Fara í efni

VELKOMINN HEIM?

Milton friedman og Pinochet
Milton friedman og Pinochet

Að vísu eru það svolítið seint nú að spyrja hvort Nóbelsverðlaunahafinn í frjálshyggjuhagfræði og ráðgjafi Pinochets einræðisherra í Chile, Milton Friedman, væri velkominn í Pírataflokkinn íslenska væri hann íslenskur þegn. Friedman andaðist nefnilega fyrir tíu árum. Það veit líka Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem beindi þessari  spurningu til Helga Hrafns Gunnarssonar, kapteins Pírata.

Markmiðið var augljóslega að varpa ljósi á pólitíska afstöðu Pírataflokksins. Og það tókst.

Milton Friedman væri velkominn til Pírata, sagði Helgi Hrafn, ef hann aðhylltist grunngildi flokksins. Átti hann þar væntanlega við gagnsæi, opið lýðræði og góða stjórnunarhætti.

Sjálfum finnst mér þessi grunngildi vera góð og aðhyllist ég þau mjög afdráttarlaust.

En er það virkilega nóg? Þeirri spurningu beini ég til landsmanna almennt sem innlegg í pólitíska umræðu.

Er nóg að segja að fara skuli að lögum um rammaáætlun um orkumál en skila síðan auðu um hvort skuli virkjað eða hvað skuli virkjað og hve mikið?

Er nóg að segja að efla skuli heilbrigðiskerfið en skila auðu um rekstrarform?

Þarf NATÓ bara að vera gagnsætt og starfa samkvæmt lögum og reglum, er þá allt í góðu lagi?

Og á einn helsti talsmaður öfgafullrar markaðshyggju heima í flokki sem þriðjungur landsmanna segist styðja? Þetta eru fróðleg skilaboð um pólitískt landslag á Íslandi.

Getur verið að pólitík, sem snýst um skipulag samfélagsins, afstöðu til jafnaðar og ójafnaðar, atvinnustefnu og hernaðarhyggju, sé á útleið á Íslandi? Segja skoðanakannanir okkur ef til vill að svo sé?

Getur verið að Milton Friedman komi til með að eiga heima í öllum flokkum áður en langt um líður?

Þegar á hann heima í tveimur. Vitað var um Sjálfstæðisflokkinn, alla vega Hólmsteins-arminn. Um það höfum við nú fengið fréttir að þessi helsti merkisberi öfgafullrar markaðshyggju á 20. öldinni, hefði verið boðinn velkominn heim ef hann hefði bankað upp á hjá íslenksa Pírataflokknum!

Sennilëga þykir þetta engin frétt. Það segir sína sögu.