Fara í efni

VAXTARVERKIR UMRÆÐUNNAR

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 14.10.12.
Fyrir tveimur árum, nánast upp á dag, efndi þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðuneyti til samráðsfundar um meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu. Til fundarins var boðið fulltrúum allra stofnana réttarkerfisins, þingflokka, fagfélaga, frjálsra félaga og stofnana og samtaka sem koma með öðrum hætti að málaflokknum. Um fjörutíu manns tóku þátt í fundinum en á honum var reynt að varpa ljósi á feril nauðgunarmála í gegnum réttarkerfið og ástæður þess að fjölmargir brotaþola virðast ekki leita til réttarkerfisins.
Á þessum tíma þótti einstaka aðilum umræðan ekki vera til góðs - jafnvel ámælisverð - og létu sumir  þá skoðun í ljósi opinberlega, aðrir bréflega eða augliti til auglitis. Á milli réttarkerfisins annars vegar og stjórnmálanna hins vegar ætti að vera eldveggur og helst þannig að ekki heyrðist á milli. Við sem að þessu fundahaldi stóðum töldum á hinn bóginn eðlilegt að umræður ættu sér stað milli stjórnamálanna og réttarkerfisins um málaflokka sem varða almannaheill. Við slíku væri ekki hægt að fyrtast. Í málefnalegri umræðu væru ekki fólgin óeðlileg afskipti stjórnmálamanna nema síður væri. Réttarkefið yrði að virða rétt stjórnmálanna til umræðu á sama hátt og stjórnmálamönnum bæri að virða sjálfstæði réttarkerfisins. Annað væri ávísun á stöðnun.
Frá þessum tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og má nú merkja mikinn vilja allra hlutaðeigandi til samstarfs og opinnar umræðu  með það að markmiði að betrumbæta réttarkerfið þar sem þess er kostur - og kannski líka stjórnmálahefðina; gera stjórnmálaumræðu hnitmiðaðri og lausnamiðaðri.
Í  framhaldi af fyrrgreindum samráðsfundi voru haldnir smærri fundir. Þar komu fram fjölmargar ábendingar um betrumbætur á réttarkerfinu en jafnframt ríkt ákall um frekari fræðslu, rannsóknir og umræðu. Ráðuneytið tók þetta alvarlega og hefur í samstarfi við lagadeild Háskóla Íslands stuðlað að umræðu um þessi málefni. Þar ber hæst að nefna alþjóðlega ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota, í samvinnu við Evrópuráðið, sem fram fór í janúar sl. Á þeirri ráðstefnu talaði Liz Kelly, sem er einn virtasti fræðimaður Evrópu þegar kemur að upplifun brotaþola kynferðisofbeldis af að leita réttar síns. Erindi hennar er ásamt öðrum aðgengilegt á heimasíðu innanríkisráðuneytisins.
Alþingismenn  almennt sýndu lengi vel ekki mikinn áhuga á þessu samráði þótt á því væru undantekningar. Þannig sóttu afar fáir stjórnmálamenn samráðsfundina og ráðstefnuna í janúar. Var það miður, enda mikilvægt að samstaðan um að taka á kynferðisofbeldi sé sem víðtækust. Ofbeldið varðar samfélagið allt og þarf að taka á því sem slíku. Aðkomufólk erlendis frá á ráðstefnunni sagði á hinn bóginn  það vera til fyrirmyndar og eftirbreytni að saman væri komið til uppbyggilegrar umræðu um brotalamir í kerfinu og mögulegar úrbætur, eins margt fólk og þarna var frá grasrótarsamtökum, dómstólum, lögreglu og fræðasamfélagi. Enda varð umræðan eftir því.
Nú virðist Alþingi hins vegar vera að vakna til lífsins því í vikunni efndi þingnefnd til samtals um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Þetta er fagnaðarefni því ekki megum við sofna á verðinum. Þótt umræðunni hafi verið hreyft þá er langt í land að björninn sé unninn. Við erum rétt að byrja. Við höfum fundið fyrir vaxtarverkjum umræðunnar og sjáum breytta tíma framundan. Þessi mál mega ekki liggja í þagnargildi, enda varða þau líf og heilsu einstaklinga og velferð samfélagsins í heild.