Fara í efni

VERKEFNI FRAMTÍÐARINNAR: NÁTTÚRUVERND OG JAFNRÉTTI KYNJANNA

Drífa Snædal, nýráðin framkvæmdastýra Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir í grein hér á síðunni að ástæðan fyrir velgengni VG í nýafstöðnum kosningum sé ekki einvörðungu að þakka hefðbundnum félagshyggjuáherslum flokksins, heldur einnig og ekki síður því að VG hafi tekið upp á sína arma náttúruvernd og jafnrétti kynjanna: "Vinstrihreyfingin – grænt framboð stimplaði sig inn sem þriðja stærsta stjórnmálaafl landsins og vinstrisveiflan er sjáanleg. Það er þó annað og meira en hin hefðbundna félagshyggja sem gerir fylgi við vinstri græn eins mikið og raun ber vitni. Flokkurinn hefur tekið upp á sína arma helstu verkefni framtíðarinnar, náttúruvernd og jafnrétti kynjanna. Hið framsýna fólk innan Vinstri – grænna veit að náttúruauðlindir má ekki fara með sem ódýran gjaldmiðil fyrir stundarhagsmuni, heldur vernda fyrir komandi kynslóðir. Vinstri – græn vita það líka að jafnrétti kynjanna er ekki í höfn og fæst ekki fyrr en kvenfrelsi er náð. Misréttið þrífst í hefðbundnu gildum sem hygla öðru kyninu á kostnað hins og átak þarf til breytinga."

Þetta er rétt hjá Drífu Snædal. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur stimplað náttúruverndaráherslur inn í íslensk stjórnmál frá því flokkurinn varð til undir aldamótin og áhersla á jafnrétti kynjanna hefur einnig verið ein af grunnstoðum hreyfingarinnar. Sú hugsun er ekki ný af nálinni. Hún fléttast saman við hefðbundna félagshyggju, sem byggir á jöfnuði og andstöðu við hvers kyns misrétti. Það er hins vegar rétt hjá Drífu Snædal að jafnréttisbaráttufáninn hefur nú verið hafinn á loft af miklum krafti og standa þar fremst í flokki hópur ungra kvenna, sem sett hafa mark á umræður og áherslur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Baráttugleði og kraftur þeirra hefur smitað út í þjóðfélagið, sem finnur að hugur fylgir máli. Þetta hefur án efa haft áhrif við kjörborðið.

Drífa Snædal hefur verið kröftugur málsvari fyrir jafnrétti og kvenfrelsi en hún hefur undanfarin ár verið fræðslu- og framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. Hún hefur setið í stjórn VG frá stofnun, var virk í Stefnu, félagi vinstrimanna, sem átti á sínum tíma nokkurn þátt í því að VG varð til. Drífa Snædal hefur setið á þingi sem varaþingkona og stöðu ritara flokksins hefur hún gegnt frá 2003. Hún tekur við starfi framkvæmdastýru VG með haustinu af Svandísi Svavarsdóttur, sem kjörin hefur verið í borgarstjórn Reykjavíkurborgar – einsog kunnugt er.

Sjá grein Drífu HÉR