Fara í efni

VG Í HAFNARFIRÐI: UMHVERFISMAT NÁI TIL ALLS SUÐVERSTURLANDSINS

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði bendir á þá staðreynd í bókun í bæjarráði að orkuþörf stóriðjuáforma á suðvesturhorninu samsvari “fjórum nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá, frá Búðarhálsi að Urriðafossi og fimm til sjö nýjum jarðvarmavirkjunum á svæðinu frá Hengli og út á Reykjanes.”
Svo mikil orkuöflun “myndi valda stórkostlegu raski og fjölmargar háspennulínur myndu rísa á svæðum sem í dag eru án slíkra mannvirkja.” Þess vegna sé nauðsynlegt að sveitarfélögin sem kæmu til með að verða fyrir áhrifum af fyrirhuguðum framkvæmdum beiti sér fyrir því að heildstæð áætlun verði tekin í umhverfismat ...”sem nái til allra stóriðjuáforma suðvestanlands að virkjunum og raflínulögnum meðtöldum.”
Þá hefur Guðrún Ágústa bókað mótmli gegn þvi að meirihlutinn í Hafnarfirði neiti að láta styðja myndarlega við bakið á Sól í Straumi Sól í Straumi: “Það er ekki nóg að skapa íbúum aðstöðu til að segja sína skoðun í atkvæðagreiðslu. Það þarf að reyna að tryggja jafna og lýðræðislega baráttu. Það hefur ekki verið gert í Hafnarfirði.... Það er leitt að bæjarráð sjái sér ekki fært að styrkja af stórmannlegri hætti við frjáls félagasamtök sem mega sín lítils gegn ofurvaldi alþjóðlegs stórfyrirtækis sem teygir anga sína um allan heim.”

 Bóknair Guðrúnar Ágústu fylgja hér á eftir:

 Bókun vegna Landsnets, breytingar á háspennulínum:
Bæjarfulltrúi Vinstri grænna telur nauðsynlegt að jarðlagnaleið sé raunverulegur valkostur í matsáætlun Landsnets fyrir háspennulínur frá Hellisheiði að Straumsvík. Í matsáætlun Landsnets er aðeins að litlu leyti gert ráð fyrir að rafmagn verði flutt með jarðstrengjum. Matsáætlun Landsnets er aðeins lítill hluti af stóriðjuframkvæmdum sem eru í undirbúningi suðvestanlands. Áform um álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík kalla á 8,2 TWst af raforku á ári en til viðmiðunar má benda á að heildar raforkunotkun á Íslandi í dag er um 8,6 TWst á ári. Þá er ótalin orkuþörf hugsanlegs álvers í Þorlákshöfn.
Orkuþörf stóriðjuáforma á suðvesturhorninu samsvarar fjórum nýjum vatnsaflsvirkjunum í Þjórsá, frá Búðarhálsi að Urriðafossi og fimm til sjö nýjum jarðvarmavirkjunum á svæðinu frá Hengli og út á Reykjanes. Það segir sig sjálft að þessi orkuöflun myndi valda stórkostlegu raski og fjölmargar háspennulínur myndu rísa á svæðum sem í dag eru án slíkra mannvirkja.
Á þessu sést að nauðsynlegt er að sveitarfélögin sem verða fyrir áhrifum af fyrirhuguðum stóriðjuframkvæmdum verður beiti sér fyrir því að heildstæð áætlun verði tekin í umhverfismat á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Umhverfismatið nái til allra stóriðjuáforma suðvestanlands að virkjunum og raflínulögnum meðtöldum. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir

Bókun vegna afgreiðslu bæjarráðs á beiðni Sólar í Straumi um styrk frá Hafnarfjarðarbæ:
Það er ekki nóg að skapa íbúum aðstöðu til að segja sína skoðun í atkvæðagreiðslu. Það þarf að reyna að tryggja jafna og lýðræðislega baráttu. Það hefur ekki verið gert í Hafnarfirð.
Það er augljóst að aðstöðumunur risafyrirtækisins Alcan og hópsins Sólar í Straumi er gríðarlegur. Annars vegar er um að ræða hóp fólks sem vinnur í sjálfboðavinnu og hins vegar alþjóðlegt stórfyrirtæki. Það er sýn Vinstri grænna að þennan aðstöðumun beri að jafna af fremsta megni og áréttar mikilvægi þess að bæjaryfirvöldum ber skylda til að jafna þennan aðstöðumun.
Það er leitt að bæjarráð sjái sér ekki fært að styrkja af stórmannlegri hætti við frjáls félagasamtök sem mega sín lítils gegn ofurvaldi alþjóðlegs stórfyrirtækis sem teygir anga sína um allan heim.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar neita að tjá sig um sína afstöðu í málefni Alcan. Þau tjá sig hvorki um afstöðu sína til stækkunar né hafa þau heldur gert athugasemdir við takmarkalausan fjáraustur erlends auðhrings, heldur leyfa honum átölulaust að nýta fjármagn sitt til þess að reyna að hafa áhrif á Hafnfirskt lýðræði.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir