyndra og Samfylkingar?

"Ég held að enginn einn geti slegið eign sinni á einhver embætti. Mér finnst heldur ekki hollt að nálgast þetta þannig. Mér finnst þetta ekki góð þróun, að við séum að færa okkur yfir í svona amerískan stíl með glamri í kringum einstaklinga sem standa í fararbroddi og allt á að standa og falla með. Þá gerum við lítið úr þeim sem fylla raðirnar, flokksmönnum og kjósendum, sem eru þrátt fyrir allt að kjósa um áherslur í stjórnmálum. Fólk er að kjósa um það hvernig við viljum hafa sjúkrahúsin og skólana og hvaða áherslur við viljum hafa í atvinnulífinu. Það er það sem við eigum að horfa á, en ekki á það hvaða manneskja kemur til með að tróna yfir okkur í framtíðinni. Ég hafna þessari valdadýrkun og vísa þannig hugsun algerlega á bug."

- En hvaða ráðherra myndir þú helst vilja vera ef þú tækir sæti í ríkisstjórn?

"Ég hef ekki einu sinni hugleitt það."

gs@frettabladid.is