Fara í efni

VERSLUNARRÁÐIÐ VILL LOKA NÝSKÖPUNARSJÓÐI

Verslunarráð Íslands hefur eina ferðina enn sent frá sér tilkynningu. Að þessu sinni um að Nýsköpunarsjóði verði lokað. Í yfirlýsingu VÍ segir m.a. : “Færa má rök fyrir því að ríkisreknir sjóðir séu réttlætanlegir ef markaður er í viðjum ríkisafskipta. Hins vegar sýnir þróun síðustu ára að þegar frjálsræði hefur verið innleitt á fjármagnsmarkaði er ríkisrekstur einfaldlega ósamkeppnisfær við einkaframtakið.” Þessu er slengt fram án nokkurs sannfærandi rökstuðnings. Að því leyti sker þessi yfirlýsing sig ekki úr öðrum yfirlýsingum ráðsins.
Upp í hugann kemur Íbúðalánasjóður. Hann vill Verslunrráðið einnig feigan. Þar talar ráðið máli bankanna sem ólmir vilja komast yfir allar lánveitingar til húsakaupa í landinu. Við nánari lestur á yfirlýsingu Verslunarráðsins kemur í ljós að hið sama er hér uppi á teningnum. Verslunarráðið er einfaldlega að hvetja til þess að ríkið afhendi fjármálastofnunum þá fjármuni til ráðstöfunar sem nú renna til Nýsköpunarsjóðs. Málatilbúnaður er því sambærilegur við aðförina að Íbúðalánasjóði. Það “er mikilvægt”, segir í yfirlýsingu Verslunarráðsins, “að koma því svo fyrir að það fjármagn sem ríkisvaldið ætlar til nýsköpunar í framtíðinni verði nýtt til samvinnuverkefna við fjármálastofnanir. Ef fallist er á það að ríkið eigi að taka þátt í nýsköpun þá er ákjósanlegast að allar fjármálastofnanir eigi jafnan möguleika á þátttöku í verkefnum með sjóðnum en honum yrði eftir sem áður stýrt af óháðri stjórn hans sem legði mat á verkefni hverju sinni.”
Í þessu er sem sagt réttlætisbarátta Verslunarráðs Íslands fólgin, að skipta fjármagninu frá skattborgaranum á milli fjármálastofnana!
Fréttir berast nú af hrikalegri þróun í íslensku fjármálalífi. Augljóst er að innlendir og erlendir fjármálamenn hafa þjóðina að féþúfu og er framtíð efnahagslífsins teflt í tvísýnu með samspili vanhugsaðrar stóriðjustefnu stjórnvalda og stórfelldu innstreymi lánsfjármagns til landsins. Braskarar sjá sér nefnilega leik á borði að maka krókinn á þeim vaxtamun sem er á milli Íslands og viðskiptalanda okkar. Peningar eru teknir að láni þar sem vextir eru lágir og síðan lána fjármálastofnanir Íslendingum á okurkjörum. Þetta kallar greiningardeild KB banka því kurteislega nafni “högnunarviðskipti”.
Á hættumerkin benda nú ábyrgir aðilar í fjármálalífinu. Verslunarráð Íslands er hins vegar við sama gamla heygarðshornið  Í framangreindri glænýrri yfirlýsingu ráðsins eru tekin bakföll af ánægju yfir þróuninni: “Til allrar hamingju hefur frjálsræði á fjármagnsmarkaði farið vaxandi á síðastliðnum árum og tíminn leitt í ljós að það var hárrétt ákvörðun á sínum tíma að sameina og einkavæða Framkvæmdasjóð, Iðnlánasjóð, Fiskveiðisjóð og ríkisbankana. En betur má ef duga skal og nú er fyrir löngu kominn tími til að klára að hreinsa til á íslenskum fjármagnsmarkaði.”
Já, það þarf að halda áfram að hreinsa til! Vonandi verður það ekki enn gert á forsendum Verslunarráðsins. Framangreindir sjóðir voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem síðan var afhentur Íslandsbanka. Um þessa ráðstöfun má hafa mörg orð. En það er umhugsunarefni að nú er farið að tala um að efla þurfi Byggðastofnun sem lánastofnun fyrir fólk og fyrirtæki. Bent er á að ef bankarnir sjái sér ekki hag í því að lána þurfandi  fyrirtækjum, sem framangreindir sjóðir áður sinntu, þá láti þeir önnur sjónarmið, atvinnuöryggi og þess vegna þarfir sprotafyrirtækja lönd og leið.
Skyldi vandi Nýsköpunarsjóðs ekki fyrst og fremst vera sá, að hann þurfi meira fjármagn. Ríkisstjórnin lætur, sem kunnugt er, nýsköpunarfjármagn renna ótæpilega til stuðnings fyrirtækjum sem hún telur þurfa aðstoðar við, Alcoa og annarra slíkra, en vanrækir hins vegar Nýsköpunarsjóð.
Þetta er vandinn: Hve Nýsköpunarsjóði  er þröngur stakkur skorinn af hálfu fjárveitingavaldsins. Sá vandi verður ekki leystur með því að hleypa öllum fjármálafyrirtækjum á garðann þar sem skattfé landsmanna er ráðstafað.