Fara í efni

VEL HEPPNUÐ TILLAGA BJARKAR

Strákur og hermaður
Strákur og hermaður

Tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur um að Reykjavíkurborg sniðgangi vörur frá Ísrael meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir" er mjög vel heppnuð að öðru leyti en því að stjórnendur Reykjavíkurborgar virðast ekki búa yfir hugrekki og úthaldi til að fylgja samþykktinni eftir.

Viðbrögðin í Ísrael og víða erlendis eru ágætur mælikvarði á mikilvægi þessarar samþykktar.

Fyrir Ísrael skiptir sniðganga Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum engu máli ein og sér. En samþykktin gæti orðið smitandi; ef fleiri bæir og borgir tækju þetta upp þá gæti þetta farið að bíta efnahagslega. Að ekki sé minnst á heimilin.

Móralskt er tillagan strax farin að bíta. Talsmenn Ísraelsstjórnar, þar á meðal fyrrum utanríkisráðherra, skrifa langhunda til varnar apphartheid stefnu stjórnar sinnar; vilja sýna fram á, með tilvísan í tölfræði, hve fáa aðskilnaðarstefnan og blóði drifin framkvæmd hennar, (mitt orðalag en ekki þeirra) hafi drepið í samanburði við önnur stríð í heimshlutanum, nú síðast í Sýrlandi. En mælikvarðinn á siðleysi og ranglæti er ekki bara tölfræði; hve margir eru drepnir og hve margir eru særðir. Hann snýr að því hvernig farið er með vald, hann snýr að ofbeldi og kúgun.

Aðrir segja sniðgönguna brot á jafnfræðisreglu markaðstorgsins og ekki standast alþjóða visðkiptasáttmála. Í samræmi við þetta er hótað kærum og dómsmálum.

Síðan erum við minnt á að mikilvæg lyf og tölvubúnaður eigi uppruna í Ísrael; hvort Íslendingar ætli að hafa lyf og tæknibúnað af sjúklingum Landspítalans (sem náttúrlega er ekki stofnun á vegum Reykjavíkurborgar).

Aðrir segja að málið snúist um gyðingahatur og kynþáttafordóma.

Andúð á gyðingum kemur hér hvergi nærri enda margir gyðingar harðdrægustu gagnrýnendur Ísraelsstjórnar. Ég skal hins vegar  fallast á að málið snúist um kynþáttafordóma að því leyti að Apphartheidstefna Ísraelsstjórnar tengist vissulega slíkum fordómum. Ég hef skoðað kynþáttamúrinn og aðskilnaðargirðingar á herteknu svæðunum í Palestínu og er tilbúinn að ganga nokkuð langt til þess að fá þá rifna niður og að látið verði af þeirri svívirðu sem aðslkilnaðarstefnan og ofbeldið gagnvart Palestínumönnum er.

Tillaga Bjarkar Vilhelmsdóttur snerist um innkaupastefnu. Að tala um slíkt sem brot á alþjóðaviðskiptasamningum er hlálegt. Sveitarfélög hljóta að hafa leyfi til að marka sér innkaupastefnu á siðferðilegum forsendum; að kaupa ekki vörur framleiddar af barnaþrælum, eða að taka umhverfisvæna framleiðslu fram yfir aðra og hví ekki að láta vera að kaupa af þeim sem reisir kynþáttamúr á yfirráðasvæði sínu, brýtur samþykktir Sameinuðu þjóðanna áratugum saman og heldur tæpum tveimur milljónum manna í herkví eins og Gaza svæðið er dæmi um?

Borgarstjóri segist vilja endurskpoða afstöðu sína og hverfa frá stuðningi við tillögu Bjarkar. Ég skora á hann að endurkoða hug sinn enn!