Fara í efni

VEGGJÖLD Í LEIÐARA

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Mbl. 05.05.11
Í leiðara Morgunblaðsins í gær er varað við veggjöldum sem nýjum tekjustofni. Núverandi ríkisstjórn sé ekki treystandi að fá nýja tekjustofna í hendur, segir leiðarahöfundur, því hætt sé við að þar með verði settar auknar álögur á umferðina. Í leiðaranum er jafnframt vísað í upplýsingar um tekjur af umferð á tilteknum fjölförnum leiðum og færð rök fyrir því að svo mikils fjár sé aflað í ríkissjóð vegna umferðar um þær að veggjalda sé ekki þörf til að standa fyrir umfangsmiklum vegabótum þar.

Hér er bryddað upp á mikilvægu umræðuefni og skiptir miklu máli að forsendur umræðunnar séu skýrar en því miður er ekki alltaf svo.

Í fyrsta lagi tel ég að framtíðin beri það í skauti sér að skattlagning á umferð færist yfir í veggjöld að einhverju leyti þegar fram líða stundir og tækni býður upp á slíkt. Þetta mun hafa ýmsa kosti í för með sér. Þannig væri til dæmis hægt að hafa áhrif á umferðarþunga í samræmi við umhverfissjónarmið. Þetta er nú uppi í umræðu um fjármögnun vega bæði vestan hafs og austan.

Í öðru lagi er mikilvægt að halda þessu aðgreindu frá umræðu sem hefur verið ofarlega á baugi um vegatolla á tilteknum leiðum út úr Reykjavík, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Þessar hugmyndir byggjast á því að afla viðbótarfjár til stórframkvæmda umfram það sem ráð er fyrir gert samkvæmt fjárlögum og umfram það sem ljóst er að rúmist á fjárlögum allra næstu ára. Þetta yrði með öðrum orðum sérstök fjáröflun sem legðist á umferðina á viðkomandi leiðum. Ég hef verið reiðubúinn að tala fyrir þessari lausn en geri það að skilyrði að þetta yrði í sátt við þá sem eiga að borga brúsann og enn fremur að allt sé hér uppi á borði varðandi fjármögnun og hvernig kostnaðurinn yrði greiddur. Ég vil enga opna tékka sem síðar féllu á skattgreiðendur eða kæmu fram í niðurskurði, til dæmis til velferðarmála.

Í þriðja lagi vil ég benda á í framhaldi af leiðaraskrifum Morgunblaðsins í gær, að nálgun höfundar er mjög skyld vegatollahugsuninni að því leyti að horft er til tiltekinna svæða sem eigi að vera sjálfsaflandi. Bent er á að skattar sem innheimtir eru vegna umferðar á þessum svæðum geri gott betur en að standa undir kostnaði við framkvæmdir á þeim.

En mér er spurn, hvort þannig viljum við hafa það, að horft sé til einstakra svæða og þau gerð að efnahagslega sjálfstæðum einingum. Þetta væri fráhvarf frá þeirri hugsun sem við hingað til höfum almennt byggt á og gengur út að fólk á fáförnum svæðum búi við viðunandi samgöngur þótt gjöld af umferð þar myndu aldrei rísa undir kostnaði við þær. Þetta yrði með öðrum orðum fráhvarf frá því að líta svo á að landið allt sé á ábyrgð okkar allra.

En grundvallarspurningin sem við stöndum frammi fyrir núna er hvort vegfarendur eru tilbúnir að láta flýta stórframkvæmdum í vegamálum og greiða sérstaklega fyrir það með vegatollum. Um það snýst umræðan og mælist ég til þess að sem flestir taki þátt í henni. Þess vegna fagna ég leiðaraskrifum Morgunblaðsins um þetta málefni þótt ég sé ekki sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.