Fara í efni

VERÐLAUNAÐIR AÐ VERÐLEIKUM

Geir Hallst. og Guðmundur Gísla
Geir Hallst. og Guðmundur Gísla


Að venju voru fræknir íþróttakappar valdir í efstu sætin í útnefningu íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Hnossið sjálft hlaut hinn frábæri knattspyrnumaður, Gylfi Þór Sigurðsson en í öðru sæti og fast á hæla hans, var sundkonan, Hrafnhildur Lúthersdóttir, sem á árinu gerði garðinn frægan og  golfsnillingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í þriðja sæti..
Þessu fólki hljótum við öll að samgleðjast svo og öðrum sem hlutu viðurkenningu.

Þar staldra ég að sjálfsögðu við einstaklingana tvo, sem fengu eins konar allsherjar viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþrótta á löngum og farsælum ferli sínum. Það voru sundkappinn Guðmundur Gíslason og handboltamaðurinn Geir Hallsteinsson, nöfn sem stöðugt voru í fréttum áratugum saman.

Stundin var magnþrungin þegar þeim var veitt þessi mikla viðurkenning og grunar mig að öll höfum við komist við á þeirri stundu. Það er ekki á hverjum degi að einstaklingar hljóta slíka viðurkenningu fyrir framlag sitt heima og heiman fyrir hönd okkar allra.

Það var dæmigert fyrir báða þessa menn af hve mikilli hófsemd og líttilæti þeir höfðu orð á eigin framlagi við athöfnina í gær enda minnist ég þeirra beggja einmitt alveg sérstaklega fyrir slíka framkomu, jafnvel þegar þeir höfðu unnið sín mestu afrek.

Slíkir menn eru góðar fyrirmyndir. Þeim er báðum óskað hjartanlega til hamingju með heiðursviðurkenninguna, sem svo sannarlega er verðskulduð!

http://sportpress.is/1962-gudmundur-gislason/     

http://sportpress.is/1968-geir-hallsteinsson/