Fara í efni

VG Í SÓKN – KOM FRAM HJÁ RÚV ÞEGAR GRANNT VAR HLUSTAÐ

Gleðileg tíðindi fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð voru kynnt í fjölmiðlum í dag því fram kom í könnun sem Fréttablaðið birti í dag að VG er í stórsókn. Nokkuð djúpt var á þessum fréttum í frásögnum Ríkisútvarpsins í dag. RÚV sló því upp að Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi en Samfylkingin tapaði fylgi samkvæmt umræddri könnun. Kallaður var til stjórnmálafræðingur frá háskólanum á Akureyri, Birgir Guðmundsson, til að útskýra það fyrir hlustendum Ríkisútvarpsins hvort þetta væri vegna formannaskipta í viðkomandi flokkum eða kannski alls ekki vegna formannaskipta, sem Birgir hallaðist nú heldur að. Og fréttastofan tók síðan kjarnan úr fréttinni saman og staðhæfði eftir stjórnmálafræðingnum: "Sjálfstæðisflokkurinn er á góðri siglingu, Framsókn þarf startkapla til að ná sér upp úr lægð og Samfylkingin virðist á niðurleið."

En síðan segir á fréttavef RÚV þegar neðar dregur í fréttinni: "Sjálfstæðisflokkurinn er með tæplega 39% fylgi og bætir við sig 2,5 prósentustigi frá því í sams konar könnun í maí. Samfylkingin mælist með rúm 29% sem er tæplega 5 prósentustigum minna en í maí. Vinstri grænir eru með rúm 18% og hafa bætt við sig næstum jafn miklu fylgi og Samfylkingin tapar. Framsóknarflokkurinn er með tæp 10% sem er sama fylgi og í maí. Rúm 3% sögðust ætla að kjósa Frjálslynda."

Einhverjum kynni að hafa þótt það fréttnæmara en svo að að þess væri getið í framhjáhlaupi, að hlutfallslega væri VG, samkvæmt þessari könnun að bæta við sig helmingi meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur og að kannski hefði það verið þess virði að spyrja stjórnmálafræðinginn hvaða skýringu hann kynni á uppgangi VG, fyrst á annað borð var farið að rýna í þessar niðurstöður, sem er alls ekkert verri skemmtan en hver önnur dægradvöl.