Fara í efni

Verslunarráð Íslands bregst aldrei

Vinur minn einn sagði í gærkvöldi eftir að þulir úttvarpsstöðvanna höfðu tíundað boðskap Verslunarráðs Íslands um einkavæðingu almannaþjónustunnar, að gamla góða VÍ brygðist aldrei hvernig sem á málin væri litið. Spaugstofan færi í frí og samstundis fyllti VÍ skarðið. Og vildu menn taka óhúmorískan pól í hæðina þá mætti líta á Verslunarráðið sem eins konar kjölfestu, alltaf tilbúið að leggja til að eins og einn spítali verði einkavæddur. Í heimi þar sem allt væri hverfult og mótsagnakennt, Halldór Ásgrímsson meira að segja farinn að brosa niður af hverjum húsvegg í Reykjavík og Íhaldið kvæðist vera brjóstvörn öryrkja, þá væri gott að hafa einhvers staðar fastan póst í tilverunni, maður vissi jú alltaf hvar maður hefði Verslunarráð Íslands. Þetta sagði minn ágæti vinur.

Ég svaraði honum á móti að hann skyldi ekki taka yfirlýsingum Verslunarráðsins af léttúð. Hann hefði að vísu allan skilning minn þegar hann freistaðist til að taka yfirlýsingum Verslunarráðs Íslands sem hverju öðru flími. Þegar sagt væri að einkavæða þyrfti tugi ríkisstofnana án þess að tilgreina hverjar þær væru eða þegar Verslunarráðið staðhæfði að einkavæðing almannaþjónustunnar væri þjóðfélaginu hagkvæm þótt öll reynsla bæri vitnisburð um hið gagnstæða þá hljómaði þetta vissulega eins og óábyrgt grín.

Engu að síður ráðlagði ég nú vini mínum að setjast niður og hugsa kalt og raunsætt um hinn hrollkalda veruleika eins og hann blasti nú við okkur. Það væri nefnilega eitt í veruleikanum sem gæfi Verslunarráðinu tilefni til bjartsýni. Það fyrirbrigði gengi undir nafninu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Og ég bætti því við að ég efaðist ekkert um að ef hann hugleiddi þetta nánar þá myndi honum ekki lengur verða skemmt yfir yfirlýsingum Verslunarráðsins. Þegar allt kemur til alls eru þarna á ferðinni alvöru hagsmunasamtök sem nú eru í þann veginn að skila sínum mönnum eina ferðina enn inn í Stjórnarráð Íslands. Því verður ekki á móti mælt að þær ríkisstjórnir sem hér hafa stjórnað undanfarin ár hafa búið í haginn fyrir skjólstæðinga Verslunarráðsins; fjárfesta sem staðráðnir eru í því að maka krókinn á kostnað skattborgarans og allra þeirra sem þurfa að reiða sig á velferðarþjónustuna. Og nú er Verslunarráðið fyrir hönd þessara aðila að minna á sig. Í þessum skilningi er óhætt að segja að Verslunarráð Íslands bregðist aldrei!