Fara í efni

Velferðarkerfi fyrir alla eða fátækraaðstoð?

Pétur Blöndal er heiðarlegur maður og hreinskiptinn. Hann segir alltaf upphátt það sem samflokksmenn hans hugsa margir en segja sjaldan. Og aldrei fyrir kosningar, aðeins eftir kosningar. Pétur Blöndal skrifaði grein í Morgunblaðið um helgina þar sem hann setur fram hugmyndir um grundvallarbreytingar á velferðarþjónustunni, að hún verði eins konar ölmusukerfi fyrir fátækasta hluta þjóðarinnar, aðrir bjargi sér á einkamarkaði. Pétur varpar fram þeirri spurningu hvort velferðarkerfið eins og það nú er skipulagt geri alla jafnfátæka.

 

Efnahagur ráði?

Pétur veltir því fyrir sér hvort velferðarþjónustan eigi að ná til 10 eða 15% þjóðarinnar enda sé „…örugglega ekki hægt að veita allri þjóðinni hjálp.“ Pétur vill með öðrum orðum hverfa frá þeirri hugsun sem velferðarkerfið íslenska er reist á. Á honum er að skilja að velferðarþjónustan eigi ekki að byggja á samhjálp fyrir þjóðfélagsþegnana alla heldur eigi að draga fólk í dilka eftir efnahag.

Nú hefur oft komið í ljós í margs konar könnunum að þjóðin vill öfluga velferðarþjónustu sem allir standi jafnfætis gagnvart. Íslendingar vilja ekki að fólki sé mismunað eftir efnahag í skólum og inni á sjúkrastofum heldur njóti þar allir jafnræðis. Þetta er ekki einvörðungu spurning um félagslegt réttlæti heldur einnig fjárhagslegt hagræði eins og dæmin sanna. Þannig er til dæmis hvergi eins mikill kostnaður við heilbrigðiskerfið og í Bandaríkjunum þar sem einna lengst hefur verið gengið fram í þeirri stefnu sem Pétur Blöndal boðar.

 

Ræðum málin fyrir kosningar ­ekki eftir á

Eftir síðustu alþingiskosningar gerðu ríkisstjórnarflokkarnir með sér málefnasamning þar sem opnað var á einkavæðingu í velferðarþjónustunni og einsog þjóðin fékk að kynnast á kjörtímabilnu var hafist handa við að innleiða þá stefnu, farið var að krefjast þjónustugjalda á sífellt fleiri sviðum og búið var í haginn fyrir markaðsvæðingu á sjúkrastofnunum, í skólum og annars staðar í almannaþjónustunni.

Það var óneitanlega mjög óheiðarlegt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að hafa ekki gert grein fyrir stefnumiðum sínum á þessu sviði fyrir kosningar en ráðast síðan í grundvallarbreytingar að kosningum loknum. Þess vegna fagna ég því að Pétur Blöndal vilji hafa annan hátt á. Hann þarf hins vegar að koma með nánari skýringar. Pétur Blöndal segist vilja skipulag þar sem þjóðinni sé búin „hófleg velferð“ og þar sem flestir greiði fyrir þjónustuna „úr eigin buddu.“ Þess þurfi sérstaklega að gæta að þeir sem njóti velferðarþjónustunnar megi „aldrei bera meira úr býtum en sá sem greiðir bæturnar með sköttum sínum.“ Hvað á maðurinn nákvæmlega við?

 

Hvar á að láta staðar numið?

Nú vitum við að læknisaðgerðir og þjónusta við marga einstaklinga sem hafa orðið fyrir skakkaföllum í lífinu er mjög kostnaðarsöm. Ná þessir útreikningar Péturs Blöndal, þingmannsefnis Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, til þeirra? Hvaða þætti velferðarþjónustunnar er hann að tala um? Er hann að ræða um uppeldis- og menntakerfi? Vill hann einkavæða skólana? Hvar á að láta staðar numið? Eða á ef til vill ekkert að láta staðar numið?

Pétur Blöndal verður að gera nánar grein fyrir máli sínu. Kjósendur eiga kröfu á því. Pétri Blöndal er hér með boðið til málfundar um velferðarþjónustuna þar sem spurt verði hvorn kostinn menn vilji, velferðarkerfi fyrir alla eða fátækraaðsoð fyrir fáa.