Fara í efni

Veit Alþýðusamband Íslands hvert förinni er heitið?

Birtist í Morgunblaðinu 05.0.9.2003
Alþýðusambandið hefur sett fram kröfu um bætt lífeyrisréttindi félagsmanna sinna. Í kröfum sínum vísar ASÍ til réttinda opinberra starfsmanna. Allt er þetta skiljanlegt, eðlilegt og réttmætt ef ekki væri sá tónn í málflutningnum að hinir síðarnefndu væru í raun oftryggðir. Nú hefur það gerst að ASÍ hefur vísað kröfum sínum til umboðsmanns Alþingis. Þar heldur verkalýðshreyfingin inn á braut sem ekki verður séð fyrir endann á. Það er vissulega skiljanlegt ef menn telja sig beitta ranglæti að leita allra leiða til úrbóta.

Þörf á fyrirhyggju  

Það breytir ekki hinu að þörf er á að sýna jafnan fyrirhyggju. Lítum ögn nánar á þetta tiltekna mál. Í Morgunblaðinu 2.september er fjallað um kvörtun ASÍ til umboðsmanns Alþingis. Þar segir m.a. um rökstuðning fyrir kvörtuninni, "að mismununin feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga." Haft er eftir Grétari Þorsteinssyni forseta ASÍ, að sambandið hafi í mörg ár reynt að fá þessi réttindi jöfnuð enda sé verið að mismuna fólki hjá sama atvinnurekenda.  Undir kröfur forseta ASÍ skal heilshugar tekið enda hefur BSRB jafnan stutt kröfur um jöfnun réttinda en þá jafnan þannig að réttindin yrðu jöfnuð upp á við en ekki niður. Þetta er grundvallaratriði.

Áralöng barátta fyrir lífeyrisréttindum

Um langt árabil stóð BSRB í harðvítugri varnarbaráttu fyrir lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Þar var við að glíma kröfu til jöfnunar - en niður á við. Réttindin skyldu höfð af opinberum starfsmönnum. Þegar frumvarp þessa efnis kom fram á þinginu 1996 efndu BSRB, BHM og KÍ til fundahrinu með upplýsinga- og hvatningarskrifum til að ná frumvarpinu út úr þinginu. Þessari aðför var að lokum hrundið og síðan var varnarbaráttunni snúið upp í sókn. Í samningum sem stóðu yfir allt sumarið 1996 við ríki og síðan sveitarfélög var búið til nýtt kerfi en þó án þess að réttindi gamla kerfisins væru skert. Nýja kerfið tryggði vissan grunn en þannig var það hannað að það byði upp á vissan sveigjanleika. Þannig fékk Landssamband lögreglumanna því framgengt að eftirlaunaaldur félagsmanna var enn bættur. Það gerðist með stuðningi BSRB. Menn sáu það fyrir sér að í framtíðnni yrði reynt að stytta vinnualdur, alla vega ákveðinna stétta. Þar hefur m.a. verið horft til fólks í margvíslegum öryggisstörfum og umönnunarstörfum. Fyrir þessu verður án efa barist á komandi árum. Vonandi verður það þó gert með samningum en ekki með því að skjóta málinu til umboðsmanns Alþingis. Sú hætta er nefnilega fyrir hendi verði farið með "kjarabaráttuna" út á þá braut, að afleiðingin verði sú að viðsemjendur fari varlega í samningum við sérhvern aðila einfaldlega vegna þess að þeir geta þá gengið að því vísu að dómstólarnir bíði þeirra að samningum loknum. Og hvaða áhrif hefði þetta á stéttabaráttuna? Augljóst er að þetta myndi grafa undan samningum einstakra félaga. Samningarnir hættu að skipta eins miklu máli og áður og þá hugsanlega einnig hvort einstaklingar yfirhöfuð ættu aðild að verkalýðsfélögum. Allir ættu einfaldlega rétt á hinu sama samkvæmt jafnræðisreglu.

Markmiðin góð en aðferðafræðin varasöm

ASÍ er ekki eitt um að hafa gramist mismunun hjá hinu opinbera. Oft hef ég staðið í þeirri stöðu bæði sem formaður í stéttarfélagi og í heildarsamtökum að horfa upp á mismunun eftir því hvar "fólk kýs að vera í verkalýðsfélagi¨ svo vitnað sé í forseta Alþýðusambandsins í fyrrnefndri Morgunblaðsumfjöllun. Hér vísa ég til dæmis til mishárra greiðslna í sjúkra-, starfsmenntunar- eða vísindasjóði.
Þá get ég nefnt dæmi um launamismunun í stofnun sem ég þekkti vel til í, Ríkisútvarpinu. Þar voru lengi vel tvö aðildarfélög BSRB starfandi. Í tvennum eða þrennum kjarasamningum í röð lagði annað félagið áherslu á kjör lægst launaða fólksins og þótti þá jafnframt forsóma millistjórnendur og stjórendur sem drógust aftur úr miðað við þróunina í hinu félaginu. Mismununin birtist með öfugum formerkjum í hinu félaginu. Einhvern tíma kom til tals hvort þetta stæðist jafnræðisreglu. Mér er það minnisstætt hve eindregið ég varaði við því  að farin yrði dómstólaleið. Nú er þetta "vandamál" einfaldlega ekki fyrir hendi því þessi tvö félög hafa sameinast!
Ég legg áherslu á að kröfur ASÍ um bætt kjör félagsmanna sinna eru réttmætar og eðlilegar. Á sama hátt vænti ég þess að þau á þeim bænum styðji kröfur BSRB um að varðveita réttindi sinna félagsmanna og sækja fram fyrir bættum réttindum, til dæmis varðandi sjúkrasjóði.
Hins vegar vara ég við þeirri aðferðafræði sem ASÍ beitir. Ef fólki er mismunað eftir því einu hvar það kýs að standa í verkalýðsfélögum gæti verið ástæða til að hyggja að okkar innra skipulagi líkt og gert var í Ríkisútvarpinu á sínum tíma.
Auðvitað á launafólk að starfa saman að því að vinna að bættum réttindum allra. Þar mega skipulagsformin ekki verða okkur fjötur um fót. Þvert á móti þá eigum við að skipuleggja okkur þannig að sem mestur styrkur verði af. Þarna veit ég að ég tala einum rómi með forystumönnum ASÍ og reyndar einnig annarra heildarsamtaka launafólks í opinbera geiranum.