Fara í efni

VESTFJARÐAHEIMSÓKN: FRÓÐLEG OG UPPLÝSANDI


Nokkrum sinnum hef ég ferðast um Vestfirði, notið þar náttúrufegurðar og gestrisni. Nú er ég búinn að fara um Vestfirði sem ráðherra samgöngumála. Enn naut ég náttúrufegurðar og gistrisni en nú var komið nýtt til sögunnar: Áhugi á samgöngumálum, ástandi vega, flugvalla; augun á hverri holu og nibbu upp úr vegi.

Mikið áunnist

Ekki hefur farið fram hjá neinum hve mikið hefur áunnist í samgöngumálum á Vestfjörðum á undanförnum árum og má þar nefna veginn um Arnkötludal sem tengir Dalina og Strandir, vegabætur í Ísafjarðardjúpi að ógleymdum Bolungarvíkurgöngum sem opnuð voru síðastliðið haust. Og enn eru menn að, nú á sunnanverðum Vestfjörðum auk þess sem framkvæmdir eru víða að hefjast svo sem á Strandavegi nærri Hólmavík.

En það breytir því ekki að enn víðar er um mikið torleiði að fara og nefni ég þar sérstaklega hluta Vestfjarðavegar og síðan Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði sem gera leiðina á milli noðurhluta Vestfjarða og Suðurfjarðanna ófæra um langan tíma á snjóþungum vetrum auk þess sem vegirnir eru erfiðir á öllum tímum árs.

Listfeng hótelstýra

Víða sáust merki um skemmtilega sprotastarfsemi. Nefni ég þar sem dæmi hótel Ráðagerði á Patreksfirði. Þar var áður hús í niðurníðslu eða þar til Linda Björg Árnadóttir, aðjúnkt og fagstjóri hönnunardeildar Listaháskóla Íslands, fór um það höndum, endurhannaði og endurgerði, þannig að úr varð stílhreint hús, svart að utan, hvítt að innan með listrænu yfirbragði - og listmuni hótelstýrunnar til sölu!
Þá var gaman að koma í Sjóræningjahúsið á Patreksfirði þar sem Alda Davíðsdóttir og Davíð Rúnar Gunnarsson ráða ríkjum. Þar var áður vélsmiðja en er nú smám saman að umbreytast í tónleikamiðstöð og matsölustað sem tekur á móti hópum. Þar snæddi ég ásamt ferðafélögum gómsæta og afar vel matreidda bleikju í skemmtilega hráu umhverfi gömlu vélsmiðjunnar.

Ylur frá Evrópusambandinu

Við ornuðum okkur við eldinn af vörubrettum sem gaman var að sjá verða að ösku á gríðarmikilu eldstæði. Mér sýndist brettin vera merkt Evrópusambandinu. Nóg brenni, góður matur og romm af öllum hugsanlegum gerðum. Hvað annað í sjóræningjahúsi! Safnið er að vísu ekki komið en eigendurnir sögðu að það stæði til bóta. Sjóræningjahúsið yrði ekki safn þar sem ekkert mætti snerta. Þvert á móti yrðu gestir beðnir um að snerta allt sem þeir kæmust í tæri við! Hlakka til að koma á sjóræningjahúsið á Patreksfirði með krakkahóp - þegar þar að kemur.

Úrbóta þörf

Eftir stendur að þrátt fyrir allar vegabætur á Vestfjörðum búa Vestfirðingar við lakari vegasamgöngur en aðrir landsmenn. Á sumum svæðum Vestfjarðakjálkans er spurningin ekki hvort komast megi hraðar yfir milli byggðarlaga, heldur hvort yfirleitt sé hægt að komast. Úr því verður að bæta.